Síldarvinnslan hf. í Neskaupsstað lauk hlutafjárútboði á miðvikudaginn í fyrri viku þegar tæplega þriðjungur hlutafjár í félaginu var seldur. Alls tóku um 6.500 þátt í útboðinu og fram kemur á heimasíðu félagsins að hluthafar séu nú að nálgast sjöunda þúsundið. Spurn eftir bréfum var tvöföld, bæði frá almenningi og fagfjárfestum. Fram hefur komið að þar á meðal séu lífeyrissjóðir, sem fara fyrir fjármunum tugþúsunda sjóðfélaga.

Það er ánægjulegt að svona vel skuli hafa tekist til, enda Síldarvinnslan glæsilegt fyrirtæki og rekstur hennar hefur gengið vel á undanförnum árum. Góð þátttaka í útboðinu er ekki síður vísbending um annað; fjárfestar hafa trú á íslenskum sjávarútvegi og treysta honum fyrir ávöxtun fjár síns.

Í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar, vegna útboðsins, er sérstaklega tekið fram að pólitískur óstöðugleiki geti með ýmsu móti haft áhrif á stöðu félagsins. Svona fyrirvari er ekki heppilegur. Öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi er grundvallarþáttur í verðmætasköpun. Óstöðugleiki er allra tap.

Blessunarlega er hægt að bæta úr. Ef stjórnmálamenn og stöku fyrirsvarsmenn stéttarfélaga ræddu um málefni atvinnugreinarinnar af meiri yfirvegun, mætti betur treysta fyrirsjáanleika. Reglulegar hótanir um uppstokkun á kerfinu eru ekki gæfulegar. Sumir vilja bara gera eitthvað, án þess að hugað sé að áhrifum á atvinnugreinina og þjóðarhag.

Öll höfum við hagsmuni af því að útflutningsatvinnuvegir okkar gangi vel. Það þarf að gera meiri verðmæti í dag en í gær, þannig að tryggja megi heilbrigðan hagvöxt og lífskjör til lengri tíma. Áðurgreindan fyrirvara um pólitískan óstöðugleika mætti afmá fljótt og vel ef fleiri legðust á árarnar um að tryggja verðmætasköpun í sjávarútvegi. Það eru nefnilega ekki aðeins fyrirtækin og þúsundir starfsmanna og hluthafa þeirra sem njóta þá góðs af, heldur mundi það samhliða treysta lífsgæði í landinu. Þangað ber að stefna.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.