Sátt tókst í liðinni viku með Þóreyju Vilhjálmsdóttur, fv. aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og tveim blaðamönnum og ritstjóra DV. Samið var um 330.000 kr. greiðslu, sem Þórey lét renna til góðgerða, en hún féll frá meiðyrðamáli vegna fullyrðinga DV um að lögregla teldi að hún væri sökudólgurinn í lekamálinu mikla.

Blaðamennirnir gerðu mikil mistök þegar þeir fullyrtu þetta því þeir voru bara að giska. Það var ekki mörgum til að dreifa og þeir tóku sjensinn á að það væri hún. Það er fullkomlega óboðleg blaðamennska. (Og ekki síður í ljósi þess að þeir höfðu fengið vísbendingu um að þeir væru á villigötum.)

Fjölmiðlarýnir er hins vegar alls ekki viss um að dómstóll hefði dæmt Þóreyju í vil þrátt fyrir það. Eiginlega nokkuð viss um að það hefði hann ekki gert. Þarna var um langvinnt fréttamál að ræða, sem í eðli sínu snerist um myrkur kansellísins, en helstu hlutaðeigendur – Þórey þar á meðal – höfðu ítrekað neitað viðtölum og viðbrögðum, meðan ljóst má heita að málið hefði aldrei verið upplýst nema fyrir atbeina og þrákelkni blaðamanna DV.

Blaðamennirnir gerðu mistök, en þó það sé ekki hægt að kalla þau heiðarleg mistök, þá voru það samt mistök, sem blaðið færði til betri vegar þegar þau urðu ljós. Málið hefur svo nógsamlega verið básúnað síðan að það hvort Þórey hafi fengið stöðu grunaðs manns eða ekki er fyrir löngu orðið fullkomið aukaatriði og mannorð hennar hefur engan skaða borið. Af þeirri ástæðu altjent.

***

Stjórnendur DV hafa hins vegar reiknað út að líkurnar á því að það myndi a.m.k. bera málskostnað sinna manna hafi verið nægilega miklar til þess að ódýrara væri að leysa málið svona. Ætli kostnaður þess nemi þá ekki svona hálfri milljón, auk tapaðra vinnustunda innan blaðs þess vegna? Það er vel viðunandi, svona fjárhagslega.

En þá er það hitt, hvort það sé ekki ömurlegt að blaðamennirnir hafi þurft að biðja Þóreyju afsökunar á þessu aukaatriði vegna hins stóra samhengis. Þeir virðast a.m.k. hafa litið svo á og afsökunarbeiðni þeirra mjög hálfvelgjuleg, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Það skiptir engu. Það er óumdeilt að blaðamennirnir gerðu á hlut Þóreyjar, óháð hinu. Alveg óháð, því afrek þeirra væri engu minna þó þeir bæðu Þóreyju einlæglega afsökunar. Þvert á móti má segja að þeir séu að gera minna úr afrekinu með því að tengja þetta tvennt saman.

***

Það er misskilningur að menn niðurlægi sig með afsökunarbeiðni. En þegar menn biðjast afsökunar eiga þeir að gera það fölskvalaust og án fyrirvara, því annars er það engin afsökunarbeiðni. Hálfu verri raunar, því þá hafa menn látið drambið leiða sig til þess að hafa í frammi opinbert fals. Það er engum gott, allra síst blaðamönnum, sem eiga allt sitt undir trúverðugleika, hreinskilni og heiðarleika.

***

Hitt er annað mál, að lagaleg staða blaðamannanna er mikið umhugsunarefni. Samkvæmt fjölmiðlalögunum er það útgefandinn sem ber fjárhagslega ábyrgð á vandræðum af þessu tagi. Samt eru það nú blaðamennirnir og ritstjórinn, sem eiga heiður sinn að verja fyrir réttinum. En í hvaða stöðu eru þeir gagnvart útgefandanum í máli sem þessu? Hvernig geta þeir varið eigin starfsheiður ef útgefandinn tímir því ekki?

Þar ræðir um enn eitt vandamálið við fjölmiðlalög Katrínar Jakobsdóttur. Hér skal enn einu sinn hvatt til þess að þau séu endurskoðuð. Enn fremur að fjölmiðlaeftirlit ríkisins verði lagt niður þegar í stað.

***

Fyrst minnst er á fjölmiðla og hið opinbera verður varla hjá því komist að minnast á Ríkisútvarpið, sem enn einu sinni stendur frammi fyrir tröllauknum rekstrarörðugleikum. Svo miklum raunar að stjórn RÚV samþykkti sendingu til þingsins um hvernig það ætti að haga fjárveitingum.

Getur það samrýmst trúnaðarskyldum stjórnenda opinberra stofnana að standa í slíkum opinberum og hápólitískum snerrum við löggjafann? Nei, stjórnarmennirnir hafa augljósari leið til þess að láta óánægju sína í ljós.

Ekki var þó síður athyglisvert að fylgjast með fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af þessum kröggum stofnunarinnar. Hann fól m.a. í sér hnútukast við varaformann fjárlaganefndar Alþingis um eðli útvarpsgjaldsins, skattheimtu og hvað Ríkisútvarpið ætti á einhvern hátt inni hjá ríkissjóði og skattborgurum landsins .

Án þess að farið sé mikið nánar út í þá sálma er rétt að brýna fyrir fréttastofunni að sýna sérstaka aðgát, jafnvel hógværð, í fréttaflutningi af eigin hagsmunamálum