*

mánudagur, 25. október 2021
Týr
19. september 2021 17:05

Skuggabaráttan

Týr fer yfir kosningabaráttuna, en hún hefur ekki eingöngu farið fram á hefðbundnum vettvangi stjórnmálanna.

Haraldur Guðjónsson

Týr hefur auðvitað mjög gaman af því að fylgjast með kosningabaráttunni. Enginn flokkur er að ná afgerandi árangri í því að koma málefnum sínum á framfæri en skilaboðakeppnin hefur fram til þessa helst farið fram á samfélagsmiðlum. Nú þegar aðeins örfáir dagar eru í kosningar byrja flokkarnir að auglýsa meira en áður, kaupa dýrari auglýsingar í sjónvarpi og það styttist óðfluga í að einhverjir flokkanna sendi frá sér skilaboð sem lykta af örvæntingu og ráðaleysi. Ekkert af því kemur á óvart.

* * *

Kosningabaráttan er þó háð á fleiri vígstöðvum. Í nokkrar vikur hefur BSRB til að mynda varið umtalsverðu fjármagni í auglýsingar í sjónvarpi og prentmiðlum. Þá hafa BHM og Öryrkjabandalið einnig auglýst myndarlega. Engum dylst hvaða flokka þar er verið að styðja þó það sé ekki sagt með berum orðum. ASÍ lætur ekki sitt eftir liggja og undir yfirskini hagfræðinnar segir sambandið okkur hvernig skattkerfið eigi að vera.

Og það er fleira sem fellur til. Félög og „samtök" sem enginn hefur heyrt um búa allt í einu yfir fjármagni til að láta gera skoðanakannanir með fyrirframgefnum niðurstöðum. Niðurstöðurnar eru síðan sendar fjölmiðlum með kröfu um að gerðar séu breytingar á heilu atvinnugreinunum. Eðli málsins samkvæmt vitum við ekkert um það hvaðan peningarnir koma því það eru bara stjórnmálaflokkar sem þurfa að opinbera bókhald sitt.

* * *

Kjarninn í þessari skuggakosningabaráttu fer ekki fram á hefðbundnum vettvangi stjórnmála. Í miðri sérhagmunabaráttu þeirra aðila sem hér hafa verið nefndir les Týr það sem kallaðar eru fréttaskýringar um það hvernig Reykjavíkurmódelið gæti vel hentað við landsstjórnina - nú eða bara einhver allt önnur stjórn en nú er við völd - hvernig rétt sé að stjórna landinu eftir þeim skoðanakönnunum sem gerðar eru, um meinta misskiptingu og ójöfnuð - og svo auðvitað um það að skattgreiðendur þurfi að styrkja þessa sömu miðla. Stundin nálgast en þetta hefur verið áhugaverð kosningabarátta.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.