Það hljóta margir að undrast nokkuð hvernig stjórnvöld, ekki síst ríkisstjórnin, hefur brugðist við nýju afbrigði af Covid-19. Það er vitanlega ekki öfundsverð staða að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir þegar líf og heilsa fólksins í landinu er hugsanlega að veði. En við skulum ekki gleyma því að þetta ágæta fólk bauð sig fram til starfans.

* * *

Stjórnvöldin takmarka nú frelsi fólks vegna þess að þjóðarspítalinn ræður, að sögn, ekki við ástandið. Þar eru starfsmenn útkeyrðir, að sögn, af þreytu.

Það kann bara vel að vera. En hvers vegna í ósköpunum er staðan þannig eftir næstum tvö ár að enn er Landspítalinn, sem er með 4.000-5.000 starfsmenn eftir því hvort litið er til fjölda eða stöðugilda, ræður ekki við það að örfáir leggist inn á gjörgæslu spítalans.

Í gær lágu þrír á gjörgæslu. Hæst hefur sú tala farið í 8 (frá 10. ágúst 2021).

Frá upphafi faraldursins hafa 105 manns legið á gjörgæsludeild vegna hans. Þar af hafa 60 verið í öndunarvél.

Hvernig geta þessar lágu tölur gert það að verkum að heilt þjóðfélag lamast aftur og aftur í margar vikur með gríðarlegum efnahagslegum skaða - ekki síst fyrir þá sem minna mega sín.

Óðinn hefur margsinnis bent á það að ríkið er afleitur rekstraraðili. Vandamálin á Landspítalanum eru enn ein sönnun þess.

* * *

Eiginhagsmunirnir

En vandamálið er stærra. Margar starfsstéttir í landinu hafa frá upphafi stofnunar Háskóla Íslands reynt að vernda stöðu sína með fjöldatakmörkun nýrra nemenda, annaðhvort með fjölda eða inntökuprófum. Slíkar fjöldatakmarkanir í lögfræði lögðust af með tilkomu Háskólans í Reykjavík. Óðinn hefur ekki tekið eftir neinum sérstökum vandræðum af þessum sökum.

En heilbrigðisstéttirnar eru enn með slíkar takmarkanir. Nú er ætlunin að hleypa mun fleiri inn í hjúkrunarfræði vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. En það er einnig skortur á læknum þó hann virðist vera minni.

* * *

Lítið en gott dæmi

Einfaldasta og besta dæmið sem Óðinn hefur séð er úr tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Árið 2008 skrifuðu þrír tannlæknar, þeir Börkur Thoroddsen, Svend Richter og Sigfús Þór Elíasson, grein í Tannlæknablaðið. Þremenningarnir skrifuðu aftur grein um sama efni í sama blað árið 2019. Tveir þeirra voru áður starfsmenn tannlæknadeildar sem dósent og prófessor.

Í þessum greinum þremenninganna, en sú seinni er sögð ritrýnd byggð á rannsóknum höfunda, setja þeir fram spá um fjölda tannlækna, 22 ár fram í tímann í fyrri greininni og 21 ár fram í tímann í seinni greininni.

Í upphafi seinni greinarinnar kemur fram tilefni hennar:

Það er allra hagur að fjöldi íbúa á hvern tannlækni sé hæfilegur. Óskynsamlegt er að mennta of fáa eða of marga tannlækna. Rekstrarkostnaður tannlæknaskóla er mikill. Ungt fólk sem hefur tannlæknanám væntir þess að fá starf og hæfileg verkefni í starfsgrein sinni að loknu námi. Námið er langt og strangt og svo sérhæft að menntunin nýtist trauðla á öðrum vettvangi. Skortur á tannlæknum leiðir til þess að ekki er hægt að veita alla þá þjónustu sem þörf er á. Nú útskrifast 8 tannlæknar á ári frá Tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Þessi tilraun þessara ágætu manna til að meta þörf á tannlæknum er auðvitað dæmd til að mistakast. Í fyrsta lagi þá er ómögulegt að spá fyrir um íbúafjölda. Það sést best á samanburði á greinum þremenninganna frá 2008 og 2019.

* * *

Nostradamusarnir

Í fyrri greininni spáðu þeir að 352 þúsund manns byggju á Íslandi í lok árs 2021. Reyndin er 369 þúsund og skekkjan því 17 þúsund manns. Það þýðir, samkvæmt greininni frá 2008, að það vantar 17 tannlækna á Íslandi í dag í samanburði við árið 2008.

Í öðru lagi þá er útilokað að meta nákvæma þörf á tannlæknum ekki frekar en nokkurri annarri þjónustu við fólk. Það er að mestu frjáls markaður um tannlæknaþjónustu á Íslandi og ef þjónustan er of dýr, eins og vísbendingar eru um, þá fer fólk til annarra landa að sækja sér ódýrari aðgerðir.

Í þriðja lagi er fullkomlega fráleitt að hagsmunaaðilar, tannlæknar sjálfir, meti þörfina á tannlækningum. Það er augljóst að þeir munu gæta að því að ekki séu fleiri tannlæknar en svo að verðið á þjónustunni haldist að raungildi, eða hækki, en lækki ekki. Þetta sést á tilvitnuðum inngangi hér að ofan, um væntingar að fá starf, og í lokaorðum í greininni frá 2019 þar sem segir:

Með svipuðum fjölda tannlækna frá Tannlæknadeild Háskóla Íslands og í ljósi verulegrar aukningar á þátttöku hins opinbera í tannlækningakostnaði aldraðra og öryrkja frá 1. september 2018 og nánast fríum tannlækningakostnaði barna sem tók að fullu gildi 1. janúar 2018, munu verkefni íslenskra tannlækna fara vaxandi. Fleiri íbúar verða á hvern tannlækni hér á landi en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Tannlækningar eldri borgara er og verður verkefni sem takast verður á við. Tannvernd tenntra, lasburða aldraðra einstaklinga inni á vistheimilum verður krefjandi og tímafrekt viðfangsefni. Telja verður að atvinnuhorfur tannlækna séu því góðar.

Óðinn er þessu ósammála. Atvinnuhorfurnar eru frábærar og allt útlit fyrir að tannlæknaþjónusta verði enn dýrari en hún er í dag og bið eftir tíma hjá tannlækni aukist enn. Hver tannlæknir kostar ríkisháskólann, og þar af leiðandi skattgreiðendur, um 15- 20 milljónir króna. Hver eru rökin fyrir því að skattgreiðendur taki þátt í menntun tannlækna í ljósi þess hversu háar tekjur tannlæknar eru? Eða lögfræðingar. Eða bara nokkur annar.

* * *

Óbreyttur fjöldi í 39 ár!

Það hefði átt að kveikja á einhverri peru hjá höfundum greinanna að fjöldi þeirra sem fá inngöngu í tannlæknadeild hefur verið óbreyttur í 39 ár. Frá árinu 1983 hafa átta nemendur hafið nám í tannlækningum á ári samkvæmt heimasíðu tannlæknadeildarinnar, það er hins vegar brottfall úr deildinni sem veldur því að nemendur eru 7-8 í hverjum árgangi. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað úr 235 þúsund í 369 þúsund eða um 57%.

* * *

Skortur á tannlæknum mun koma fram fyrr eða síðar, ef hann er ekki þegar kominn fram. Þegar þetta verður fréttaefni þá mun ákall þeirra sem aðhyllast sósíalisma vera að nú verði ríkið að grípa inn í og tryggja tannlæknaþjónustu - einkamarkaðurinn ráði bara alls ekki við verkefnið. En staðreyndin er sú að þeir sem stjórnuðu tannlæknadeildinni og þeirra meðreiðarsveinar bjuggu til skortinn með því að telja sig spámenn og stjórnuðu ríkisstyrktu háskóladeildinni.

Rétt eins og í læknadeildinni og hjúkrunarfræðideildinni.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .