Þeir sem vonuðust til þess að verðbólga tæki að hjaðna á fyrstu mánuðum ársins vöknuðu upp við vondan draum á mánudag. Febrúarmæling Hagstofunnar sýnir að 12 mánaða verðbólga er komin í 10,2% og er þetta í fyrsta sinn síðan haustið 2009 sem verðbólga mælist í tveggja stafa tölu.

Verðbólguþrýstingurinn er bæði meiri og breiðvirkari en sérfræðingar höfðu spáð. Þrátt fyrir lækkun fasteignaverðs hækka aðrir liðir vísitölunnar. Verðbólgan er alls staðar, sama hvort litið er til -fæðis eða klæða. Fátt bendir til annars en að Seðlabankinn hækki stýrivexti myndarlega við næstu vaxtaákvörðun í mars.

Ljóst að nýlegar spár um hjöðnun verðbólgu munu ekki rætast. Fáir hafa verið jafn bjartsýnir á verðlagsþróun og þeir sem stýra fjármálum Reykjavíkurborgar. Vinstrimeirihlutinn í Reykjavík hefur safnað miklum skuldum undanfarin kjörtímabil og nú virðist komið að skuldadögum.

Eins og fjallað var um á vef Viðskiptablaðsins í síðustu viku gerir útkomuspá Reykjavíkurborgar sem birt var í nóvem-ber ráð fyrir að matsbreytingar Félagsbústaða skili um 28,9 milljörðum í bækur samstæðu Reykjavíkur. Fyrstu níu mánuði síðasta árs nam virðisbreytingin tuttugu milljörðum. Ljóst er að erfitt verður að kokka upp þessa rúmu átta milljarða sem vantar upp á heildarvirði matsbreytinga samkvæmt útkomuspá. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur farið lækkandi frá lokum þriðja fjórðungs síðasta árs.

Borgin gerir ráð fyrir rekstrarbata á árinu 2023. Byggir spáin á þeirri veiku forsendu að viðsnúningur verði á fjármagnsliðum vegna töluvert lægri verðbólgu en í fyrra. Líkurnar á að þetta gangi eftir eru hverfandi. Í þjóðhags-forsendum fjárhagsspár Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í nóvember síðastliðnum, er byggt á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 27. júní síðastliðnum. Þar er gengið út frá því að verðbólga verði 4,9 á árinu og að launavísitala hækki um 5,5 prósent. Ljóst er að þessar forsendur eru þegar -brostnar. Öllum fyrirtækjum í B-hluta borgarinnar er gert að styðjast við þessar sömu forsendur í sinni áætlanagerð. Vart þarf að spyrja að leikslokum.

Miðað við áætlanir borgarinnar þarf hún að sækja sér fimmtán milljarða í lánsfé á fyrri hluta ársins til að standa undir boðuðum fjárfestingum, til viðbótar við þá sex milljarða sem fengnir voru að láni hjá Íslandsbanka í byrjun janúar. Litlar undirtektir í nýlegu skuldabréfaútboði borgarinnar sýna svart á hvítu að fjár-festar eru að missa trú á meirihlutinn grípi til nauðsynlegra aðgerða til þess að koma böndum á reksturinn. Þanniggætir verulega efasemda um að borgin geti hreinlega sótt sér þetta fjármagn á árinu. Það sést best á skuldabréfamarkaðnum, en ávöxtunarkrafan á skuldabréfaflokk borgarinnar, RVKN 35, er komin í 9,6% þegar þetta er skrifað.

Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins i janúar lýsti Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins og for-maður borgar-ráðs, stórfelldum fjárfestingaráformum. Fram kom í kynningu Einars að borgin og félag á hennar vegum á borð við OR og Félagsbústaði stefndu á að fjárfesta fyrir hátt í áttatíu milljarða á árinu. Hafi einhver haldið að þessi áform væru reist á öðru en sandi geta þeir hinir sömu farið yfir stöðu mála á skuldabréfamarkaði.

Það er í besta falli óábyrgt að boða fjárfestingar fyrir þrjá milljarða í „stafræna umbreytingu“ og 4,5 milljarða í grænar samgöngur, svo einhver dæmi séu tekin, á árinu miðað við þá stöðu sem nú er uppi. Ljóst er að fjárfestar á skuldabréfamarkaði hafa ekki trú á að borgarmeirihlutinn nái stjórn á fjármálum borgarinnar. Það er aðeins tímaspursmál hvenær allir aðrir komast að sömu niðurstöðu. Þegar frekari upplýsingar um alvarlega fjárhagsstöðu borgarinnar koma í ljós á næstu vikum munu fulltrúar meirihlutans vafalaust kenna verðbólgunni um. Staðreynd málsins er hins vegar að fjárhagur borgarinnar er í kaldakoli vegna skuldasöfnunar.