*

laugardagur, 18. september 2021
Týr
30. maí 2021 15:04

Sneypuför ASÍ

Týr hefur úr hóflegri fjarlægð fylgst með farsanum í kringum kjaramál flugfreyja Play. Reyndar snýst farsinn ekki um kjaramál sem slík, heldur ómaklega atlögu ASÍ að flugfélaginu.

Haraldur Guðjónsson

Týr hefur úr hóflegri fjarlægð fylgst með farsanum í kringum kjaramál flugfreyja hins nýja íslenska flugfélags, Play. Reyndar snýst farsinn ekki um kjaramál sem slík, heldur ómaklega atlögu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) að flugfélaginu.

***

Í öllum farsanum, hvatningunni til landsmanna og fjárfesta um að sniðganga félagið, samanburðinum við laun flugliða hjá Icelandair og vandræðalegum ummælum beggja aðila í fjölmiðlum, er einni spurningu alveg ósvarað. Hún er; Hvert er vandamálið? Vandamálið liggur í það minnsta ekki í vilja fjárfesta, því félagið virðist vera að fullu fjármagnað. Það liggur ekki í áhugaleysi landsmanna, því miðasala fer sæmilega af stað. Og ekki liggur vandamálið í því að manna vélarnar, því félaginu hafa borist umtalsverður fjöldi umsókna. Með öðrum orðum, það er töluverður fjöldi tilbúinn til að vinna á þeim launum sem félagið býður.

***

Það er rétt að rifja upp að einn erfiðasti hjallinn í fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair í fyrra var nýr samningur við flugfreyjur, sem tilheyra Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ) - sem á aðild að ASÍ. Þrátt fyrir að félagið væri nær gjaldþrota lögðu FFÍ og ASÍ upp með það markmið að gefa ekki tommu eftir í kjaraviðræðum. Nú fara sömu félög fram á það að Play gangi til samninga við sig og engan annan. Síðasti valkostur Icelandair í viðræðunum var að segja upp öllum flugfreyjum. Þá fyrst var nýr samningur samþykktur, þó með semingi af hálfu FFÍ og ASÍ. Það er stundum sagt, kannski í gríni en þó ekki alveg, að það sé erfitt að manna morgunflug Icelandair daginn eftir þorrablót Stjörnunnar. Týr veit ekki hvort það er rétt en hann veit þó að starfsaldur flugmanna og flugfreyja hjá Icelandair er hár, enda störfin vel launuð og hlunnindin góð. Svipað virðist vera uppi á teningnum hjá Play þó að ASÍ haldi öðru fram.

***

Til að svara spurningunni, þá er vandamálið í raun ekki til nema í huga ASÍ.

  
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.