*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Heiðrún Lind Marteinsdót
4. maí 2018 12:40

Skýrslur sem engu skila

Þann 9. maí verður tæpt ár liðið síðan þingheimur varð var við erfiða stöðu sjávarútvegs án þess að nokkurt hafi verið að gert.

Haraldur Guðjónsson

Þann 1. júní 2017 ákváðu þáverandi sjávarútvegsráðherra og þáverandi formaður atvinnuveganefndar Alþingis að nauðsynlegt væri að fram færi úttekt á rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Fádæma sterkt gengi krónu, verðlækkun á sjávarafurðum í íslenskum krónum og hækkun kostnaðar vegna aðfanga og launa hafa reynst sjávarútveginum þungur baggi. Það var því ánægjulegt að stjórnvöld gaumgæfðu stöðu einnar mikilvægustu útflutningsgreinar landsins.

Þann 13. júlí 2017 birti sami sjávarútvegsráðherra reglugerð um veiðigjald fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Miðað við hana og áætlað aflamark lá fyrir að veiðigjald á fiskveiðiárinu yrði 10,5 til 11 milljarðar króna og að það væri ríflega tvöföldun frá fyrra fiskveiðiári. SFS bentu strax á að hækkunin kæmi harkalega niður á sjávarútvegsfyrirtækjum og þau væru mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við hana.

Þann 1. september 2017 skall hið hækkaða veiðigjald á sjávarútveg af fullum þunga. Þeir sem einhvern skilning höfðu á rekstri, þ.m.t. stjórnmálamenn, tóku undir að hin mikla hækkun veiðigjalds væri áhyggjuefni. Það var jákvætt að á þessari alvarlegu stöðu væri, að því er virtist, einhver skilningur. Allt kom þó fyrir ekki og stjórnvöld aðhöfðust ekkert.

Þann 13. október 2017 birtist á vef sjávarútvegsráðuneytisins áfangaskýrsla Deloitte um rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Skýrslan staðfesti verulegan samdrátt og versnandi afkomu. Þrátt fyrir þetta aðhöfðust stjórnvöld ekkert.

Þann 6. mars síðastliðinn birtist á vef sjávarútvegsráðuneytis lokaskýrsla Deloitte um rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Skýrslan staðfesti verulegan samdrátt og versnandi afkomu. Þrátt fyrir þetta aðhöfðust stjórnvöld ekkert. 

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis lýkur þingstörfum 9. maí. Þá verður liðið tæpt ár frá því þingheimur varð þess var að eldar loguðu í Róm. Í heilt ár hafa þeir logað í stærstu útflutningsgrein landsins og lífæð byggðar um allt land. Við skulum endilega skrifa fleiri skýrslur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is