*

miðvikudagur, 20. október 2021
Huginn og muninn
20. janúar 2018 11:09

Slæm vika fyrir Dag

Neysluvatnið mengaðist og Reykjavík mælist langneðst í þjónustukönnun Gallup.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Upphaf fastrar búsetu manna og síðar borgarmyndunar er rakið til viðleitni manna til þess að nýta og verja vatnsból, enda hreint vatn forsenda heilbrigðs lífs. Það er því engin tilviljun að menn hafa jafnan lagt brunnmíga og eiðrofa að jöfnu sem helstu úrhrök mannlegs samfélags. Því er það með nokkrum ólíkindum að á 21. öldinni skuli borgaryfirvöld hvað eftir annað verða uppvís að því að sofa á vaktinni að þessu leyti. Það var vitað að Degi B. Eggertssyni er ekki hlýtt til borgarastéttarinnar, en engan óraði fyrir þessu kæruleysi gagnvart borgmenningunni sjálfri. Og það á kosningaári!

Reykvíkingum er enn óþægilega minnisstætt þegar skólp fékk að leika um strendur borgarinnar og nágrannasveitafélaga vikum saman í fyrra án þess að borgarbúar væru látnir vita, en borgaryfirvöld vonuðust ljóslega til þess að enginn tæki eftir ógeðinu og reyndu að humma málið af sér þegar upp komst. Götur borgarinnar eru ekki hreinsaðar, sem veldur verri loftgæðum og meiri mengun. Rottufaraldur hefur geysað ítrekað í nokkrum hverfum, sem er ein afleiðing breyttrar og fátíðari sorpuhirðu. Og nú eru vatnsbólin í hættu án þess að borgarstjóranum finnist það koma sér við frekar en annað sem á bjátar. Í viðtölum lætur hann eins og hver annar saklaus vegfarandi, mjög hissa á þessu öllu, en fullvissar þó borgarbúa um að hann sé með „öll gögn undir höndum og muni kynna sér þau vel“. Á meðan geti borgarbúar bara sopið kokkteila og étið snittur eins og almennilegt fólk.

Vikan var annars ekkert góð fyrir Dag, því Kjarninn skúbbaði því líka að Reykjavíkurborg hefði mælst langneðst í þjónustukönnun Gallup í samanburði við önnur sveitarfélög. Það átti við um flesta þjónustuþætti en í nokkrum þeirra náði höfuðborgin þó þeim merka árangri að vera í næstneðsta sæti. Reykjavík er einnig neðst í mælingu á heildaránægju íbúa af sveitarfélagi sínu. Þetta er ekki ný þróun, en þegar hún kom á daginn fyrir tveimur árum voru viðbrögð Dags þau að draga borgina einfaldlega út úr samanburðarkönnunum sveitarfélaga og láta bara mæla hverfi borgarinnar innbyrðis. Nú, þegar Gallup mælir óánægju borgarbúa nú samt, er viðkvæði Dags & co. að það sé ekkert að marka, þar sé ekki verið að mæla gæði þjónustunnar heldur bara álit borgarbúa á henni! Og hvað vita þeir svo sem?

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.