*

föstudagur, 13. desember 2019
Týr
12. apríl 2019 18:03

Sögulegir samningar

Þessir samningar eru næstum eins og Salek hefði allt í einu risið upp úr gröf sinni eins og ekkert hefði í skorist.

Haraldur Guðjónsson

Samningar á vinnumarkaði gengu ekki vafningalaust fyrir sig í liðinni viku, en á lokametrunum stóð á einu og öðru, sem frestaði undirritun þeirra æ ofan í æ. Morgunblaðið sagði þannig á vef sínum framhaldsfréttir af fréttinni sem aldrei ætlaði að koma.

* * *

Þar var greint frá því í alvarlegum tón að aðilar vinnumarkaðarins myndu ekki yfirgefa húsnæði ríkissáttasemjara fyrr en kjarasamningar hefðu verið undirritaðir. Svona líkt og þeir hefðu verið læstir inni með vöfflustöflunum öllum, en landslýður fengi að vita hvernig til hefði tekist þegar hvítur vöfflureykur liðaðist um gufuháf ríkissátasemjara.

* * *

Moggi líkt og aðrir fjölmiðlar sagði raunar frá því, aftur og aftur, að tíðindin gætu tafist, en að þeir myndu nú aldeilis standa vaktina: „Fjölmiðlum var upphaflega tjáð að undirrita ætti samningana klukkan 15 og höfðu þeir beðið óþreyjufullir í Höfðaborg í á þriðju klukkustund þegar Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, kom fram og tjáði þeim að samningar yrðu ekki undirritaðir á allra næstu klukkustundum.“ Vonbrigðin láku af fréttinni langar leiðir, en þeir skyldu þó ekki örvænta, því fjölmiðlar yrðu örugglega látnir vita með a.m.k. hálfrar klukkustundar fyrirvara áður en samningar yrðu undirritaðir. „Að sögn Elísabetar er að mörgu að huga og segir hún það einu ástæðu tafanna.“

* * *

Það er nú gott að vita að það sé að mörgu að hyggja í samningum og að það sé eina ástæða tafanna. Ekki sú að samningamenn hafi tekið að fljúgast á, prentarinn hafi reynst pappírslaus eða ámóta neyðarástand skapast. En það var samt skrýtið í þessum fréttum öllum hvað fjölmiðlarnir sjálfir voru í miðpunkti þeirra, en ekki samningarnir sjálfir. Og ekki verður annað séð en að skrifstofustjórinn hafi verið á sama máli líka!

* * *

En þetta voru nú samt alveg ágætir samningar, þannig séð. Bara næstum eins og Salek hefði allt í einu risið upp úr gröf sinni eins og ekkert hefði í skorist. Sem hlýtur að hafa komið mörgum gleðilega á óvart í ljósi þeirra miklu byltingarsinna sem voru í fararbroddi verkalýðshreyfingarinnar. En er nema von þó menn spyrji til hvers allar þessar hreinsanir í verkó voru. Voru þetta ekki nákvæmlega sömu samningar og gamla settið hefði náð?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.