*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Óðinn
23. október 2011 09:00

Söluferli Byrs

Eftir að samningar náðust við skilanefndir gömlu bankanna verður að teljast mjög dýr lausn að vera með sérstaka stofnun til að halda utan um þrjú hlutabréf.

Umræðan um ráðningu á framkvæmdastjóra Bankasýslu ríkisins dregur athyglina frá því sem ætti auðvitað að vera aðalatriðið um þá stofnun en það er: til hvers er þessi stofnun til og hverju var Elín Jónsdóttir að mótmæla þegar hún sagði starfi sínu lausu?

***

Upphaflega stóð til að ríkið eignaðist stóru bankana þrjá sem það fjármagnaði eftir hrun og Bankasýslunni var ætlað að fara með hlut ríkisins í þeim. Eftir að samningar náðust við skilanefndir gömlu bankanna verður það að teljast mjög dýr lausn að vera með sérstaka stofnun til að halda utan um þrjú hlutabréf, 5% í Íslandsbanka, 13% í Arion og 80% í Landsbankanum, á sama tíma og það er verið að skera alls staðar annars staðar niður.

Húsnæði Byrs

***

Það stóð jafnframt til að Bankasýslan héldi utan um hluti ríkisins í öðrum smærri fjármálafyrirtækjum. Fjármálaráðuneytið hefur á hinn bóginn kosið að sniðganga Bankasýsluna í tilfelli SpKef og Byrs. En hvernig hefur Fjármálaráðuneytinu gengið að halda utan um þessi fjármálafyrirtæki? Skemmst er að minnast niðurstöðu Atla-nefndarinnar sem var svona: „Þingmannanefndin telur að ríkisstjórn hvers tíma þurfi að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti standa eigi að sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Þingmannanefndin telur að Alþingi beri að lögfesta rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og eftirlitshlutverk Alþingis sé þar tryggt.“

***

Samkeppniseftirlitið hefur nú skilað ákvörðun um yfirtöku Íslandsbanka á Byr. Þar kemur meðal annars fram: „Samkeppniseftirlitið telur að söluferli Byrs hafi verið ákveðnum annmörkum háð. Auglýsa hefði mátt ferlið betur, sérstaklega gagnvart mögulegum erlendum bjóðendum, tímafrestir voru knappir og skilmálum og skjalagerð að einhverju leyti ábótavant. Var gögnum jafnframt bætt í gagnaherbergi fram á síðustu stundu.“ Hver var nú aðkoma Alþingis að þessu og hver sá um eftirlit?

Jón Finnbogason sparisjóðsstjóri Byrs í þungum þönkum.

***

Það er ljóst að Byr uppfyllti aldrei skilyrði starfsleyfis og FME verður auðvitað að gera grein fyrir hvernig það gat átt sér stað. Samt leyfir fjármálaráðuneytið slitastjórn Byrs að stýra söluferli á bankanum. Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins kemur fram um söluferlið: „Gáfu fimm áhugasamir kaupendur sig fram, undirrituðu trúnaðaryfirlýsingu og fengu aðgang að gagnaherbergi. Af þeim skiluðu aðeins tveir inn skuldbindandi tilboði en aðrir tveir lýstu sig reiðubúna til frekari viðræðna um aðkomu að Byr að gefnum ákveðnum forsendum. Var það mat Byrs að tilboð annars þeirra væri háð fyrirvörum sem ómögulegt var að ganga að.“

***

Hvaða fyrirvarar voru þetta og hver gætti hagsmuna skattgreiðenda þegar þetta mat fór fram? Nú er það mjög hæpið að halda því fram að slitastjórn Byrs hafi nokkurn tíma átt nokkurt tilkall til hlutabréfa Byrs. Slitastjórnin fjármagnaði aldrei sjóðinn og uppfyllti aldrei skilyrði fyrir starfsleyfi hans. Slitastjórnin getur því aldrei talist hafa verið eigandi hlutabréfa í fjármálastofnun sem hafði starfsleyfi sem slík. Samt kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að slitastjórnin hafi selt hluti sína í Byr. Í málavaxtalýsingu segir: „Samruninn sem mál þetta fjallar um felst í því að Íslandsbanki kaupir nýja hluti í Byr hf. auk þess sem fjármálaráðuneytið og Byr sparisjóður skuldbinda sig til þess að selja Íslandsbanka alla hluti sem þeir eiga í Byr hf. Mun Íslandsbanki því eignast allt útgefið hlutafé í Byr með samrunanum.“ Því er aftur spurt; fyrir hvern var ómögulegt að ganga að fyrirvörum í öðru tilboði í Byr, skattgreiðendur eða slitastjórn Byrs? Og hvernig rækti Alþingi eftirlitshlutverk sitt?

***

Þessi sala slitastjórnar Byrs er líka áhugaverð í ljósi sex mánaða uppgjörs Byrs sem birt var í síðustu viku. Þar kemur fram að Byr uppfyllti hvorki kröfur Fjármálaeftirlitsins um eigið fé í upphafi tímabilsins né lok þess. Þar kemur jafnframt fram að Byr, banki sem uppfyllti ekki skilyrði starfsleyfis en naut 100% ábyrgðar ríkisins á innstæðum, tapaði 708 milljónum króna á stöðutöku í ríkisskuldabréfum! Í upphafi árs átti Byr, fjármagnað með innstæðum tryggðum af almenningi, 8,8 milljarða í ríkisskuldabréfum. Ef gengi bréfanna hefði hækkað, hefði ávinningurinn skilað sér í hærra söluverði fyrir slitastjórn Byrs, en ef t.d. ESA stoppar samrunann eða hann gengur ekki í gegn af öðrum orsökum og það reynir á ábyrgð ríkisins á innstæðum, þá lendir tapið af þessari spákaupmennsku á skattgreiðendum.

***

Einhvern tíma hefði þetta þótt saga til næsta bæjar og jafnvel stærri en ráðning Páls Magnússonar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is