*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Brynjar Örn Ólafsson
23. nóvember 2019 13:43

Skuldabréf eða bankalán?

Gögn fyrir árin 2010 til 2019 gefa ekki til kynna að vaxtaáhættuálag sé hærra á minni útgáfur.

vb.is

Gögn fyrir árin 2010 til 2019 gefa ekki til kynna að vaxtaáhættuálag sé hærra á minni útgáfur.

Í álitsgerð sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá síðastliðinni viku kemur fram að ekki sé þörf á frekari slökun peningalegs aðhalds að gefnum þeim þjóðhagsspám sem liggja fyrir. Lögun vaxtaferils ríkistryggðra vaxta hefur í framhaldi haldist upphallandi. Að gefnum þessum vísbendingum um óbreytt eða hækkandi vaxtastig huga forsvarsmenn fyrirtækja að mögulegri fjármögnun.

Hægari vöxtur útlána innlánsstofnana til atvinnufyrirtækja að undanförnu gefur til kynna að bankarnir leiti eftir öruggari skuldunautum í niðursveiflu – til dæmis ríkissjóði. Forstjóri Haga lét hafa eftir sér í viðtali við Fréttablaðið 14. nóvember síðastliðinn að fyrirtæki „sem eru að fara að endurfjármagna sig á næstu mánuðum eða á næstu misserum geti lent á vegg“. Umræddur veggur á við um önnur fyrirtæki sem munu þurfa að þola verri vaxtakjör vegna lántöku hjá bönkunum þar sem þau geta ekki gefið út skuldabréf „í krafti stærðar og trausts rekstrar“ líkt og Hagar.

Í lok september gaf félagið út og seldi verðtryggt skuldabréf að nafnvirði 5,5 milljarða króna sem ber fasta 2,8% raunvexti. Áhættuálag umfram ríkistryggða vexti á söludegi var um 200 prósentupunktar (pkt.), sambærilegt útgáfu Reita fasteignafélags í sama mánuði og Eikar fasteignafélags í júní. Hagar endurtóku leikinn um miðjan október og seldu óverðtryggt skuldabréf fyrir 2,5 milljarða að nafnvirði. Frá því í september hafa sex önnur fyrirtæki gefið út og selt ný skuldabréf fyrir samtals 13,2 milljarða. Áhættuálag á bréfin hefur verið á bilinu 110 pkt. til 230 pkt.

Er skuldabréfamarkaður Nasdaq einungis markaður stórra fyrirtækja eða útgáfna? Miðgildi útgefinna og seldra skuldabréfa fyrirtækja frá ársbyrjun 2010 er 1,4 milljarðar króna en í 24 útboðum af 158 var upphæðin lægri en 500 milljónir. Hvað vaxtakjör varðar sýnir myndin á lóðrétta ásnum áhættuálag umfram ríkistryggða vexti og á þeim lárétta nafnvirði sölu. Erfitt er að fullyrða að fjárfestar krefjist aukins álags eftir því sem útgáfa er minni. Myndin undanskilur af fegurðarástæðum fimm útgáfur sem allar eru yfir 10 milljarða. Nálgast má áhættuálag fyrir allar útgáfur fyrirtækja og sveitarfélaga á hi.is/~boo4.

Þegar þetta er skrifað býðst fyrirtækjum 6% breytilegir óverðtryggðir vextir á nýjum bankalánum en til samanburðar seldi Lykill fjármögnun hf. í lok ágúst skuldabréf með gjalddaga árið 2023 á föstum 5,2% óverðtryggðum vöxtum. Sala Haga í október fór fram á 4,65% óverðtryggðum vöxtum og Reitir fasteignafélag seldu skuldabréf í nóvember á 4,6%. Útgáfurnar eiga það sameiginlegt að vera allar veðtryggðar.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.