*

fimmtudagur, 29. október 2020
Huginn og muninn
30. ágúst 2020 10:02

Skotskífan færð

Þórdís Kolbrún skuldar Rangárráðherrunum og Áslaugu Örnu stóran greiða.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Umræðuhefð Íslendinga er að mörgu leyti merkileg. Fyrir einungis rúmri viku urðu sumir alveg snælduvitlausir vegna vinkonuhittings Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra. Hinir vinstri sinnuðu sjálfskipuðu prédikarar á samfélagsmiðlum rituðu langar færslur um málið og sáu ekki annað í stöðunni en að ráðherrann þyrfti að segja af sér. Ríkisútvarpið og fleiri miðlar eltu málið af einurð og festu og héldu ekkert af sér þegar þeir spurðu ráðherrann spjörunum úr.   Nú, rúmri viku seinna, er enginn að spá í þetta lengur.

Nú þyrla þessir sömu prédikarar upp ryki vegna flugferðar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra með Gæslunni. Skiptir engu máli þótt Áslaug hafi viðurkennt að það hafi verið mistök að þiggja þessa ferð. Það virðist heldur ekki skipta máli að forstjóri Gæslunnar hafi boðið henni og Landhelgisgæslan sent frá sér tilkynningu þess efnis að hvorki hafi aukakostnaður hlotist af né viðbragðsgeta Gæslunnar verið skert vegna þessarar ferðar. Eins og alþjóð veit þá ákvað ríkisstjórnin að halda sumarfund á Suðurlandi í síðustu viku. Lauk fundinum með málsverði á Hótel Rangá og eftir hann kom í ljós að starfsmaður hótelsins var smitaður af kórónuveirunni og þurftu sjö ráðherrar að fara í svokallaða smitgát, sem er fínt orð yfir stutta sóttkví.

Hvar voru breiðu spjót Ríkisútvarpsins og annarra meginstraums miðla núna? Hvers vegna í ósköpunum var ráðherrum leyft að snúa út úr með þeim svörum að þetta mál sýndi umfram allt að allir þyrftu að vera á tánum, veiran færi ekki í manngreinarálit. Hrafnarnir, eins og svo margir aðrir, hafa ekki komist í brúðkaup, afmælisveislur eða fermingar vegna þess að fólk hefur sýnt góða dómgreind og frestað þessum viðburðum vegna smithættu. En ríkisstjórnin gat ekki frestað árlegum sumarfundi! Hvað sem öðru líður þá skuldar Þórdís Kolbrún bæði Rangárráðherrunum og Áslaugu Örnu stóran greiða fyrir að hafa fært skotskífuna.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.