Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum og verður vafalaust áfram næstu vikurnar. Af lestri skýrslunnar í skjóli frá áreiti fjölmiðla, álitsgjafa og stjórnmálamanna verður ekki betur séð að Ríkisendurskoðun telur að salan hafi heppnast í stórum dráttum vel þó svo að gagnrýna megi eitt og annað. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir:

Þrátt fyrir ýmsa annmarka á söluferlinu dregur Ríkisendurskoðun ekki í efa að fjárhagsleg niðurstaða söluferlis á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka þann 22. mars 2022 hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld. Það á einnig við um þróun á gengi bréfa í bankanum á eftirmarkaði í kjölfar sölunnar. Þó er ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið ríkissjóði eins hagkvæm og verða mátti.“

Með öðrum orðum: Þetta gekk í stórum dráttum ágætlega en framkvæmdin var þó ekki fullkomin. Eigi að síður reyna margir áfram að tortryggja málið og á stundum má sjá lítinn mun á hvort fjölmiðlafólk eða stjórnarandastæðingar á þingi séu að verki í þeim efnum.

***

Upptaktinn að umfjöllun fjölmiðla á borð við Ríkisútvarpið um skýrsluna mátti heyra á fimmtudaginn í síðustu viku. Þá fjallaði Sunna Valgerðardóttir um söluna og aðdragandann að skýrslugerðinni í þættinum Þetta helst á Rás 1.

Í raun veru er ekki hægt að segja að þarna hafi verið umfjöllun á ferðinni – að minnsta kosti ekki umfjöllun í fréttatengdum skilningi. Þáttastjórnandi þandi sig viðstöðulaust í tuttugu mínútur og reifaði alla helstu talpunkta stjórnarandstöðunnar í málinu. Einhliða áróður sem á lítið skylt við fréttamennsku og sýnir vafalaust af hverju RÚV var einn þeirra miðla sem skýrslan var lekið til síðastliðin sunnudag.

Fleiri fréttir eftir að skýrslan leit með formlegum hætti dagsins ljós voru því marki brenndar að hafa þann tilgang að tortryggja málið fremur en að skýra það. Þannig sögðu margir fjölmiðlar að fram komi í skýrslunni að Ríkisendurskoðun hafi vakið athygli Fjármálaeftirlitsins á þeirri staðreynd að velta með hlutabréf í Íslandsbanka hafi nánast þornað upp síðustu viðskiptadagana fyrir útboðið. Voru þær fréttir settar í samhengi við mögulegan leka um áform Bankasýslunnar.

Í þessum fréttum var ekki haldið til haga þeirri staðreynd að föstudaginn fyrir útboðið birti fjármálaráðuneytið tilkynningu um að ráðherra hafi samþykkt tillögu Bankasýslunnar um söluferlið. Þar með var á allra vitorði að salan væri yfirvofandi. Á mánudeginum hefur svo Bankasýslan þreifingar á markaði. Þær leiddu meðal annars til að 26 fjárfestar fengu aðgang að innherjaupplýsingum um Íslandsbanka og gátu því ekki átt í viðskiptum með hlutabréf hans. Í þessum hópi voru stærstu lífeyrissjóðir landsins. Það liggur í augum uppi að þegar slíkum aðilum er skylt að standa á hliðarlínunni þá hafi það áhrif á veltu bréfanna.

***

Önnur undarleg frétt um skýrsluna var í boði Berghildar Erlu Bernharðsdóttir á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis. Þar leiðir hún líkum að því að Bankasýslan hafi gerst brotleg við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hið meinta brot er að Bankasýslan hefði hugsanlega getað selt hlutina í útboðinu á enn hærra gengi. Ekki kemur fram í fréttinni að greinin sem þarna um ræðir er svokallað markmiðsákvæði og þar af leiðandi sjaldan klippt eða skorið hvort að brot hafi átt sér stað. Að þessu leyti minnir greinin á fjórðu grein umferðarlaganna sem kveða á um að vegfarendur sýni tillitssemi og varúð í umferðinni og forðist að vera öðrum til ama og leiðinda.

Þarna var Berghildur að teygja sig ansi langt í innistæðulausum túlkunum á skýrslunni og sýndi það sig meðal annars þegar Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, tók sérstaklega fram að stofnunin teldi að lög hafi ekki verið brotin í útboðinu þrátt fyrir að bent sé á ýmsa annmarka.

Vissulega koma fram skoðanir í skýrslunni að hægt hefði verið að selja á hærra verði í útboðinu en hafa verður í huga að skoðanir á því hvernig eigi að ná fram markmiðum jafngildi ekki því að þeir sem ekki breyta í samræmi við skoðanirnar séu brotamenn.

Í sjálfu sér er þetta sambærilegt við það ef einhver fjölmiðill flytti fréttir að því að stórfelld og viðvarandi brot á grunnskólalögum eigi sér stað á degi hverjum á þessum trúlausu tímum í skólakerfinu. En í grunnskólalögum segir: "Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar."

***

Þáttur fréttastofu Ríkisfjölmiðilsins var einnig undarlegur. Sérstaklega framlag Sólveigar Klöru Ragnarsdóttir fréttamanns. Mætti hún með tökumanni á skrifstofur Bankasýslunnar og birti svo vef Ríkisútvarpsins myndskeið þar sem að Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar hafnar boði fréttastofunnar um viðtal. Vissulega hálfvitalegt myndskeið en fréttagildið nákvæmlega ekkert.

Þarna var um að ræða ómerkilega sviðsetningu hjá fréttastofu ríkismiðilsins. Það er ekki fréttaefni þegar maður hafnar viðtali. Um það þarf ekki að hafa mörg orð. Það er ekki eins og forstjóri Bankasýslunnar sé sakamaður á flótta. Varnir Bankasýslunnar koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þess til viðbótar hafði stofnunin sent frá sér fréttatilkynningu með frekari athugasemdum daginn sem skýrslan var birt. Í ljósi þess geta verið skiljanlegar ástæður fyrir að forstjórinn hafi ekki viljað tjá sig um málið þann daginn og hvorki RÚV né aðrir miðlar áttu einhverja sérstaka kröfu um að hann gerði það.

Samt mætti Sólveig Klara á skrifstofuna með tökumann án þess að gera boð á undan sér og býr til einhverskonar niðurlægingafrétt úr heimsókninni. Þar með var hún ofan á annað búin að bregða sér í gervi refsinornar en fyrst og fremst er hún ekki fréttamaður heldur dramatisti í þessum sporum. Þetta var ekki frétt heldur annarleg smellubeita. Sem ætti kannski ekki að koma á óvart þar sem að RÚV er einmitt farið að senda út „fréttir“ á Tik Tok.

Framganga Sólveigar minnir um margt þegar Ólafur E. Jóhannesson fréttamaður á Stöð 2 ruddist inn á Radíóverkstæði Santosar á Hverfisgötu og sakaði eigandann, Reyni Zarsuela Santos, um "stórfelldan þjófnað á efni Stöðvar 2"með ólöglegri fjölföldum á myndlyklum.

***

Ekki var þáttur Sigríðar Daggar Auðunsdóttir stjórnanda Kastljóssins síður undarlegur. Sennilega er nær lagi að tala um samleik Sigríðar við Kristrúnar Frostadóttir formann Samfylkingarinnar. Þær stöllur reyndu að spinna þráð um að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi ekki verið reiðubúinn til þess að mæta Kristrúnu í Kastljósinu til að ræða skýrsluna. Kristrún notaði til þess samfélagsmiðla en Sigríður Dögg aðstöðu sína sem þáttastjórnandi þegar hún spurði Bjarna í lok viðtalsins hvers vegna hann „þorði“ ekki að mæta Kristrúnu.

Hersir Aron Ólafsson aðstoðarmaður Bjarna upplýsti í framhaldinu hvernig þetta var í pottinn búið. Sigríður hafði verið í sambandi við ráðherra fyrr um daginn vegna viðtalsins en svo haft samband á síðustu stundu og lagt til að Bjarni ræddi málið við stjórnarandstæðing og nefndi Kristrúnu í því samhengi . Hersir Aron skrifar á svo á Facebook:

Það næsta sem dúkkaði upp var færsla Kristrúnar Frostadóttur um að Bjarni „þorði ekki“ að mæta sér í Kastljósi, og svo fullyrðingar Sigríðar Daggar í þættinum sjálfum. Flestir sem fylgjast með fréttum og þingumræðum sjá eflaust að Bjarni hefur „þorað“ að mæta stjórnarandstöðunni hvar sem þess þarf, hvort sem er í þingsal, sjónvarpssal eða sölum þingnefnda. Mér skilst að hann ætli meira að segja að tala í sig kjark og vera með stjórnarandstöðunni í sérstakri umræðu á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar allan daginn á morgun.”

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 17 nóvember 2022.