*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Leiðari
13. júní 2015 12:11

Skrúfað frá til hálfs

Töluverð óvissa er enn upp um afnám hafta og því rétt að bíða með að opna kampavínsflöskuna þar til leikum endanlega lýkur.

Haraldur Guðjónsson

Loksins, rétt rúmum tveimur árum eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, er farið að líta út fyrir að gjaldeyrishöftum – í þeirri mynd sem við þekkjum þau – verði lyft. Á þessum síðum hefur gætt töluverðrar óþolinmæði í garð stjórnvalda fyrir að hafa ekki fyrr stigið skref í átt að afnámi, en ef til vill var sú óþolinmæði óverðskulduð. Ljóst er af máli þeirra sem unnið hafa að afnámsáætluninni að gríðarleg vinna liggur að baki henni og mögulega var einfaldlega ekki hægt að ná þessum áfanga fyrr en nú.

Eins er ljóst að gjaldeyrishöft verða ekki afnumin með öllu í nánustu framtíð og jafnvel ekki þegar til lengri tíma er litið. Flæði fjármagns til og frá landinu verður temprað með einhverjum hætti, eins og sjá má á þeim fjárfestingarkvóta sem lífeyrissjóðunum verður úthlutað. Munu þeir mega fjárfesta erlendis fyrir 10 milljarða á ári, eða fyrir um fjórðung af nettóinnstreymi fjármagns í sjóðina. Það er nóg til að viðhalda hlutfalli erlendra eigna, en verður seint til þess að hækka það hlutfall verulega, sem þó væri æskilegt.

Heilt yfir lítur áætlunin ágætlega út, að því gefnu að allt standist sem þar er gert ráð fyrir. Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag eiga 670 milljarðar að verða eftir í landinu við uppgjör slitabúa bankanna og þar af eiga tæplega 500 milljarðar að renna með einum eða öðrum hætti til ríkissjóðs. Stóra spurningin er hvort þetta sé nóg til að varðveita gengisjöfnuð. Vonandi er það svo, þótt sá grunur læðist að manni að hugsanlega þyrftu vikmörkin að vera stærri.

Það er jákvætt að unnið hafi verið að undirbúningi málsins í samráði, ef ekki samvinnu, við erlenda kröfuhafa og að stórir kröfuhafar hafi í raun samþykkt áætlunina. Þar er þó ekki óhætt að súpa kálið, því enn er óljóst hvort meirihluti kröfuhafa, einkum innan kröfuhafahóps Glitnis, er fyrir því að samþykkja nauðasamninga á þessum forsendum. Þetta er annar óvissuþáttur.

Eins er jákvætt að stefnt skuli að því að verja því fé, sem renna á til ríkisins, til lækkunar skulda ríkissjóðs. Ríkissjóður er of skuldugur og tækifæri til að ganga verulega á skuldastabbann ber að grípa.

Reynslan sýnir hins vegar að stjórnmálamenn eiga mun auðveldar með að verja almannafé í vinsælar framkvæmdir eða önnur útgjöld en að lækka skuldir ríkissjóðs. Vonandi hefur stjórnarmeirihlutinn bein í nefinu til að standast þessa freistingu, en þar til millifærslan hefur átt sér stað er rétt að bíða átekta.

Heilt yfir eru fréttirnar góðar og full ástæða er til bjartsýni. Gangi allt eftir munu Íslendingar, einstaklingar og fyrirtæki, geta átt í viðskiptum við útlönd sem verða nær því að vera eðlileg en nú er, þótt ekki verði þau algerlega frjáls. Líkur á því að erlendir fjárfestar treysti sér til landsins munu aukast og lánakjör ríkissjóðs munu væntanlega batna.

En eins og farið hefur verið yfir hér á undan eru margir óvissuþættir sem enn er ekki útséð um og því rétt að bíða með að opna kampavínsflöskuna þar til leikum endanlega lýkur.

Stikkorð: Leiðarar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.