*

mánudagur, 17. júní 2019
Leiðari
5. september 2015 12:10

Skömmtun eða frelsi

Vegna þess að jöfnuður skiptir marga meira máli en vellíðan sjúklinga er engin leið fyrir þá sem bíða eftir aðgerðum að stytta biðina.

Haraldur Jónasson

Biðlistar eftir skurðaðgerðum voru um miðjan júlí 26% lengri en á sama tíma í fyrra og ef miðað er við þá sem hafa beðið þrjá mánuði eða lengur eftir skurðaðgerð þá nemur aukningin 37% á milli ára. Í júlí biðu 5.723 eftir því að komast í skurðaðgerð og þar af höfðu 4.000 beðið í þrjá mánuði eða lengur, að því er kom fram í ágætri umfjöllun Morgunblaðsins um málið í vikunni. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ætlar að verja 1,2 milljörðum króna til að stytta þessa biðlista.

Núverandi fyrirkomulag í íslenska heilbrigðiskerfinu, þ.e. opinbert kerfi sem kostað er af skattgreiðendum, nýtur mjög almenns stuðnings meðal þjóðarinnar, en sjaldnast er talað um neikvæðar afleiðingar slíks kerfis. Kerfi þar sem fjármagn er skammtað af öðrum en þeim sem sjálfir nota þjónustuna felur nánast óhjákvæmilega í sér að þjónustuna þarf að skammta með einhverjum hætti. Skömmtunin hér á landi felst ekki í því að velja á milli þeirra sem fá og fá ekki, heldur með því að láta fólk bíða jafnvel mánuðum saman þar til það fær bót meina sinna.

Vegna þess að jöfnuður skiptir marga meira máli en vellíðan sjúklinga er engin leið fyrir þá sem bíða eftir aðgerðum að stytta biðina. Jafnvel þótt viðkomandi hefði efni á því að greiða sjálfur fyrir skurðaðgerðina er slíkt ekki í boði. Það að hægt sé að „borga sig fram fyrir“ í röðinni er að mati þessa fólks meiri synd en að láta fólk bíða mánuðum saman, jafnvel sárkvalið, eftir þeirri þjónustu sem það á að hafa fullan rétt á.

Nú kann einhver að segja að vandinn sé ekki rekstrarformið, heldur það fjármagn sem ríkið lætur af hendi til málaflokksins. Þeir sem hafa ofurtrú á getu ríkisins til að gera allt betur en einkaaðilar eru sérstaklega áfram um að þessi leið sé farin. Við þessu er tvennt að segja. Annars vegar það að einhvers staðar verður að finna þetta fé, því varla viljum við reka heilbrigðiskerfið á krít.
Hitt er að skoða frammistöðu ríkisins á öðrum sviðum. Á tímabilinu 2000-2013 jukust framlög hins opinbera til menntamála um 23,6% á föstu verðlagi. Ef marka má niðurstöður Pisa-kannana og annarra slíkra samræmdra prófa hefur þessi fjárfesting ekki skilað þeim árangri sem foreldrar barna eiga rétt á að vænta. Einkunnir virðast reyndar ekki vera marktækar að neinu marki því nokkrir framhaldsskólar eru í þeirri stöðu að öll börn sem þar vilja nema eru með meðaleinkunn yfir 9.

Það að ausa meira fjármagni í gallað kerfi leysir engan vanda. Löngu er tímabært að stjórnmálamenn og þjóðin öll skoði af alvöru og án fordóma hvort ekki sé hægt að bæta kerfið með því að breyta því.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is