*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Andrés Magnússon
25. mars 2020 12:44

Smitgát skal höfð

Fréttir sem stangast innbyrðis á um aðalpunktinn, hæpnar frægrakallatilvísanir, furðulegt forsíðufréttaval og fórnarlömb stríðs.

Haraldur Guðjónsson

Kórónuveiran á nánast allar fréttir þessa dagana og ósennilegt að það breytist í bráð. Plágan og útbreiðsla hennar snertir vitaskuld hvert og eitt okkar, okkar nánustu og samfélagið allt. Þar liggur beinlínis líf við. Og viðbrögðin við heimsfaraldrinum hafa sett allt þjóðfélagið úr skorðum og á eftir að gera það í nokkra mánuði, jafnvel misseri eða ár. Sumar samfélagsbreytingar kunna jafnvel að vera varanlegar.

Til þessa hafa fréttirnar þó einkum verið nánast um lognið á undan storminum. Fólk hefur verið að greinast og sumir hafa veikst, en blessunarlega hefur fólk ekki enn týnt lífinu af þeim völdum. Af fréttum utan úr heimi er ljóst að sú heppni varir tæpast lengi og getur jafnvel mjög sigið á ógæfuhliðina. Þess vegna mátti líka nánast heyra hjörtu blaðamanna slá örar um land allt, þegar allt í einu kom frétt af því að smitaður maður hefði látist á Íslandi. Þeir létu ekki segja sér það tvisvar og upp hófst æsilegt kapp við að verða fyrstur með fréttina.

Kapp er þó ævinlega best með forsjá og það á við í blaðamennsku líka. Kannski enn frekar þar, því það skiptir máli að hafa fréttirnar réttar. Sérstaklega auðvitað í viðkvæmu máli eins og þessu þar sem margir eru mjög óttaslegnir fyrir. Það er ekkert afrek að verða fyrstur með ranga frétt, þá geta menn eins skáldað þær og alltaf verið fyrstir.

Í frásögnum sínum vöruðu margir miðlar sig nefnilega ekki á því að þrátt fyrir að að maðurinn hafi verið smitaður af veirunni, þá lá ekkert fyrir um að hann hefði látist af hennar völdum. Þvert á móti voru vísbendingar um að svo hefði ekki verið. Fréttir þar sem fyrsta dauðsfallinu af völdum Kórónuveirunnar á Íslandi var slegið upp, voru einfaldlega rangar. Fjölmiðlarýni sýndist mbl.is eitt vara sig nógu vel á þessu og segja rétta frétt og æsingalausa.

Verst var þó DV, þar sem fullyrt var að smitaður Íslendingur hefði látist og vitnað til tilkynningar landlæknis, sem fylgdi beint á eftir. Þar sagði í fyrstu línu að um erlendan ferðamann væri að ræða, svo fréttin stangaðist innbyrðis á um aðalfréttapunktinn. Það er kannski til of mikils ætlast að blaðamenn DV skrifi fréttirnar, en þegar þeir eru að afrita fréttatilkynningar og slá þeim upp, þá hlýtur að mega ætlast til þess að þeir lesi þær.

                                                                  ***

En það var fleira í fréttum en veiran. Og þó ekki, það tengjast nánast allar fréttir henni með einhverjum hætti. Þannig var ein mest lesna sagan á mbl.is í vikunni viðtal við Birgi Thorsteinsson Rijssel, Íslending sem starfar sem lífvörður og einkabílstjóri í Hollandi. Þar sagði hann undan og ofan af sínum högum en heimsfaraldurinn hefur gert hann verkefnalausan, svo hann kveðst geta skrimt fram í maí. Uppistaðan í viðtalinu var þó ekki síður fjölbreytileg störf hans við akstur þar á meginlandinu en sá leikur getur borist víða.

Þar greindi meðal annars frá akstri hans á slebbum og frægðarfólki og ýmis ævintýr því tengd. Þar á meðal var sérstakur kafli, ekki fram úr hófi viðburðaríkur, undir millifyrirsögninni „Með frænda Snoop Dogg í bílnum". Fjölmiðlarýnir telur að sennilega hafi ekki birst í íslenskum fjölmiðli jafnhæpin frægrakallatilvísun og er þó langt til jafnað. Mögulega þó frétt Vísis frá 2007 þegar greint var frá því að Aron Pálmi Ágústsson hefði hitt stórleikarann Wesley Snipes á Vegamótum, sem var þeim mun merkilegra fyrir að leikarinn var á sama tíma í dómssal vestanhafs.

                                                                  ***

Annars er sægur frétta í flestum miðlum, mjög laustengdur Kórónuveirunni, þar sem hún er samt einhverskonar útgangspunktur. Þá er í raun verið að reyna að vinkla það fréttamál á allan mögulegan hátt, kreista út úr því hvern dropa, umfram það sem unnt er að segja af eiginlegum fréttum og skýringum um útbreiðslu veirunnar, sjúkdóminn og mannfallið.

Eina slíka mátti lesa á forsíðu Fréttablaðsins í fyrradag, þar sem greindi frá því að þrátt fyrir að flugferðum fækki og hlutabréf falli í flugfélögum víða um allan heim, þá hafi vöruflutningar aukist til muna, en af því tilefni var rætt við Gunnar Má Sigurfinnsson, framkvæmdastjóra Icelandair Cargo. Vandinn var sá að hann hafði fátt að segja nema almælt tíðindi á borð við það að fragtflugfélög sinntu flutningum og að þau flyttu meira af sumu og minna en öðru. Erfitt væri þó að segja til hvernig reksturinn hefði breyst, aðstæður væru svo óvenjulegar. Sömuleiðis að erfitt væri að segja til um hver þróunin yrði. Ljóst væri þó að þetta íslenska fragtflugfélag myndi að mestu sinna flutningum til og frá Íslandi.

Það er ekki við Gunnar Má að sakast í þessu, hann svaraði spurningum greiðlega, en hafði ekki frekar en aðrir öll svör. Af lestrinum er lesandinn hins vegar sáralitlu nær um nokkuð það sem þar er fjallað um, einfaldlega af því að efnið stóð varla undir frétt. Hvernig það rataði á forsíðu er ráðgáta.

                                                                  ***

Íslenskir miðlar eru þó engan veginn barnanna verstir í að mjólka veiruna út í hörgul. Þannig kom fjölmiðlarýnir auga á frétt Bloomberg um það hvernig konur yrðu sérstaklega fyrir barðinu á Kórónuveirunni. Ekki þó þannig að þær veiktust frekar eða dæju frekar af hennar völdum, sjúkdómurinn virðist þvert á móti vera körlum erfiðari, heldur hitt að þær væru meirihluti heilbrigðisstarfsfólks og bæru auk þess oftar og í meiri mæli ábyrgð á heimilum.

Ekki skal dregið í efa að því sé þannig farið, en þetta er samt furðuleg frétt þegar hún er sett í sérstakt samhengi við pláguna, eins og dauðu karlarnir séu sjálfsagt dauðfegnir að vera lausir við þetta streð. Minnir á gömlu fréttina að helstu fórnarlömb stríðsins séu ekkjur og munaðarleysingjar.

                                                                  ***

Uppáhaldsfréttin af þessu tagi hlýtur samt að vera löng og alvörugefin umfjöllun The Guardian um kynlífssamkvæmi og orgíur, sem blaðið upplýsti lesendur sína um að væru ekki hættulaus með tilliti til Kórónuveirusmits. Fremur þó vegna kossa og ámóta atlota en kynmaka. Niðurstaðan var sú að orgíur væru sennilega ekki vel til fundin afþreying á dögum sóttkvía og félagslegrar einangrunar. Virkir í athugasemdum létu sitt þó ekki eftir liggja og bentu á ýmsar leiðir til þess að sinna þessu áhugamáli eftir sem áður, þar sem latexbúningar komu einkum við sögu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.