*

laugardagur, 4. desember 2021
Huginn og muninn
23. október 2021 08:55

Sólveig Anna var heima

Hópur starfsmanna úr SA fór til Napólí á dögunum en í ferðinni voru einnig þeir Þorvaldur Gylfa og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Halldór Benjamín Þorbergsson og samstarfsfólk hans hjá Samtökum atvinnulífsins gerði sér glaðan dag um síðustu helgi og skellti sér til Napólí með Icelandair. Það var mikil stemning í vélinni á leiðinni út eins og alltaf þegar Íslendingar leggja land undir fót.

Bekkurinn var þétt setinn.  Í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn sögðu hrafnarnir að Sólveig Anna Jónsdóttir, verkalýðsleiðtogi í Eflingu og Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands hefðu verið í þessari ferð. Ýjuðu þeir síðan að því að Sólveig Anna hefði líklega verið að kynna sér starfsemi Icelandair sem fjárfestingarkosts eftir þátttöku Gildis lífeyrissjóðs, eftirlaunasjóðs Eflingar-fólks, í hlutafjárútboðinu góða fyrir ári síðan. Þorvaldur fór vissulega í ferðina og hefur þurft að hafa sig allan við í mælingum á spillingavísitölunni í Napólí en Sólveig Anna var heima. Biðjast hrafnarnir velvirðingar á því að hafa dregið hana inn í þessa umræðu. Þeir hefðu mátt vita að hún stundaði ekki „eitthvað lúxus-líf í kapítalískum rannsóknar-tilgangi," eins og hún orðaði það sjálf á Facebook á fimmtudaginn.

Svona til þess að setja punktinn yfir i-ið þá var stjörnulögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson einnig í þessari ferð og spígsporaði um götur borgarinnar í Armani-heilgalla. Hrafnarnir ætla að þetta hafi verið snemmbúin afmælisferð hjá Villa sem varð 50 ára á dögunum, nú eða að hann hafi verið fenginn með til að skera úr um möguleg deilumál.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.