Jarðhræringar á Reykjanesskaga hafa tekið sig upp á ný. Jarðvísindamenn eru enn á ný orðnir eftirsóttustu viðmælendur allflestra fréttamiðla. Jarðvísindamennirnir eru auðvitað þeir einstaklingar sem hæfastir eru til að bera á borð vangaveltur um hugsanleg eldgos, enda hámenntaðir í faginu. Hins vegar hafa öll þeirra svör verið á þá lund að það gæti auðvitað orðið eldgos, eða ekki, eða kannski. Það hefði getað byrjað eftir nokkra daga eða nokkrar vikur. Svo veit enginn hvenær það endar.

Slík svör eru fullkomlega eðlileg og skiljanleg. Jarðvísindamenn byggja þekkingu sína fyrst á fremst á því sem hefur gerst í fortíðinni, sem gefur þó ekki endilega fyrirheit um hvað gerist í framtíðinni. Þetta er ekki ósvipað þeirri klemmu sem sjóðstjórar, fjárfestar og ráðgjafar á fjármálamarkaði standa frammi fyrir.

Eflaust væri skynsamlegt ef jarðeðlisfræðingar og aðrir renndu yfir fjárfestingaskilmála verðbréfasjóða til að leita innblásturs við samningu skilmála spádóma um hugsanlegar jarðhræringar:

„Bent skal á að vitneskja um fyrri jarðhræringar og yfirstaðin eldgos gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um jarðelda í framtíð. Upplýsingar um fyrri eldgos eru aðeins birtar í upplýsingaskyni og ekki skal líta á þær sem ráðgjöf um byggingu alþjóðaflugvallar í Mýrasýslu, byggingu varnargarða við Reykjanesbrautina eða lagningu lestarteina af nokkru tagi. Áskilinn er réttur til breytinga.“

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. ágúst 2022