Sjálfstraust er mikilvægur eiginleiki hvers stjórnmálamanns, þótt þeir fari vissulega misvel með það. Þannig getur það verið ansi spaugilegt þegar egó stjórnmálamanna, jafnvel heilu flokkanna, rís langt umfram efni.

„Ég var kallaður útfararstjóri flokksins á sínum tíma en enginn spáir flokknum dauða nú, heldur snýst gagnrýnin nú fremur um að við séum ekki enn stærri,“ sagði Logi Einarsson í lokaræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar síðustu helgi. Orðalagið gefur til kynna að Samfylkingin sé stór í huga Loga.

***

Nú getur stærð að einhverju leyti verið afstæð, en flokkur sem hlaut aðeins sex þingmenn í síðustu Alþingiskosningum getur varla verið stór á nokkurn einasta mælikvarða. Aðeins Viðreisn og Miðflokkurinn búa yfir fámennari þingflokkum en Samfylkingin! Það er mál manna að ofmat Samfylkingarinnar á eigin stærð skýri þrálátan hlandpoll fyrir framan herrasalernið á Alþingi.

***

Einhver gæti haldið því fram að Logi hafi bara komist illa að orði í ræðu sinni, en Helga Vala Helgadóttir fylgdi þessu eftir með stórfurðulegri yfirlýsingu um að Samfylkingin skuldi þjóðinni að gefa Sjálfstæðisflokknum frí. Helga Vala sýndi þar að hún er ekki í nokkrum tengslum við raunveruleikann sem er að flokkurinn hefur ekkert vægi og að þjóðin hefur afskaplega lítinn áhuga á Samfylkingunni.

***

Ef Samfylkingin skuldar þjóðinni eitthvað tengist það sennilega frekar því fjárhagstjóni sem flokkurinn olli skattgreiðendum í ríkisstjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Skuldin gæti líka tengst þeim fjárhagsvanda sem flokkurinn hefur um árabil leyft að vinda upp á sig í borginni á meðan flokkurinn hefur neitað að horfast í augu við eigið getuleysi. Samfylkingin skuldar þjóðinni frí frá sjálfri sér og bendir slakur árangur í kosningum - trekk í trekk - til þess að það sé vilji kjósenda.

***

Verði formannsskipti í Sjálfstæðisflokknum um helgina og menn reynast sannspáir um áhrif þess á framtíð ríkisstjórnarinnar, gæti Samfylkingin komist með krumlurnar í ríkiskassann á nýjan leik. Vonandi reynist þá fjármálalæsi Kristrúnar Frostadóttur betra en forvera hennar og samflokksmanna, en Týr er þó skeptískur í þeim efnum. Hvaða hagfræðingur, sem vill láta taka sig alvarlega, ákveður eiginlega að ganga til liðs við fjárglæfraflokk eins og Samfylkinguna?

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 3. nóvember 2022.