*

föstudagur, 19. júlí 2019
Andrés Magnússon
9. september 2016 14:40

Sökkað feitt

Ríkisútvarpið þarf að fara með sérstakri gát í aðdraganda kosninga, en fókusinn hjá stofnuninni er oft fyrirsjáanlegur.

Haraldur Guðjónsson

Heilmikil rekistefna varð vegna aulafyndni Arnars Páls Haukssonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins, um forsætisráðherra. Arnar Páll kallaði hann í tvígang „þennan feita“ í beinni útsendingu á netinu, þegar hann hélt að enginn heyrði nema stjórnarandstöðuleiðtogarnir. Þeir hlógu ekki, en Arnar Páll reyndi sjálfur að hlægja að eigin fyndni, sem var jafnvel vandræðalegra en uppnefnið.

Nú er auðvitað ekki einsdæmi að menn – jafnvel blaðamenn – tali um stjórnmálamenn af mismikilli virðingu eða alvöru. Oft er það græskulaust gaman, en stundum illkvitni. Eins og gengur. Engum fréttamanni dettur í hug að setja slíkt fram á opinberum vettvangi, en jafnvel svo að slíkt orðbragð sé aðeins viðhaft í tveggja manna tali, slökkt á hljóðnemum o.s.frv., þá er fréttamaðurinn bæði búinn að gefa sig upp sem meinhorn, að hann vilji eða þykist vera í þessu liðinu en ekki hinu. Það er ekki traustvekjandi og grefur undan trúverðugleikanum. Hann getur ekkert grætt á því, en viðmælendur kunna að notfæra sér það. Fyrir nú utan slysin þegar allt er óvart í beinni út á alnetið.

                                                         * * *

Arnar Páll var fljótur að biðjast fyrirgefningar á þessu glappaskoti sínu og forsætisráðherra erfir þetta ekki við hann. Á hinn bóginn voru ýmsir framsóknarmenn, sem töldu þetta sönnun fyrir því að Ríkisútvarpið hataðist á við Framsóknarflokkinn, það myndi ekki láta sér nægja að fella einn forsætisráðherra flokksins og kosningar á næsta leiti.

Fjölmiðlarýnir er ekki trúaður á að þetta axarskaft Arnars Páls sé til sérstaks marks um afstöðu stofnunarinnar gegn flokknum eða að þar sé eitthvert samsæri gegn framsóknarmönnum.

Þar með er ekki sagt, að innan fréttastofunnar finnist ekki fordómar gagnvart Framsóknarflokknum og Ríkisútvarpið þarf að fara með sérstakri gát í aðdraganda kosninga.

                                                         * * *

Annars var eitthvað ferlega súrt við að hlusta á hádegisfréttir RÚV á sunnudaginn, þar sem fyrsta frétt var sú að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyndist hann aldrei hafa fundið fyrir jafnmiklum stuðningi og nú, frá því að hann hóf þátttöku í stjórnmálum.

Það er hrein ráðgáta hvernig tilfinning einhvers stjórnmálamanns fyrir stuðningi lýðsins við sig getur þótt fréttnæm, hvað þá orðið fyrsta frétt í sjálfu Ríkisútvarpinu.

Það sem þó var gallsúrast við þetta var að uppistaðan í fréttinni, nei eini efniviður hennar og heimild, var löng upptaka af viðtali Kristjáns Kristjánssonar við SDG í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrr um morguninn, auk talsverðrar endursagnar úr sama viðtali (en þó beðið í lengstu lög með að tilgreina hvaðan stórmerkin kæmu).

Fréttastofa RÚV hafði engu við viðtal Kristjáns að bæta, nema að sagt var að Ásrún Brynja Ingvarsdóttir hefði tekið fréttina saman. Einmitt.

                                                         * * *

Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn er að taka á sig mynd, ýmsir frambjóðendur að gefa sig fram og svo framvegis, en tímasetningar hafa verið óaðfinnanlegar og slíkum fréttum hefur verið vel otað að fjölmiðlum eins og vera ber. Þar á meðal var frá því sagt að Hanna Katrín Friðriksson (vinkona fjölmiðlarýnis og fyrrverandi kollega af Mogga) gæfi kost á sér í forystusæti í Reykjavík.

Um það er allt gott að segja, en sumir miðlar vildu gera mikið úr því að hún væri „gengin til liðs við Viðreisn“, væntanlega minnugir þess að hún var aðstoðarmaður sjálfstæðismannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í heilbrigðisráðuneytinu. En þá gleyma þeir alveg að hún var meðal stofnenda Viðreisnar, hefur verið þar innsti koppur í búri undanfarin tvö ár og er í stjórnmálum á eigin forsendum.

                                                         * * *

Ríkisútvarpið sagði síðastliðinn fimmtudag (þriggja daga gamla!) frétt af deilum samkeppnisráðs Evrópusambandsins við írska ríkið vegna skattalegrar stöðu stórfyrirtækisins Apple þar í landi, en samkeppnisráðið ákvað að Apple skyldi að greiða €13 milljarða eftiráskatta til Íra.

Það er allt hið fróðlegasta mál frá ýmsum hliðum, en erlendis hafa menn annars vegar beint sjónum að valdmörkum Evrópusambandsins gagnvart aðildarríkjunum og hins vegar nauðsyn á endurskoðun á fyrirtækjasköttum í alþjóðlegu umhverfi.

Fókusinn hjá Ríkisútvarpinu var aðeins öðru vísi, en samt fullkomlega fyrirsjáanlegur. Þar á bænum er aldrei fjallað um skattamál öðru vísi en Indriði H. Þorláksson, fyrrv. aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, sé fenginn til þess að dósera um þau. Það er kengbogið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.