Endurreisn hagkerfisins er mál málanna þessa dagana. Við þurfum að skapa tekjur og gæta þess að sú tekjusköpun sé heilbrigð og sjálfbær, bæði fyrir almenning og umhverfið. Grundvöllur þess að vel takist til við endurreisnina er að okkur auðnist að skapa góð störf - og góðar tekjur - fyrir fólk í öllum atvinnugreinum og um allt land.

Þrátt fyrir að íslenskur vinnumarkaður sé í lægð á tímum kórónaveirunnar eru ýmis tækifæri við sjóndeildarhringinn. Um leið hefur gefist ráðrúm til að horfa á hlutina með ferskum augum. Það mjög mikilvægt að við séum opin fyrir nýjum leiðum nú þegar við stöndum á tímamótum en við eigum ekki að ræsa vélina óbreytta.

Hraðar samfélagsbreytingar

Margt bendir til þess að framleiðni gæti aukist á næstu árum vegna hraðari tæknivæðingar samfara sóttvarnaaðgerðum. Framleiðni á það nefnilega til að vaxa í stökkum; stórar samfélagsbreytingar geta hrint nýjum ferlum af stað. Í því felast gífurleg tækifæri þar sem aukin framleiðni styður við hagvöxt, dregur úr verðbólguþrýstingi og eykur svigrúm fyrir heilbrigt launastig. Þar er mikilvægt að finna jafnvægi milli launafólks og atvinnulífs.

Faraldurinn hefur líka vakið flest okkar til umhugsunar um það hvernig við verjum tíma okkar. Tæknin átti alltaf að auka lífsgæði okkar, létta undir með okkur við ákveðin verk, svo að við gætum einbeitt okkur að einhverju öðru en líkamlega erfiðum og einhæfum störfum. Vandinn skapast hins vegar ef þessi breyting fellur ójafnt á hópa. Sú þróun væri úr takti við það sem við viljum fá út úr tæknibreytingunum. Við verðum að leggja áherslu á aukin lífsgæði fólks og frítíma, styttri vinnuviku, jafnvægi vinnu og einkalífs - og gæta þess að það sem sparast skiptist réttlátlega milli fólks en fari ekki allt til örfárra aðila. Þetta er líka hagsmunamál fyrirtækjanna, að kaupmáttur haldist og að misskipting verði ekki of mikil með tilheyrandi félagslegum vandamálum og ókyrrð í samfélaginu. Við verðum að tryggja sanngjörn umskipti þar sem allir verða betur settir.

Stórkostlegur drifkraftur

Á þessum tímamótum er mikilvægt að hafa í huga að verðmætasköpun snýst um samvinnu. Það er fáránlegt að tala niður atvinnulífið, rétt eins og það er fáránlegt að tala niður hið opinbera. Þessir aðilar verða að vinna saman í nútímasamfélagi. Atvinnulífið er stórkostlegur drifkraftur í samfélaginu um leið og hið opinbera skapar því nauðsynlega umgjörð, m.a. með sanngjörnum leikreglum, alþjóðlegum viðskiptasamningum og menntun á hæfu starfsfólki. Að ógleymdu velferðarkerfinu sem grípur fólk þegar markaðsbrestur verður eða fólk missir fótanna af einhverjum ástæðum.

Áföll geta verið drifkraftur nauðsynlegra breytinga. Við höfum nú tækifæri til að hrinda af stað nauðsynlegum samfélagsbreytingum og auka ábata okkar vegna tæknibreytinga, en við þurfum um leið að tryggja að skipting arðsins sé sanngjörn. Það gerist ekki af sjálfu sér. Jafnvægi verður að ríkja þar eins og annars staðar í samfélaginu.

Styðjum lítil og meðalstór fyrirtæki

Stundum er eins og gleymist að íslenskt atvinnulíf samanstendur að miklu leyti af litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem meirihluti launafólks starfar. Gríðarlega mikilvægt er að bæta stöðu þeirra. Öflug flóra slíkra fyrirtækja er forsenda heilbrigðrar samkeppni á litlum markaði.

Og við þurfum að tryggja stuðning fólks um allt land við slíkar breytingar.

Um leið og við horfum björtum augum á tækifærin þurfum við að vera meðvituð um mikilvægi þess að tæknibreytingar og framþróun leiði af sér þá samfélagsmynd sem við viljum öll sjá: Hátt atvinnustig og aukna verðmætasköpun sem dreifist vel um samfélagið, sem verður til í grænu hagkerfi. Slíkt jafnvægi kemst ekki á strax án pólitískar forystu sem markar leiðina, þó atvinnulífið og hið opinbera verði sannarlega að vinna saman þegar kemur að mótvægisaðgerðum við hröðum samfélagslegum breytingum.

Fleiri störf

Við höfum áður gert þetta. Sterkt umönnunarkerfi hér á landi var forsenda þess að auka atvinnuþátttöku kvenna. Í samfélagi mikils kynjajöfnuðar eru það ekki síður karlmenn sem njóta góðs af öflugu velferðarkerfi sem styður við börn og eldri einstaklinga. Atvinnulífið nýtur einnig góðs af þessari stöðu. Þróuð lönd í kringum okkur, svo sem Bandaríkin og Japan, vinna nú hörðum höndum að því að auka atvinnuþátttöku kvenna til að styðja við tekjusköpun. Þetta er eitt dæmi um hversu verðmætt opinbera kerfið okkar er fyrir atvinnulífið.

Alþjóðleg samkeppnishæfni landsins er gríðarlega mikilvæg, sér í lagi í ljósi þess hve háð við erum innflutningi á erlendum vörum og þjónustu. Tækniþróun og auknir framleiðnihvatar gætu hleypt af stað áhugaverðri þróun á næstu árum og áratugum hér á landi. Samfylkingin mun styðja rækilega við bakið á atvinnulífinu í tengslum við það. Á sama tíma erum við meðvituð um mikilvægi jafnvægis í hagkerfinu og samfélaginu. Forsenda slíkrar þróunar er samfélagslegur stuðningur. Við þurfum góð störf fyrir alla. Aðeins þannig tryggjum við að við hlaupum hraðar saman, í takt og getum sem einstaklingar fótað okkur af öryggi í okkar daglega lífi.

Við gerum þetta saman.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.