*

miðvikudagur, 28. október 2020
Huginn og muninn
11. október 2020 15:04

Skrá sig í dýralæknanám!

Hafi fólk haldið að vegurinn til metorða í samgöngukerfinu sé í gegnum verkfræðinám þá er það kolrangt.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Í síðustu viku komu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, auk íslenska ríkisins, á koppinn opinbera hlutafélaginu Betri samgöngur sem ætlað er að hrinda í framkvæmd uppbyggingu í samgöngubótum á svæðinu á næstu fimmtán árum. Hrafnarnir geta ekki annað en grátið að félagið hafi ekki fengið nafnið Betri samgöngur Íslands ohf., skammstafað BSÍ, en maður fær víst ekki allt sem maður vill.

Hrafnarnir hafa löngum staðið í þeirri trú að vegurinn til metorða í samgöngukerfinu væri í gegnum verkfræðinám en það virðist tóm steypa. Samgönguráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson? Dýralæknir. Vegamálastjórinn Bergþóra Þorkelsdóttir? Dýralæknir líka. Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og stjórnarformaður hins nýstofnaða hlutafélags? Hann er að sjálfsögðu dýralæknir. Heilræði hrafnanna til þeirra sem vilja ákveða hvar skuli borað, sprengt og malbikað? Skrá sig í dýralæknanám!

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.