Það er vont þegar fyrirmyndir bregðast. Leiðtogarnir sjálfir voru ekki titilsins verðir og eftir sitja klappstýrur og stuðningsmenn með sárt ennið. Því sem tekur við verður svo helst lýst sem sorg, með allri þeirri ringulreið sem henni fylgir. Reiði, áfall, vanmáttur. Eflaust tilfinningar sem einhverjir kannast við þessa dagana.

Ef við lítum yfir farinn veg blasir þó við að við ættum því miður fyrir löngu að vera hætt að vera sjokkeruð . Þetta er varla í fyrsta sinn sem menn í efstu lögum stjórnmála, tónlistarsenu, íþróttaheimsins eða atvinnulífsins falla um eigin kynfæri og verða uppvísir að því sem í besta falli verður lýst sem forhert og ömurleg hegðun. Í raun er mynstrið svo augljóst að það er átakanlegt.

Hugtök á borð við „eitruð karlmennska“ hafa ef til vill hjálpað okkur að skilja stöðuna. Frá unga aldir hafa drengir fengið þau skilaboð að harka sé dyggð og kvenleg mýkt sé slæm. Bakgrunnstónlist sem síðan stökkbreytist í umhverfi þar sem hetjur samtímans eru upphafðar með þeim skilaboðum að þeirra sé heimurinn og framtíðin, framlag þeirra og hæfileikar svo miklir að allt annað hefur minna vægi. Nauðsynlegur fórnarkostnaður.

Undanfarin misseri hafa óþægileg mál verið neydd fram í dagsljósið og ein af öðrum hafa hetjur fallið með tilheyrandi vanlíðan. Það besta sem við getum nú vonast eftir er að óþægindin og sorgin séu ekki til einskis. Að mynstrið haldi ekki áfram að birtast í fleiri ömurlegum sögum sem endurspegla forherðingu og virðingarleysi manna sem fengu óvart þau skilaboð frá samfélaginu að þeir væru ósnertanlegir og ómissandi. Að þegar við lítum til baka verði þetta erfiða og flókna tímabil aðeins nauðsynlegur vaxtarverkur sem færði okkur endurbætt og heilbrigðara samfélag fyrir bæði syni okkar og dætur.

Pistlahöfundur er lögfræðingur og verkefnastjóri.