*

laugardagur, 8. maí 2021
Leiðari
12. febrúar 2021 12:09

„Önnur störf" að sliga spítalana

Íslenska heilbrigðiskerfið tók sótt í hruninu og liggur enn á milli heims og helju ef marka má nýlega skýrslu.

Haraldur Guðjónsson

Fjármögnun íslenskra sjúkrahúsa er óskilvirk og hefur letjandi áhrif á framleiðslu. Ein mesta starfsmannafjölgunin er hjá starfsfólki sem vinnur „önnur“ störf á spítölum og hræðsla heilbrigðisyfirvalda við útvistun verkefna, einkavæðingu, þýðir að kostnaður eykst meira en þörf er á.

Í byrjun síðasta árs fengu íslensk stjórnvöld ráðgjafafyrirtækið Mc- Kinsey til samstarfs við greiningu á íslenska heilbrigðiskerfinu. Fólst greiningin meðal annars í því að varpa ljósi á framleiðni og gæði íslenska kerfisins. Var spjótunum sérstaklega beint að Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri og starfsemin þar borin saman við rekstur annarra sjúkrahúsa og þá sérstaklega háskólasjúkrahúsið á Skáni í Svíþjóð. Í október gaf heilbrigðisráðuneytið út skýrsluna „Aukin framleiðni og gæði heilbrigðisþjónustu með nýju fjármögnunarkerfi og leiðbeinandi viðmiðum“. Í skýrslunni eru helstu niðurstöður úr vinnunni með McKinsey dregnar saman. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar. Íslenska heilbrigðiskerfið fær falleinkunn á mörgum sviðum og því vekur furðu hversu litla umfjöllun skýrslan hefur fengið í fjölmiðlum.

Lagt er til að hér verði tekið upp svokallað DRG-fjármögnunarkerfi, sem byggir á þjónustutengdri fjármögnun. Í mjög einföldu máli má segja að í þessu kerfi sé hvati til að auka framleiðni því greitt er fyrir unnin verk og þar með eykst einnig gagnsæi í heilbrigðiskerfinu. Eins og flestir vita þá eru íslenskar heilbrigðisstofnanir á fjárlögum í dag og færa má rök fyrir því að þá sé þessu öfugt farið, þ.e.a.s. enginn sérstakur hvati er fyrir stofnanir að auka framleiðni. Raunar er kerfið hreinlega letjandi því aukinni framleiðslu fylgir ekki fjármagn.

Endurspeglast mismunur kerfanna vel í skýrslunni því framleiðni starfsfólks hérlendis hefur minnkað undanfarin ár og á flestum sviðum er hún minni en hjá viðmiðunarsjúkrahúsunum erlendis. Í skýrslunni segist ráðuneytið meðvitað um ástæður þess að framleiðni hér hafi minnkað frá árinu 2015. Er það skrifað á hrunið 2008 sem og að kjarasamningar við heilbrigðisstarfsfólk hafi leitt til aukins launakostnaðar, sem ekki hafi skilað sér í aukinni framleiðni, sem er áhugaverð yfirlýsing.

Í skýrslunni kemur fram að í samanburði við viðmiðunarsjúkrahúsin hafi heilum stöðugildum fjölgað mest á Landspítalanum á síðustu árum eða sem nemur 21,4%. Á Landspítalanum starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ljósmæður, fólk sem sinnir annarri umönnun og endurhæfingu, stjórnendur og síðan er starfsfólk sem sinnir öðrum störfum en það eru t.d. nemar, aðstoðarfólk, starfsfólk í mötuneyti, starfsfólk sem sinnir þrifum og tæknimenn.  

Það kynni að hljóma ágætlega ef ástæða fjölgunar starfsfólks væri sú að á spítalanum væri verið að fjölga klínískum störfum en það er ekki endilega raunin. Ein mesta fjölgunin er hjá fólki sem sinnir öðrum störfum, þ.e. starfsfólki í mötuneyti og þeim hópi. Eru þetta störf sem í mörgum tilfellum er útvistað hjá samanburðarsjúkrahúsunum. Af öllu starfsfólki Landspítalans heyra 23,9% undir þennan flokk. Hjá háskólasjúkrahúsinu á Skáni er þetta hlutfall 1,4%, hjá Helsingborgs lasarett er það 1,1%, hjá Centralsjukhuset í Kristianstad 0,8%, hjá Charité í Berlín er hlutfallið 3,5% og hjá Imperial College í London er það 0%.

Á Íslandi er lægra hlutfalli varið í útgjöld til heilbrigðismála en í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Í skýrslunni segir að árið 2018 hafi 8% af vergri landsframleiðslu verið varið í heilbrigðiskerfið hér samanborið við 11% í Svíþjóð. Hins vegar hefur kostnaður á mann aukist mikið hérlendis eða um 31% á árunum 2011 til 2018 samanborið við 22% í Svíþjóð. Einnig kemur fram að heildarkostnaður Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri aukist umtalsvert hraðar en á Skáni eða um 5 til 6% ári samanborið við 2 til 4%. Meginskýringin liggur í 7 til 8% árlegum vexti í starfsmannakostnaði, sem meðal annars má rekja til kostnaðar við rekstur eldhúss, tölvudeildar og þvottahúss en þessum rekstri er í meiri mæli útvistað á Skáni.

Hér á landi hefur skortur á hjúkrunarfræðingum stundum leitt til lokunar legudeilda. Athyglisvert er að í Svíþjóð er þessum vanda mætt með því að fjölga sjúkraliðum og færa verkefni hjúkrunarfræðinga til þeirra, þar sem slíkt er mögulegt. Hefur þetta ekki haft nein áhrif á gæði þjónustunnar, þar sem sænsku sjúkrahúsin skora hátt í úttektum OECD.

Skýrslan sem hér hefur verið fjallað um er að mörgu leyti góð. Bent er á vankanta íslenska kerfisins sem og lausnir. Það jákvæða er að á árunum 2022 og 2023 verða sjúkrastofnanir fjármagnaðar samkvæmt DRG-kerfinu. Þótt fyrr hefði verið. Þessu til viðbótar telur Viðskiptablaðið að gera eigi skurk í að útvista þjónustu til einkaaðila. Fyrst Svíar gera það hljóta jafnvel hörðustu andstæðingar einkavæðingar að sjá að við eigum einnig að gera það.

Leiðrétting:
Eins og segir í leiðaranum hefur mesta starfsmannafjölgunin verið í þeim hópi sem vinnur „önnur störf". Í leiðaranum var upphaflega sagt að skrifstofufólk, gagnafræðingar og fólk sem sinnir starfsmannamálum og innkaupum tilheyrði þeim hópi en að er ekki rétt því þetta fólk tilheyrir yfirstjórn. Þeir sem vinna við „annað" eru nemar, aðstoðarfólk, starfsfólk í mötuneyti, starfsfólk sem sinnir þrifum og tæknimenn. Hefur leiðarinn verið uppfærður með tilliti til þessa.Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Stikkorð: Landspítalinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.