*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Óðinn
1. september 2021 07:04

Sósíalistaríkið Ísland

Óðinn telur víst að annaðhvort taki hrein vinstristjórn við völdum eða vinstristjórnin sem nú sitji við völd haldi velli.

Haraldur Jónasson

Alþingiskosningar  verða haldnar 25. september. Erfitt að er spá fyrir um hver verður sigurvegari kosninganna og hvers konar ríkisstjórn tekur við.

Í aðdraganda kosninganna fannst fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins vel til fundið að opna vef um umsvif hins opinbera, opinberumsvif.is.

Það er auðvitað mjög jákvætt og mikilvægt að framsetning talnaefnis um opinber fjármál sé sem best. Óðinn hefur margoft bent á að framsetning á fjárlögum og ríkisreikningi séu ófullnægjandi og er þessi nýi vefur því ágætur. Það er að segja framsetningin. Efni hans er hins vegar martröð hvers lifandi manns.

* * *

65% hækkun

Þar sést að skatttekjur hins opinbera, ríkisins og sveitarfélaganna, hafa aukist um tæp 25% frá árinu 2015 til ársins 2020. Skatttekjur sveitarfélaganna hafa hækkað um 65% og ríkisins um 19%.

Þrátt fyrir að skatttekjur sveitarfélaganna hafi aukist svo gríðarlega hafa skuldir A-hluta sveitarfélaganna líka stóraukist, úr 363 þús. kr. á mann að meðaltali í 480 þús. kr. Skuldir ríkisins hafa lækkað úr 2,9 m.kr. á mann árið 2015 í 2,4 m.kr. á mann árið 2020. Þar munar mest um stöðugleikaframlögin svokölluðu frá slitabúum föllnu viðskiptabankanna.

* * *

Hið opinbera á ekki við nokkurn tekjuvanda að stríða, heldur útgjaldavanda. Árið 2015 voru útgjöld á hvern mann 3,1 m.kr. en voru orðin 4 m.kr. árið 2020.

Það sem er hvað rosalegast við þær tölur sem eru birtar á vefnum er tekjuskattur einstaklinga. Árið 2014 var tekjuskattur 236 milljarðar króna en 327 milljarðar árið 2020. Tekjuskatturinn hefur því hækkað um 38,5% á föstu verðlagi.

* * *

Lækkun launa

Fjármálakreppan sem hófst 2008 kom illa niður á heiminum. Hún virðist þó hafa verið almennt skárri en sú kreppa sem Covid-19 olli, en sjáum hvað setur.

Viðbrögð margra ríkja Evrópu við fjármálakreppunni voru að lækka laun opinberra starfsmanna. Grikkir lækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 14% árið 2010 og önnur 17% næstu þrjú árin á eftir. Að auki var starfsfólki fækkað um 12,6% á árunum 2008-2016.

Á Írlandi voru laun ríkisstarfsmanna lækkuð um 7,5% árið 2009. Þeir sem voru launahærri voru lækkaðir enn frekar árið 2013. Að auki var vinnuvikan lengd, úr 35 tímum í allt að 39 tíma.

Í Portúgal voru laun ríkisstarfsmanna fryst árið 2008 og lækkuð um 5% árið 2011. Vinnutími var lengdur úr 35 stundum í 40 stundir. Að auki var stjórnendum fækkað um 13% á árunum 2008-2016.

Á Spáni voru laun ríkisstarfsmanna lækkuð um 5% í júní 2010 og fryst fram til ársins 2016 þegar launin hækkuðu um 1%. Stéttarfélög opinberra starfsmanna mátu það sem 15% raunlækkun launa á tímabilinu. Vinnuvikan var lengd úr 35 tímum í 37,5 tíma. Ríkisstarfsmönnum var fækkað um 216 þúsund.

Í Frakklandi hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 0,8% árið 2009 og 0,5% árið 2010. Laun voru fryst fram til júlí 2016, þegar launin hækkuðu um 0,6% og aftur jafn mikið ári síðar. Stjórnendum hjá ríkinu var fækkað um 250 þúsund árin 2008-2016.

Á Ítalíu voru laun ríkisstarfsmanna fryst og raunlækkun þeirra fram til 2016 var um 10%. Ríkisstarfsmönnum var fækkað um tæplega 220 þúsund til 2016.

* * *

Hækkun á Íslandi

Covid-19 olli dýpstu kreppu í heila öld á Íslandi. Halli ríkissjóðs nam 144 milljörðum króna í fyrra. Samdráttur í landsframleiðslu á Íslandi í fyrra nam 6,6% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Atvinnuleysi í júlí var 6,1%.

Ef einhvern tímann síðustu eitt hundrað árin hefði verið ástæða til að lækka laun opinberra starfsmanna á Íslandi þá er það einmitt við þessar aðstæður.

En í stað þess hafa laun hækkað um 14,5% hjá sveitarfélögunum, sem flest kvarta hástöfum yfir erfiðum rekstri, og 10,7% hjá ríkinu.

Fjallað er um málið í Hagsjá Landsbankans sem var birt fyrr í vikunni. Þar segir:

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá maí 2020 fram til sama tíma 2021 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,8% á þessum tíma og um 12,4% á þeim opinbera, 10,7% hjá ríkinu og 14,5% hjá sveitarfélögunum. Opinberi markaðurinn hefur þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu, þrátt fyrir að staða kjarasamningagerðar hafi jafnast.

Þetta er galin staðreynd.

* * *

Ríkisrekstur í stöðugum vanda

Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar, sem nú kallast bara BSRB, auglýsir að mikilvægi opinberra starfa hafi aldrei verið meira en nú.

Óðinn er þessu fullkomlega ósammála. Hins vegar eru þeir geirar sem ríkisstarfsmenn sinna afar mikilvægir. Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngur og löggæsla.

* * *

En hvar eru stærstu vandamálin í rekstri á Íslandi í dag? Jú, í þessum kerfum hins opinbera. Það er ekki starfsfólkinu að kenna heldur umgjörðinni og rekstrarformunum.

Engu skiptir hversu miklu er varið í heilbrigðismál, alltaf er ófremdarástand í málaflokknum. Grunnskólarnir á Íslandi eru hvað dýrastir í öllum heiminum. En stórt hlutfall nemenda lýkur margra ára skólagöngu án þess að kunna að lesa.

* * *

Nú hafa flugumferðarstjórar boðað verkfall. Það væri reiðarslag fyrir ferðaþjónustuna. Hvers vegna í ósköpunum þurfa flugumferðarstjórar að vera opinberir starfsmenn? Hvers vegna í ósköpunum er Isavia opinbert hlutafélag? Þetta er rekstur á flugvöllum. Flugvellir um allan heim eru reknir af einkafyrirtækjum. Vill almenningur virkilega að hér sé ófremdarástand í flugmálum á nokkurra ára fresti vegna þess að opinberir flugumferðarstjórar leggja niður störf?

Eitt er Óðinn viss um varðandi komandi alþingiskosningar. Annaðhvort tekur hrein vinstristjórn við völdum eða vinstristjórnin sem nú situr við völd heldur velli.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.