*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Leiðari
27. júlí 2017 14:39

Smitandi andleysi?

„Hvort borgarstjórnin sé einfaldlega afleiðing af djúpstæðu andleysi stofnana sveitarstjórnarinnar eða öfugt er hins vegar erfitt að segja.“

Haraldur Guðjónsson

Það hefur verið einstakt að fylgjast með borgarmálum í Reykjavík undanfarin ár og hefur gangur mála þar ósjaldan verið innblástur í leiðaraskrifum ritstjórnar, það hefur enda verið af nægu af taka.

Á fordæmislausum góðæristímum hafa borgarbúar þannig til að mynda fengið að fylgjast með skuldum sveitarfélagsins aukast. Þá gæti stefnuleysi borgarstjórnarmanna í íbúðarmálum talist tilvalið efni í forvarnabækling sem ber nafnið „Sofandi að feigðarósi“, þar sem brugðist var allt of seint við löngu fyrirséðum aðstæðum.

Við upptalninguna má svo bæta við illa ígrunduðum vegaframkvæmdum sem helst virðist mega skrifa á slæman undirbúning og samskiptaleysi borgarstarfsmanna.

Það er því kannski ekki að furða að orðið andleysi er það sem helst kemur upp í huga leiðarahöfundar þegar rifjuð er upp staða og fyrri ákvarðanir (eða ákvarðanaleysi) borgarstjórnarinnar undanfarin misseri. Það sem verra er þá virðist af fréttum síðastliðinna vikna að dæma að einkenni borgarstjórnarinnar sé farið að dreifa sér til annarra stofnana sveitarfélagsins.

Það er óþarfi að rifja upp það sem helst má kalla stóra „saur-málið“ sem heltók íslenska fjölmiðla fyrir nokkru, málið hefði enda geta verið stórgott kennslubókardæmi um slæma stjórnhætti. Skólp rann í miklu magni út í flæðarmálið á helstu útivistarperlum höfuð­ borgarinnar án þess að nokkrir málsmetandi menn sæju nokkra ástæðu til þess að vara fólk við ástandinu. Þegar kom að því að svara fyrir tilkynningarleysið bentu menn hver á annan eða útskýrðu fyrir skilningssljóum hlustendum að engin ástæða hefði verið til að vara við skólpmenguninni. Viðbrögð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra voru að hætta að taka símtöl frá fjölmiðlum.

Það nýjasta í syrpu andleysis í sveitarfélaginu eru loks harmsögur arkitekta og byggingarverktaka af samskiptum sínum við byggingarfulltrúann í Reykjavík og þar virð­ ist einnig vera af nægu að taka. Í stuttu máli er ástandið svo slæmt að nokkrir verktakar hafi gefist upp á skipulagsyfirvöldum í Reykjavík og tekið ákvörðun um að hætta einfaldlega uppbyggingu í miðborginni vegna mikilla og ítrekaðra tafa á afgreiðslu mála sem kostað hefur þá stórfé. Samtök iðnaðarins bentu á að ríflega helmingi mála hefði verið frestað hjá byggingarfulltrúa í Reykjavík árið 2015, sem síðan hefðu kostað fjölda fyrirtækja fúlgur fjár.

Steininn tók svo úr þegar Samtök iðnaðarins greindu frá því að þau hefðu óskað eftir fundi með borgaryfirvöldum vegna málsins í maí síðastliðnum. Niðurstaðan var sú að fulltrúum samtakanna verður boðið til fundar um málið í síðari hluta ágústmánaðar, eða um einum ársfjórðungi síðar, eins og samtökin bentu á í fréttatilkynningu sinni.

Það er því ekki laust við að manni fallist einfaldlega hendur þegar kemur að stöðu borgarmála um þessar mundir. Það er vel þekkt í stjórnun fyrirtækja að áhugaleysi og hegðun stjórnenda geti haft neikvæð áhrif á störf og hegðun samstarfsmanna. Hvort borgarstjórnin sé einfaldlega afleiðing af djúpstæðu andleysi stofnana sveitarstjórnarinnar eða öfugt er hins vegar erfitt að segja. Enn erfiðara gæti síðan reynst að vinda ofan af þeim vítahring andleysis sem virðist hafa fest rætur víðs vegar um borgina.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu þann 27. júlí 2017. 

Stikkorð: Dagur B. leiðari Borgarmál andleysi
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.