*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Leiðari
18. júní 2021 08:32

Skráning Íslandsbanka

Áhuginn á Íslandsbanka var margfaldur á við það sem búist var við þó ekki hafi skorti á úrtöluraddir.

Haraldur Guðjónsson

Hlutafjárútboð Íslandsbanka virðist hafa heppnast vonum framar. Níföld umframeftirspurn var í þessu stærsta frumútboði Íslandssögunnar þar sem um 24 þúsund tóku þátt.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er að vonum kátur með niðurstöðuna enda hefur ekki skort á úrtöluraddir varðandi bankasölu. Þar hefur flest verið tínt til — tímasetningin sé ekki rétt, bankinn skili ríkinu of miklum arði og varla finnist kaupandi að bankanum, nema þá helst að hann verði seldur vildarvinum á brunaútsölu eða þeim sem vilji hola hann að innan.

Reyndin er að tímasetning útboðsins virðist hafa verið með besta móti. Lágvaxtaumhverfið hefur leitt af sér að mikið fjármagn hefur færst yfir í hlutabréfafjárfestingar eins og eftirspurnin í útboðinu ber með sér. Þá er hagkerfið að taka við sér, þar með talið ferðaþjónustan, samhliða góðum gangi við bólusetningu.

Ekki verður annað séð en að traustir kaupendur hafi fundist. Við upphaf útboðsins var tilkynnt að tveir íslenskir lífeyris- sjóðir og tvö stöndug erlend fjárfestingafélög, Capital World Investors og RWC Asset Management, hafa skuldbundið sig til að kaupa 10% hlut í útboðinu.

Erlendir fjárfestar keyptu alls 11% hlut í útboðinu eða nærri þriðjung þeirra hluta sem til sölu voru. Áhugi erlendra fjárfesta er fyrir margra hluta sakir merkilegur. Lengi hafa verið uppi hugmyndir um að fá erlenda fjárfesta að íslenskri bankastarfsemi með misjöfnum árangri.

Varla er að óttast að einkaaðilar eignist hlut í bankanum, sem verður vel að merkja áfram í 65% eigu ríkisins. Regluverkið utan um bankastarfsemi er allt annað en það var í einkavæðingunni um síðustu aldamót. Standast þarf mat Seðlabankans til að fara með ráðandi hlut í fjármálafyrirtæki og kröfur um eigið fé eru mun meiri en áður. Möguleikar banka til áhættutöku á mörgum sviðum hafa um leið verið takmarkaðir.

Þá stendur bankarekstur á tímamótum. Tækniframfarir og lagabreytingar valda því að fjártæknifyrirtæki gætu á næstu árum leyst af hólmi sumt af því sem bankar hafa setið einir að. Störfum mun áfram fækka hjá bönkunum og ný tækifæri skapast og önnur hverfa. Umfangsmikið regluverkið dregur að sama skapi úr vaxtarmöguleikum bankanna. Brýnt er að vel takist til enda gegna bankarnir mikilvægu hlutverki í hagkerfinu við að þjónusta og styðja við almenning og fyrirtæki. Yfir 20 þúsund nýir hluthafar bankans ættu að veita bankanum meira aðhald á þessum breytingartímum en ríkið getur eitt og sér.

Með margfaldri umframeftirspurn var ljóst að margir fengju ekki nema brot af því sem boðið var. Bankasýslan mun þurfa að útskýra á næstu dögum með skýrum hætti hvernig úthlutun bréfa var háttað svo ekki verði grafið að óþörfu undan tiltrú á útboðinu.

Söluandvirðið í bankanum, yfir 50 milljarðar króna, mun koma að góðum notum þar sem það stefnir í að hallarekstur ríkissjóðs vegna heimsfaraldursins verði yfir 500 milljarðar króna. Enn stendur eftir 100 milljarða hlutur í Íslandsbanka sem og Landsbankinn sem er miðað við álíka verðlagningu og Íslandsbanki yfir 200 milljarða króna virði. Ekkert er því til fyrirstöðu að ríkið selji stærri hluti í bönkunum á næsta kjörtímabili enda ástæðulaust að ríkið sé meirihlutaeigandi að bankakerfinu.

ðÚtboðið er enn eitt merki þess að almenningur virðist tilbúinn að fjárfesta í hlutabréfum. Það eru jákvæðar fréttir. Vonandi leiðir aukin þátttaka almennings um leið til dýpri skilnings og umræðu á eðli fyrirtækjareksturs.

Miðað við áhugann í útboði Íslandsbanka sem og Síldarvinnslunnar í maí og Icelandair síðasta haust hljóta fleiri fyrirtæki en áður að horfa til skráningar á markað. Það hlýtur að vera heilbrigðismerki ef stærri hluti at- vinnulífsins er tilbúinn að reyna sig í því kastljósi sem skráning á markað fylgir óhjákvæmilega.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.