*

mánudagur, 11. nóvember 2019
Huginn og muninn
15. júní 2019 11:05

Skuldin og skuldabréfaútboðið

Skúli Mogensen er ósáttur vegna skrifa Stefáns Einars höfundar bókarinnar um Wow.

Skúli Mogensen birti langa færslu á Facebook um síðustu helgi, þar sem hann segir Stefán Einar Stefánson, höfund bókarinnar „Wow: Fall og ris flugfélags“, um að fara með dylgjur og ósannindi. Þegar Stefán Einar ritaði bókina óskaði hann eftir viðtali við Skúla. Í Facebook færslu sinni segist Skúli ekki hafa viljað ræða við Stefán Einar vegna fyrri skrifa hans um Wow.

„Alvarlegast var þegar hann fullyrti að WOW air skuldaði Isavia 2 milljarða í stórri forsíðugrein sem Morgunblaðið birti 15. september 2018 þegar við vorum á loka metrunum við að klára umrætt skuldabréfaútboð,“ skrifar Skúli.

Þarna fellur Skúli í þá gryfju að skjóta sendiboðann. Vissulega var skuldin ekki nákvæmlega 2 milljarðar á þessum tíma. Í lok júlí var rúmur milljarður fallinn á gjalddaga og byrjun september var hálfur milljarður til viðbótar á gjalddaga. Skuld Isavia á þessum tíma nam því um 1,5 milljörðum króna. Sú skuld átti síðan bara eftir að hækka.

Sama hvernig á það er litið þá skuldaði Wow Isavia stórfé um miðjan september og fullkomlega eðlilegt að greina frá því. Það hvort fréttin er sögð á lokametrum skuldabréfaútboðs skiptir ekki nokkru máli. Blaðamenn geta og mega ekki vera að velta slíkum hlutum fyrir sér. Þegar vanskil eru komin yfir milljarð króna þá er það frétt. Í þessu sambandi má líka velta fyrir sér hvort einhverjir fjárfestar, sem hugsanlega hættu við að taka þátt í útboðinu í september, þakki ekki einmitt Mogganum fyrir fréttina.

Stefán Einar svaraði gagnrýni Skúla í bloggfærslu á mánudaginn. Segist hann standa við allt sem hann hafi skrifað og sagt. Þá fullyrðir hann að nú séu fjölmargir aðilar að rannsaka málefni Wow og að á komandi mánuðum muni „málarekstur innan dómstóla og utan leiða sannleikann fram með enn skýrari hætti en mér var unnt að gera á þeim fimm vikum sem ritunartími bókarinnar spannaði“.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.