*

miðvikudagur, 20. október 2021
Huginn og muninn
25. júní 2016 10:10

Smári á villigötum

Það er ekki hægt að treysta því að vinstrimenn - sama hvað þeir hafa sagt - spili með þegar kemur að því að klára afnám hafta.

Í grein á Stundinni segir Smári McCarthy það „algerlega óábyrgt af ríkisstjórninni að koma ekki skýrt og heiðarlega fram varðandi skipulag kosninga í haust.“

Smári gerir leiðtogum ríkisstjórnarinnar það upp að vilja skapa eins mikla ringulreið og unnt er. Ástæða þess að ekki er hægt að segja vinstrimönnum ennþá hvenær nákvæmlega kosið verður er hins vegar einföld og byggir á leikjafræðinni. Það er ekki hægt að treysta því að vinstrimenn - sama hvað þeir hafa sagt - spili með þegar kemur að því að klára afnám hafta. Nokkrir mikilvægir leikir eru eftir í þeirri fléttu og það er ekki hægt að hætta á að þeir leikir verði að spilapeningum í einhverjum málþófsleik stjórnarandstöðunnar.

Smári McCarthy vitnar í grein sinni í orð Kristjáns Möller, þingmanns Samfylkingarinnar, sem á dögunum sagði í útvarpsviðtali að sú ákvörðun að ganga til kosninga í haust hafi verið illa ígrunduð. Þar verða hrafnarnir að taka undir með Kristjáni. Að ætla að ganga til kosninga svo skömmu fyrir - eða eftir - fjárlagavinnuna er uppskrift að engu öðru en öngþveiti og eins og Kristján bendir á þá yrði yrði kosið að fjórum árum liðnum í október og sama vitleysan endurtekin. Þetta undirstrikar það hversu illa hugsuð sú ákvörðun var að láta undan kröfunni um kosningar áður en kjörtímabilið var á enda runnið.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 16. júní 2016. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.