*

laugardagur, 16. október 2021
Örn Arnarson
24. september 2021 15:02

Skýr merki um kvikuhreyfingar

Fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins fjallar um ákriftarréttindi, reiðina á Internetinu og arðgreiðslur suður með sjó.

Það er dapurlegt að horfa upp á tilraunir Kristrúnar Frostadóttir, oddvita Samfylkingarinnar í syðri hluta Reykjavíkurkjördæmis, að þagga niður í og tortryggja fjölmiðla sem fjallað hafa um áskriftarréttindi á kaupum á hlutabréfum í Kviku vegna starfa hennar fyrir bankann. Það er ekkert að athuga við þessa umfjöllun enda hefur verið fjallað um hlutabréfaviðskipti og annað fjármálavafstur frambjóðenda í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmála. Sú umfjöllun hefur ekki alltaf verið sanngjörn og stundum hefur verið gripið til óyndisúrræða til stöðva hana. Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður og meðframbjóðandi Kristrúnar, ætti til að mynda að rifja upp fyrir henni þegar lögbann var sett á Stundina fyrir fjórum árum vegna umfjöllunar blaðsins um fjármál Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

                                                                          ***

Kristrún birti langar færslu á Twitter á mánudag þar sem hún segir farir sínar ekki sléttar. Hún sakar þar Morgunblaðið og Viðskiptablaðið um að gera lítið úr jafnaðarmannaskoðunum hennar. Í tilfelli Viðskiptablaðsins er þar vísað til fréttar um að skattayfirvöld hafi til skoðunar skattalega meðferð á áskriftarréttindakerfis sem valdir starfsmenn Kviku nutu á kaupum í hlutabréfum í bankanum. Kristrún, sem er fyrrverandi starfsmaður Kviku, naut þessara réttinda og hefur verið greint frá því að hún kunni að hafa hagnast um 50-100 milljónir vegna þeirra. Eins og fram kemur í umfjöllun Viðskiptablaðsins voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að hafa samband við Kristrúnu við gerð fréttarinnar en hún virðist hafa kosið að svara ekki blaðamönnum. Þess í stað fer hún þá leið að gera blaðamönnum upp annarlegar hvatir á samfélagsmiðlum.

En það eru fjölmargar ástæður fyrir því að umfjöllun um þessi viðskipti eigi fullan rétt á sér. Hún er réttmætt innlegg í umræðu um breytileg starfskjör í fjármálageiranum og hvatakerfum þeim tengdum. Í kjölfar fjármálakreppunnar voru gerðar verulegar breytingar á reglum um kaupaaukakerfi og breytileg starfskjör í fjármálageiranum. Síðasta vinstri stjórn ákvað að innleiða þessar reglur með mun strangari hætti en gert var í öðrum Evrópuríkjum. Þannig ríkja mun meiri takmarkanir á hversu mikinn hluta af heildarlaunum einstaka starfsmanns megi greiða í kaupauka svo dæmi sé tekið.

Þessar reglur taka ekki til áskriftarréttinda. Þannig hafa tveir íslenskir bankar farið þá leið að selja starfsmönnum slík réttindi. Réttindin eru gefin út og virka þannig að viðkomandi starfsmaður geti gegn greiðslu keypt hlutabréf í bankanum síðar meir á markaðsgengi útgáfudagsins. Þrátt fyrir að Kristrún láti annað í veðri vaka í færslu sinni á Twitter þá er áhætta starfsmanns sem fær slík réttindi hverfandi því augljóslega nýtir enginn áskriftarréttindin innan þess tíma sem þau gilda hafi gengið lækkað frá útgáfudegi þeirra. Almenningi stendur ekki til boða að stunda svona hlutabréfaviðskipti og áhættan af þeim er hverfandi og ekki samanburðarhæf við hefðbundin kaup á hlutabréfum þrátt fyrir að Kristrún haldi öðru fram.

Rétt er að taka fram að áskriftarréttindi Kviku eru ekki óumdeild og hefur meðal annars heyrst gagnrýni úr hluthafahópi bankans að sérvöldum starfsmönnum hafi verið skammtað ansi ríflegum heimildum til kaups á bréfum bankans. Rétt er að taka fram að mun meiri „jafnaðarmennska" ríkti í höfuðstöðvum Arion þegar sambærilegt kerfi tók gildi en þá fengu allir starfsmenn bankans slík réttindi.

Í stuttu máli eru fjölmargir fletir á þessu máli sem kalla á réttmætar spurningar til frambjóðandans og umræðu um afstöðu stjórnmálamanna - ekki síst þeirra sem tíðrætt er um ójöfnuð og eignaskiptingu. Og þrátt fyrir langorðar færslur á samfélagsmiðlum er mörgum spurningum um þetta mál ósvarað. Vonandi sitja fjölmiðlar ekki undir svona þöggunartilburðum.

                                                                          ***

Það vekur athygli að Kristrún nefnir Morgunblaðið einnig í kvörtun sinni yfir umfjöllun fjölmiðla. Eins og fyrr segir þá hefur Viðskiptablaðið haft veg og vanda að umfjöllun um áskriftarréttindi Kristrúnar og Kviku og könnun yfirvalda á skattalegri meðferð þeirra. Stefán Einar Stefánsson, annar af stjórnendum Dagmála Morgunblaðsins, spurði Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, út í málið í formannaviðtali og gerði hann ágætlega grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þar með er umfjöllun Morgunblaðsins fram að kvörtunum Kristrúnar á Twitter upptalin.

                                                                          ***

Árni Helgason lögmaður ritaði athyglisverða grein í Fréttablaðið í síðustu viku. Árni greinir umræðuhefð samtímans og birtingarform hennar í fjölmiðlum á snjallan hátt. Hann bendir á að þrátt fyrir að íslenskt samfélag vermi efstu sætin í flestum mælingum á lífskjörum einkennist umræðan á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum af barlómi. Árni skrifar:

„Lögmálin í þessum nýja veruleika eru að gagnrýni og reiði flýtur ofan á, sópar upp lækum og deilingum, en langloka um að staðan sé nú almennt góð drukknar í hávaðanum, þykir flöt og leiðinleg. Í dag á sæmilega reiður maður á Internetinu ágætis möguleika á að rata í fyrirsagnir netmiðlanna, sé hann bara nógu stóryrtur.

Sá sem ætlar að benda á samhengið - jú, það er vissulega ýmislegt sem má bæta en í það heila er staðan hins vegar mjög góð - er bara hluti af vandamálinu, skilur ekki umræðuna og er ekki með á nótunum."

Daginn eftir að grein Árna birtist steig Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fram á ritvöllinn. Tilefni voru greinarskrif lögmannsins. Þar sakaði hann Árna um fjárglæfra og gróðabrall. Daginn eftir var svo Ragnar á ný kominn í fréttirnar vegna yfirvofandi spádóma hans um heimskreppu í kjölfar yfirvofandi hruns á hlutabréfamörkuðum. Rétt er að taka fram að Ragnar skrifaði undir greinina að hann væri reiður maður á Internetinu.

                                                                          ***

En aftur að grein Árna. Í henni segir:

„Úr verður einhvers konar sérkennileg keppni um að tala nógu hátt inn í reiðina. Við sjáum ákveðin merki um þetta í kosningunum sem eru fram undan. Tilfinningin er stundum sú að við séum ekki að kjósa í landi sem teljist í fremstu röð í alþjóðasamanburði, heldur landi sem er nánast í rúst."

Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á þessari þróun enda eru þeir gjarnir á að rétta þeim sem eru reiðastir hverju sinni gjallarhornið. Sú gjá sem virðist vera á milli efnahagslegs veruleika og upplifunar fólks á ástandinu gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla og Árni fjallar um kom upp í hugann þegar horft var á kvöldfréttir Ríkisútvarpsins á sunnudag. Þar var að finna langa fréttaskýringu um ójöfnuð í íslensku samfélagi. Ekki var minnst á staðreyndir á borð við þær að eigna- og tekjudreifing er óvíða jafnari meðal þróaðra ríkja en hér á landi. Hins vegar var fjallað um nýlega vísindarannsókn sem sýnir að mikill meirihluti Íslendinga telur að ójöfnuður sé verulegt vandamál og rétt sé að hækka skatta á þá sem hafa hærri tekjur. Miðað við hversu launajöfnuður er mikill hér á landi kalla slíkar rannsóknir á frekari skýringar. Þannig gæti verið áhugavert að vita hvort þeir sem kalla eftir hærri sköttum vegna þessa meinta ójöfnuðar vilji að skattar verði hækkaðir á þá sem eru með sambærileg laun.

Það er umhugsunarvert þegar stjórnmálaumræðan er farin að snúast í jafn miklu mæli um að leysa vandamál sem sýnast meiri en efni standa til meðal annars vegna tilhneigingar fjölmiðla til þess að veita hinum stóryrtu og reiðu svigrúmið á kostnað þeirra sem nálgast málin með yfirvegaðri hætti.

                                                                          ***

Þrátt fyrir að Rauða alþýðulýðveldið í norðri hafi ekki enn litið dagsins ljós má nú þegar sjá að það er nú þegar farið að setja mark sitt á fréttaflutning. Fram til þessa hefur þótt jákvætt þegar athafnasamt fólk leggur sparnað sinn í uppbyggingu fyrirtækja og flestir hafa fagnað þegar slík uppbygging leiðir til blómlegs reksturs sem skapar störf og umsvif í þágu samfélagsins. Vísbendingar eru um að þetta kunni að vera að breytast.

Stundin sagði frá því þann 10. september að rótgróið fjölskyldufyrirtæki suður með sjó hafi greitt arð af rekstrinum undanfarin ár. Þegar litið er til afkomu félagsins sést ekkert athugavert við arðgreiðslurnar og þeir sem þekkja til fyrirtækisins vita að mikið hefur verið lagt í uppbyggingu þess. Samt sem áður gengur frétt Stundarinnar út á að fá forráðamenn fyrirtækisins til að svara hvort að það sé hægt að réttlæta að eigendur þess njóti ávaxtar af áhættunni og uppbyggingunni undanfarin áratug. Vonandi er þessi nálgun á fréttaflutningi af einkafyrirtækjum ekki það sem koma skal í íslenskum fjölmiðlum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.