*

fimmtudagur, 24. september 2020
Leiðari
5. október 2014 12:30

Skömmtun og kostnaður

Ekki er ólíklegt að kostnaðurinn við vestrænt heilbrigðiskerfi sé einfaldlega meiri en útgjaldatölurnar gefa til kynna.

Haraldur Jónasson

Heilbrigðiskerfið hefur verið milli tannanna á fólki undanfarið, eins og gerist oft þegar ein stétt heilbrigðisstarfsmanna íhugar verkfallsaðgerðir. Í þetta sinn eru það skurðlæknar sem skoða verkfall. Þá tók Læknafélagið saman tölur sem sýna fram á að læknum hér á landi hefur fækkað um 110 frá árinu 2009 og að fleiri læknar flytji frá landinu en flytja hingað inn. Þá hafa unglæknar kvartað undan of lágum launum. Hér verður ekki gert lítið úr þeim vanda sem lýst er hér að ofan.

Laun lækna eru líklega of lág, þótt erfitt sé að fullyrða um það í því einokunarumhverfi sem hér ríkir. Alltént virðast læknar geta sótt sér töluvert betri laun erlendis en þeim býðst á íslenskum sjúkrahúsum. Hvað skýrir þetta? Er Ísland að verja miklu minna fé en nágrannalöndin í heilbrigðismál? Ekki sýna gögn OECD og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) það. Ísland er í sautjánda sæti yfir 35 OECD ríki þegar útgjöld á hvern einstakling eru skoðuð og í átjánda sæti á lista WHO. Samkvæmt tölum OECD verja Íslendingar alls um 9% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og samkvæmt tölum WHO 9,3% af VLF. Þetta er mjög sambærilegt við lönd eins og Bretland og Noreg, þótt vissulega sé þetta minna en gerist í löndum eins og Þýskalandi og Danmörku.

Ekkert ríki ver hærri fjárhæðum í heilbrigðismál en Bandaríkin og vestra er það gjarnan talið merki um að þar sé sóunin gríðarleg. Það er eflaust rétt, enda er bandaríska heilbrigðiskerfið stórfurðuleg blanda einkageirans og þess opinbera, þótt hér þyki sumum heppilegt í umræðunni að kalla bandaríska kerfið frjálshyggjukerfi. Hins vegar er ekki ólíklegt að kostnaðurinn við vestrænt heilbrigðiskerfi sé einfaldlega meiri en útgjaldatölurnar gefa til kynna.

Bandaríkjamenn fóru lengi vel þá leið að setja ekki þak á kostnaðinn og afleiðingin var vissulega meiri kostnaður, en einnig meira framboð af heilbrigðisþjónustu. Í heilbrigðiskerfum eins og því íslenska þar sem framboð á þjónustu er takmarkað vegna kostnaðarþátta þarf óhjákvæmilega að takmarka þjónustu og laun til starfsmanna. Í Bandaríkjunum þarf einstaklingur, eða tryggingafélag hans, að borga hærra verð fyrir mjaðmarliðaaðgerð, en hann fær aðgerðina fljótt. Hér á landi þarf fólk að bíða í allt að eitt ár eftir slíkri aðgerð. Ef sú er raunin að „réttur“ kostnaður við nútíma heilbrigðiskerfi er meiri en við verjum nú til kerfisins þurfum við annaðhvort að sætta okkur við að borga meira fyrir kerfið eða að sætta okkur við skömmtun á þjónustu.

Það er leiður ávani þegar kemur að vanda velferðarkerfisins, hvort sem um er að ræða menntun eða heilbrigðismál, að krefjast einfaldlega meiri útgjalda hins opinbera en neita að íhuga kerfisbreytingar sem gætu náð sama markmiði. Allar hugmyndir um aukna aðkomu einkaaðila eru skotnar niður óskoðaðar, þrátt fyrir góða reynslu af slíku í ríkjum eins og Svíþjóð þar sem heilsugæslan hefur verið einkavædd að stórum hluta. Það hefur leitt til betri þjónustu og lækkandi kostnaðar. Af hverju er það dauðasynd að vilja skoða slíkar lausnir hér?

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.