*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Brynjar Níelsson
3. apríl 2021 13:43

Skýrir valkostir

Fólk finnur ekki fyrir því á eigin skinni þegar lífskjörin eru tekin að láni til margra ára en börn okkar og barnabörn munu finna fyrir því.

Nú líður að kosningum til Alþingis í skugga kórónuveiru og efnahagslegrar kreppu sem henni fylgir. Landsframleiðsla hefur dregist verulega saman með tilheyrandi atvinnuleysi og tekjutapi. Kosningabaráttan mun snúast um stefnu og hugmyndir flokkanna um endurreisn atvinnulífsins til að auka framleiðslu og viðhalda góðum lífskjörum, sem við höfum tekið að láni í faraldrinum. Flokkar sem hvorki byggja á hugmyndafræði né hafa stefnu í helstu hagsmunamálum þjóðarinnar munu halda sig við sýndarmennsku og yfirboð og vona það besta. Margt bendir til að slíkum flokkum sé að fjölga.

Við núverandi aðstæður standa kjósendur frammi fyrir nokkuð skýrum valkostum. Þeir verða að taka afstöðu til þess, hvort rétta leiðin út úr efnahagskreppunni sé vegur skattahækkana og aukinna umsvifa ríkisins með tilheyrandi útgjöldum eða hvort skattalækkanir og aukið svigrúm einkareksturs til verðmætasköpunar sé rétta leiðin. Enginn ágreiningur er um mikilvægi opinberra framkvæmda við aðstæður sem nú eru uppi. Slíkar fjárfestingar eru arðbærar og hafa setið of lengi á hakanum.

Það er stutt síðan alþjóðlega fjármálakreppan skall á heiminn og með meiri þunga á okkar fámenna samfélag en mörg önnur. Kannski getum við dregið einhvern lærdóm af viðbrögðum okkar og annarra þjóða við þeirri kreppu. Hreina vinstri stjórnin 2009-2013 fór þá leið að hækka skatta og var nokkuð hugmyndarík þegar kom að nýjum sköttum. Þeirri skattheimtustefnu fylgdi engin framtíðarsýn og atvinnulífið fékk ekkert súrefni til þess að vaxa og dafna og skapa verðmæti. Við tók tímabil stöðnunar þrátt fyrir að ytri aðstæður hafi verið nokkuð hagfelldar, m.a. með fjölgun ferðamanna.

Ríkisstjórnin sem tók við eftir kosningar 2013, eftir að vinstri flokkarnir guldu sögulegt afhroð í kosningum, breytti um kúrs. Í stjórnartíð hennar og þeirra sem á eftir komu voru skattar ýmist lækkaðir eða felldir niður til að örva atvinnulífið. Skiptu þar mestu máli niðurfellingar á tollum og vörugjöldum. Það leiddi til aukinnar bjartsýni og meiri fjárfestingar fyrirtækja og einstaklinga. Við það sköpuðust störf og framleiðsla jókst og þar með tekjur ríkisins til að standa undir mikilvægri þjónustu. Allir sem höfðu vilja og getu til að vinna fengu störf við hæfi. Kaupmáttur jókst gífurlega og ríkissjóður var í stakk búinn til að bæta mjög stöðu þeirra sem þurftu að styðjast við almannatryggingar, auk þess sem auknum fjármunum var varið í heilbrigðis- og menntamál.

Þessi veruleiki hefur ekki breytt afstöðu vinstri manna. Þeir eru enn fastir í þeirri tálsýn að tekjuöflun ríkisins eigi að vera í gegnum hærri skatta, enda líta þeir svo á að arður í einkarekstri sé jafnan á kostnað almennings. Þá telja þeir einnig að skattar eigi ekki eingöngu að vera tekjustofn fyrir ríkið heldur tæki til að jafna kjör fólks. Ríkið skuli vera allt umlykjandi, ýmist í krafti einokunar eða í óheilbrigðum samkeppnisrekstri við einkaaðila. Þessi stefna veikir óhjákvæmilega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þar með verðmætasköpun í samfélaginu.

Vinstri flokkarnir í stjórnarandstöðu hafa með skýrum hætti stefnt að því að sömu flokkar og stjórna borginni taki við landstjórninni eftir næstu kosningar. Það er út af fyrir sig ágætt og gefur kjósendum skýran valkost. En þeir kjósendur sem eru spenntir fyrir vinstri stjórn að hætti meirihlutans í borginni ættu samt að rifja upp stefnu þessara flokka í efnahagsmálum undanfarin ár.

Eftir að landið byrjaði að rísa aftur eftir fjármálakreppuna á árunum 2014-15 mótmæltu þessir flokkar harðlega þeirri stefnu að greiða hraustlega niður skuldir ríkisins sem óhjákvæmilega höfðu aukist vegna kreppunnar. Á hverju ári lögðu þeir til að skatttekjur ríkisins yrðu frekar nýttar til aukinna útgjalda í stað niðurgreiðslu skulda og breytti engu þótt útgjöld til velferðar- og heilbrigðismála og flestra annarra málaflokka hefðu verið aukin verulega á hverju ári.

Það er eiginlega ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda hver staðan væri núna í faraldrinum ef stefna þessara flokka hefði orðið ofan á. Þessi stefna var hins vegar rekin af fullum krafti í borginni sem náði að auka skuldir á sama tíma og tekjur hennar jukust verulega. Og þrátt fyrir að tekjur borgarinnar hafi ekki minnkað vegna faraldursins, öfugt við ríkissjóð, er enn bætt við skuldum. Þessi hörmungarrekstur borgarsjóðs virðist hafa lítil áhrif á fylgi borgarstjórnarmeirihlutans. Fólk finnur nefnilega ekki fyrir því á eigin skinni þegar lífskjörin eru tekin að láni til margra ára en það er jafnljóst að börn okkar og barnabörn munu finna fyrir því.

Við núverandi aðstæður er mikilvægt að þeir sem stjórna landinu beri eitthvert skynbragð á gangverk samfélagsins og átti sig á því hvernig verðmæti verða til. Ríkishyggja, ofstjórn og fjandskapur út í atvinnulífið leiða okkur ekki í heila höfn.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.