*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Kristrún Frostadóttir
9. október 2013 13:58

Skrítnir karlar, rímur og píanóleikur

Svalasta fjölskylda landsins er í hljómsveitinni Spilmenn Ríkínís. Þar syngja foreldrar og börn rímnasöng og blása í flautur úr kindahornum.

Haraldur Guðjónsson

Tónlistarþátturinn Útúrdúr hóf göngu sína á Rúv í síðasta mánuði en í þættinum er fjallað um klassíska og samtímatónlist auk þess sem skyggnst er inn í tónlistarsögu landsins. Þau Víkingur Heiðar Ólafsson og Halla Oddný Magnúsdóttir sjá um dagskrárgerð og halda uppi stórskemmtilegum samræðum um klassíska tónlist og setja hana í samhengi við nútímatónlist enda er einn helsti tilgangur þáttarins að gera klassísk verk aðgengileg fyrir alla og reyna að brjóta upp formfasta birtingarmynd þeirra.

Þættirnir eru, líkt og þáttastjórnendur lýsa tónlist Mozarts, í einu orði sagt, snilld. Það er frábært að sjá ungt fólk taka að sér að kynna tónlistararf þjóðarinnar og kryfja klassísk meistaraverk. Í fyrsta þættinum mátti til að mynda sjá Höllu og Víking leika sér að Amoll sónötu Mozarts, taka í sundur og greina, líkt og um æsispennandi kvikmyndahandrit væri að ræða. Þetta er nákvæmlega það sem íslensk dagskrárgerð þurfti á að halda – í staðinn fyrir enn einn þáttinn uppfullan af kvikmyndabrotum. Í lok þáttarins þegar Víkingur flutti sónötuna í heild sinni var búið að kynna sónötuformið fyrir áhorfendum, líkt og þegar leikreglur í óþekktri íþrótt eru skýrðar, enda er mun skemmtilegra að fylgjast með leiknum þegar reglurnar liggja fyrir.

Þá var þáttur Höllu og Víkings um íslenska tónlistararfinn bráðskemmtilegur. Viðtöl og umræður um ævaforn tónlistarhandrit voru bætt með tónlistaratriðum sem oftar en ekki halda áhorfendum betur við efnið en umfjöllun um skrítna karla og rímur svo vitnað sé í þáttastjórnendur. Fjölskylduhljómsveitin Spilmenn Ríkínís, sem samanstendur af hjónum og tveimur börnum þeirra sem léku íslenskan rímnasöng á langspil og blésu í flautur úr kindahorni, stóð þar upp úr að mati blaðamanns. Þetta er án efa ein af svölustu fjölskyldum landsins.

Foreldrar mínir voru því miður ekki nógu framsæknir til að stinga upp á því að laugardagskvöldum skyldi eytt í að æfa íslenskan kvæðasöng, hvað þá á forna íslenska fiðlu. Miðað við tregðu mína gagnvart bónum föður míns um að leika undir þorrablótssöng foreldra minna sem barn, þrátt fyrir að harmonikkan og tónlistartímarnir hafi einmitt verið keypt í þeim tilgangi (án minnar vitneskju) verð ég að viðurkenna að ég hefði því miður ekki gripið langspilstækifærið ef mér hefði boðist það. Hvílík synd og skömm. Það er nefnilega óneitanlega smart að vera svolítið þjóðlegur.

Pistill Kristrúnar birtist í Viðskiptablaðinu 3. október 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.