*

sunnudagur, 16. júní 2019
Huginn og muninn
5. janúar 2019 10:02

Sólveig Anna, Edda og kjarabaráttan

Sólveig Anna og Edda Andrésdóttir vöktu athygli í Kryddsíldinni sem og orð fjármálaráðherra um kjarabaráttuna.

Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson.
Haraldur Guðjónsson

Það getur þó hallast víðar í fjölmiðlaumfjöllun en á Ríkisútvarpinu. Áhorfendur Kryddsíldarinnar voru þannig upplýstir um val fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar á manni ársins, en sá heiður hlotnaðist Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar fyrir „óvænta, einarða og hvassa verkalýðsbaráttu“, eins og það var orðað. Svo var bætt í og sagt að „ósveigjanleg kröfugerð, sem hún talar fyrir, [gæti] haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífskjör þorra landsmanna“. Sem sennilega er vægt til orða tekið.

Af þessu tilefni var Sólveig Anna tekin tali af fréttamanninum Eddu Andrésdóttur, þó spurningarnar hafi fráleitt verið óvæntar, einarðar eða hvassar. En fannst virkilega enginn annar til þess að taka viðtalið? Eiginmaður Eddu er Stefán Ólafsson, einn nánasti samstarfsmaður Sólveigar Önnu í verkalýðsfélaginu, en þar á kontórnum hafa verið miklar hreinsanir á öllum þeim, sem ekki syngja bakraddir með formanninum.

Önnur orð um kjarabaráttuna í Kryddsíldinni vöktu öllu meiri athygli, þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra benti á að einungis um 1% fullvinnandi fólks ynni á lágmarkslaunum.

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsrekandi á Akranesi, bar brigður á þetta og sagði tölur Hagstofunnar sýna allt aðra mynd, sumsé að yfir 50% verkafólks væri með laun undir 300.000 í dagvinnu í september 2018. Hér er ruglað saman eplum og appelsínum, því Villi vísaði þar til strípaðra dagvinnulauna verkafólks í yfirvinnulandinu mikla, en Bjarni sagði 1% allra launþega í landinu fá ekkert nema lágmarkslaunin. Raunar er það vel innan við 1% launþega sem fær 300 þúsund krónur eða minna í mánaðarlaun, en tæp 5% eru með 350 þúsund eða minna. Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 730 þúsund krónur á mánuði árið 2017 hjá fullvinnandi starfsmönnum, en miðgildið er 618 þúsund krónur á mánuði. Það hefur ekki lækkað síðan.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is