*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Leiðari
26. nóvember 2021 13:09

Skrumskæling hvers?

Sótt­varna­læknir skautaði fram hjá raun­veru­legu inn­taki mál­efna­legrar gagn­rýni í blogg­færslu sinni og sakaði aðra um skrum­skælingu.

Kristinn Magnússon

Strangari framkvæmd sóttkvíar hér á landi en í nágrannalöndum hefur verið nokkuð til umræðu undanfarin misseri. Umræðan varð tilefni skrifa Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á bloggsíðu sína á dögunum. Gagnrýnir hann þar fullyrðingar „frá ýmsum málsmetandi aðilum í íslensku samfélagi" um að framkvæmd sóttkvíar hér á landi væri gjörólík framkvæmd sóttkvíar á hinum Norðurlöndunum og að látið væri að því liggja að flestar þjóðir framkvæmi sóttkví á sama máta en framkvæmdin væri með gjörólíku sniði hér. Segir hann greinilegt að þeir aðilar sem hefðu tjáð sig um málefnið hefðu annaðhvort ekki aflað sér nægilegra góðra upplýsinga eða „skrumskælt þær óafvitandi eða af yfirlögðu ráði".

Bendir hann í kjölfarið á að öll Norðurlönd skilgreini útsetningu fyrir smiti, sóttkví og einangrun með sama hætti þótt framkvæmdin sé ólík og að hver þjóð hafi eigin útfærslur sem væru í veigamiklum atriðum ólíkar. Allt er þetta rétt, en svo virðist sem sóttvarnalæknir fyrir misskilning, nú eða af ásettu ráði, skauti fram hjá því sem gagnrýnin lýtur raunverulega að, það er að Ísland skeri sig úr í samanburðinum þar sem aðgerðir eru mun meira íþyngjandi hér en á hinum Norðurlöndunum.

Þrátt fyrir að framkvæmd rakningar og sóttkvíar sé ólík milli Norðurlanda þá er það staðreynd að ekkert hinna Norðurlandanna (hér Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland) skyldar fullbólusetta í sóttkví hafi þeir verið útsettir fyrir smiti, séu þeir einkennalausir, auk þess sem börn eru þar almennt ekki skikkuð í sóttkví. Það er þessi munur sem helst hefur verið bent á í umræðunni og það er þessi munur sem fólk upplifir sem gjörólíka framkvæmd. Það að vísa til þess að framkvæmd sóttkvíar sé ekki eins meðal hinna Norðurlandanna er einfaldlega útúrsnúningur og breytir engu um það sem raunverulega er verið að gagnrýna.

Á Íslandi eru 89% allra tólf ára og eldri fullbólusett og yfir 90% allra sem náð hafa fjörutíu ára aldri. Í ljósi hins háa bólusetningarhlutfalls hér á landi ætti það kannski ekki að koma sóttvarnalækni á óvart að bent sé á að fullbólusettir einstaklingar og börn þeirra lendi hér ítrekað í sóttkví, þegar einstaklingar í sömu stöðu eru ekki sendir í sóttkví í nágrannalöndunum.

Í upphafi faraldurs ríkti hér á landi mikil samstaða um að færa fórnir til þess að verja heilbrigðiskerfið en ekkert markvert hefur verið gert til þess að efla afkastagetu Landsspítala nú þegar um 21 mánuður er frá því að faraldurinn hófst hér á landi. Síðan þá hafa langflestir þegið bólusetningu og margir hverjir örvunarskammt, en þrátt fyrir það þarf þjóðin að lifa við íþyngjandi inngrip vegna daprar afkastagetu spítalans.

Engin aðgerðaáætlun sem bætir stöðuna að verulegu leyti liggur fyrir og þjóðin sér fram á að þessi staða verði uppi næsta áratuginn eða svo, miðað við markmið um 50 smit á dag. Stjórnvöld eru boðin og búin til að veita fjármagn til þess að bæta stöðu spítalans en það dugar skammt í ljósi „mönnunarvanda". Í því samhengi má benda á að Karólínska sjúkrahúsið í Svíþjóð fimmfaldaði gjörgæslu sína á þremur vikum, að undangengnum niðurskurði heilbrigðisstarfsmanna vegna hallarekstur, án þess að bæta við mannskap. Hefur einhver frá Landspítala eða Heilbrigðisráðuneyti kannað hvernig farið var að í Svíþjóð og hvort tækifæri séu til að stórefla íslenska gjörgæslu án þess að ráða þurfi fjölda starfsmanna?

Leitun er að öðrum eins ásökunum á vegum hins opinbera og fram koma í bloggfærslu sóttvarnalæknis. Sóttvarnalækni og öðrum heilbrigðisyfirvöldum væri nær að sýna auðmýkt í umræðunni frekar en hroka. Yfirvöld eru eftir allt saman að fá frelsi fólks að láni, að því er virðist um langa framtíð, og ganga þar harðar fram en nágrannalönd okkar sem eru með sambærilegt bólusetningarhlutfall.

Fólk er einfaldlega orðið langþreytt á skorti á markvissum aðgerðum í átt til eðlilegs lífs, skorti á svörum við fjölmörgum spurningum sem á því brenna og því að lifa við meira íþyngjandi aðgerðir en nágrannar okkar sem hafa sambærilegt hlutfall fullbólusettra. Það að sýna hroka og ganga fram með útúrsnúningi gagnvart málefnalegri gagnrýni er ekki til þess fallið að auka samstöðu. Leiðin út úr faraldrinum felst ekki í því að aðlaga samfélagið að spítalanum næsta áratuginn, hún felst í stórkostlegu átaki í því að aðlaga spítalann að samfélaginu.

Öflug aðgerðaráætlun í þeim efnum, með skýrum markmiðum, mun skila samstöðunni sem sóttvarnalæknir saknar. Samstaða mun ekki nást um óbreytt eða lítið breytt ástand til margra ára, sama hversu miklum hroka, útúrsnúningi og hótunum um frelsisskerðingar er beitt gegn gagnrýnisröddum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.