*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Týr
13. júní 2021 11:32

Sómakennd dómara

Í lögmannastétt sem öðrum er misjafn sauður, misvandur að meðölum og af sumum fer misjafnt orð eins og gengur og gerist.

Höskuldur Marselíusarson

Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, skrifaði grein á Vísi á dögunum, þar sem vikið var að Hæstarétti og forseta réttarins. Skúli Gunnar rakti í grein sinni málaferli, þar sem hann hefur átt í höggi við lögmanninn Svein Andra Sveinsson, sem hann vandaði ekki kveðjurnar og tíundaði bæði lögfræðileg bellibrögð og siðferðislega ámælisverða háttsemi hans.

Um hana hefur verið fjallað í fjölmiðlum og Týr ætlar ekki að rekja hana hér í smáatriðum.

***

Eftir sem áður hefur hann lögmannsréttindi og praktíserar sem slíkur. Á því geta menn haft sínar skoðanir og í lögmannastétt sem öðrum er misjafn sauður, misvandur að meðölum og af sumum fer misjafnt orð eins og gengur og gerist.

Lögin eru vissulega ekki eini mælikvarði lífsins. Þau eru lágmarksviðmið að viðlagðri refsingu. Ærlegt fólk hefur strangari viðmið um hið siðlega og boðlega í mannlegu samfélagi og sneiðir hjá hinum vafasamari. Svona öllu jafna.

***

Fæst af því er vel mælanlegt eða skilin skörp, en samt veitist flestum létt að greina þar á milli. Þess vegna var grein Skúla óþægileg lesning, einkum hvað varðaði náinn vinskap lögmannsins við Benedikt Bogason, forseta Hæstaréttar, sem vekur efasemdir um dómgreind dómarans.

Týr minnir á að menn velja sér vini í gegnum ævina, misvel auðvitað, en alltaf er það val. Í grein Skúla Gunnars er einnig rakinn vinskapur lögmannsins við Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómara, sem var dómarinn sem úthlutaði lögmanninum umræddu verkefni, og Símon Sigvaldason, nú landsréttardómara, sem varið hefur með kjafti og klóm úthlutun verðmætra þrotabúa til lögmannsins. Þessi hópur ekki farið leynt með vinskap sinn og hann er öllum kunnur sem vilja vita.

***

Það er svo skrýtið, að í hinum hárnákvæmu Excel-skjölum hinna fullkomlega óháðu dómnefnda dómara er hvergi lagt mat á þætti eins og dómgreind eða réttsýni, siðferði eða félagsskap, sem þó hlýtur að varða miklu við val á dómurum, sem verða að vera algerlega hafnir yfir allan vafa.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.