Til að standast markmið Parísarsáttmálans þarf umbreytingu sem nær til allra kima samfélagsins og hagkerfisins. Atvinnulífið leikur þar lykilhlutverk, en þá vaknar spurningin: Hvað þurfa fyrirtæki að gera til að stuðla að því að við takmörkum hnattræna hlýnun við 1.5 gráður?

Svarið er lengra en kemst fyrir í þessum greinarstúfi, en hér eru nokkrir grunnpunktar sem við ættum öll að geta tileinkað okkur:

Mælið kolefnissporið ykkar

Fyrsti punkturinn liggur í augum uppi: mælið kolefnissporið ykkar! En eins augljós og hann er þá erum við flest komin afar stutt á veg. Það nægir ekki lengur að mæla bara umfang 1 og 2, og svo kannski úrgang, flug og samgöngur og kalla þetta gott. Nú þurfum við að ganga lengra og greina alla virðiskeðjuna. Hvar eru raunverulega mestu loftslagsáhrifin vegna ykkar starfsemi?

Vaktið kolefnisbókhaldið

Mælingin ber okkur bara hálfa leið því það skiptir höfuðmáli hvað við gerum við þessi gögn þegar við erum komin með þau í hendurnar. Því miður er í mörgum tilvikum einungis dustað rykið af kolefnisbókhaldinu einu sinni á ári þegar ráðast á í sjálfbærniuppgjör, og bregður fólki oft í brún þegar það sér niðurstöðurnar.

Kolefnisbókhaldið á að hafa sama sess og fjárhagsbókhaldið. Við eigum að vakta það jafnt og þétt, nota það til grundvallar ákvarðanatöku og til að tryggja að við náum okkar markmiðum.

Setjið ykkur metnaðarfull markmið

Í því ástandi sem nú ríkir þýðir ekkert annað en að spenna bogann hátt. En þegar krafist er metnaðar heyrast oft efasemdaraddir: ,,Eru þetta ekki alltof róttækar kröfur, þurfum við ekki að vera raunsæ?”

Hversu vel okkur tekst að draga úr losun á komandi árum mun hafa úrslitaáhrif á möguleika komandi kynslóða til farsæls lífs.

Mikið rétt, en það óraunhæfasta í stöðunni er að skorast undan áskoruninni og dæma sig þannig sjálf úr leik þegar á líður - því eina mögulega hagkerfi framtíðarinnar er lágkolefnishagkerfi.

Lágstemmd markmið eru því hreinlega ekki í takt við raunveruleikann.

Lítið inn á við

Við þurfum líka öll að ráðast í smá naflaskoðun og líta inn á við. Það er ekki nóg að skoða losunarbókhaldið heldur þarf einnig að skoða viðskiptamódelið. Er kjarnastarfsemin ykkar skaðleg umhverfi og lífríki?

Það gengur nefnilega ekki upp að græða á tá og fingri en vera á sama tíma á yfirdrætti hjá náttúrunni. Sú skuld hverfur aldrei, heldur er það bara einhver annar sem þarf að borga brúsann, líkt og þær milljónir víða um heim sem hafa orðið fórnarlömb hamfara af völdum loftslagsbreytinga, afkomendur ykkar eða komandi kynslóðir.

Valið er okkar

Þessi áratugur verður sá afdrifaríkasti í sögu mannkyns. Hversu vel okkur tekst að draga úr losun á komandi árum mun hafa úrslitaáhrif á möguleika komandi kynslóða til farsæls lífs.

Ég held að við viljum öll geta horft til baka og sagt með vissu að við höfum gert allt sem í okkar valdi stóð til að takast á við þessa stærstu áskorun mannkyns. Valið er okkar og til alls er að vinna.