*

laugardagur, 11. júlí 2020
Huginn og muninn
21. mars 2020 11:10

Skotmörk Skattsins

Skatturinn sendi póst til „viðskiptavina“ sinna en gallinn er að hann á enga viðskiptavini.

Höfuðstöðvar Skattsins við Laugaveg.
Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir fengu vinsamlega ábendingu frá Ríkisskattstjóra – eða Skattinum eins og hann er svo léttúðlega titlaður í dag – á þriðjudag þar sem „viðskiptavinir“ voru hvattir til að nýta sér rafrænar lausnir ríkisstofnunarinnar í ljósi aðstæðna.

Hrafnarnir, verandi með eindæmum tæknihæfir og framsýnir, hafa fyrir löngu tileinkað sér rafræn samskipti við allar opinberar stofnanir sem upp á það bjóða, en hváðu hinsvegar við yfir orðanotkun skattmannsins. Þótt hinn almenni borgari greiði Skattinum vissulega reglulega, fær hann oftast heldur lítið á móti. Í ofanálag nýtur Skatturinn þeirrar öfundsverðu sérstöðu að þurfa ekki samþykki sinna „viðskiptavina“ fyrir fjölda, umfangi né tímasetningu hinna meintu viðskipta. Aðeins þarf að tilkynna viðkomandi hvað hann skuli borga og hvenær.

Hrafnarnir draga mikilvægi stofnunarinnar ekki í efa, en líklega færi betur á því að vísa einfaldlega til almennings, nú eða kalla fólk skotmörk.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.