*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Óðinn
12. janúar 2022 11:31

Sósíalistarnir á Seltjarnarnesi

„Óðinn hélt að tími trúðanna hafi tekið enda með brotthvarfi Jóns Gnarr.“

Haraldur Guðjónsson

Sá einkennilegi atburður átti sér stað við afgreiðslu fjárhagsáætlunar á Seltjarnarnesi að einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem er með meirihluta í bæjarstjórn, ákvað að ganga til liðs við minnihlutann og samþykkja skattahækkun.

Með þessu liðhlaupi sveik Bjarni Torfi Álfþórsson kosningaloforð flokksins fyrir síðustu kosningar þar sem lofað var að lækka skatta, en ekki hækka þá.

* * *

Ekki verður betur séð en aðeins einn raunverulegur forystumaður sé í bæjarstjórn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Sá heitir Magnús Örn Guðmundsson og er formaður bæjarráðs og var annar maður á lista flokksins fyrir síðustu kosningar.

Magnús brást, eðlilega, ákaflega illa við þessum svikum Bjarna Torfa Álfþórssonar. Í samtali við mbl.is sagði Magnús:

„Við erum í fjórða sæti yfir meðalútsvar á íbúa í krónum talið í árbók sveitarfélaganna svo það eru vissulega mikil tækifæri í hagræðingu en við höfum að sjálfsögðu ekki verið að standa í neinu slíku í miðjum faraldri, þannig þetta er óskiljanlegt að öllu leyti."

„Þetta er bara brot á kosningaloforði og hnífstunga í bakið á okkur og ekki síst fráfarandi bæjarstjóra sem er leiðtogi okkar og oddviti. Þetta er sérstaklega súrt því hún er að fara hætta og vill gera það með ákveðinni reisn sem hún á skilið."

Minna heyrðist í bæjarstjóranum.

* * *

PR-maður með nógan tíma

Bæjarstjórnarfundinum var varla lokið þegar Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar, var búinn að hafa samband við Viðreisnarmálgagnið Fréttablaðið, sem í daglegu tali nefnist Flettiblaðið. Í samtali við blaðið sagði Karl Pétur:

„Þetta eykur hér á fjárhagslegt svigrúm bæjarins um 96 milljónir á komandi ári. Fjárhagurinn hefur verið í spennitreyju í mörg ár, mikið til vegna þess að það hefur ekki verið vilji til að auka skattheimtu."

Karli Pétri láist þarna að nefna að gert var ráð fyrir nokkurra milljóna afgangi af rekstri bæjarins í fjárhagsáætluninni og að fjárhagsstaðan væri góð.

Nú veit Óðinn ekki hvort einstök kunnátta Karl Péturs hafi ráðið því að Fréttablaðið fjallaði um málið, reyndar aðeins aðra hlið þess, eða áhugi Helga Magnússonar, eiganda blaðsins, á því að koma vinstrimönnum til valda á Seltjarnarnesi.

Alla vega virðist Karl Pétur hafa getað gefið sér tíma frá mikilvægum störfum sínum sem pr-maður hjá Framkvæmdasýslunni-Ríkiseignum. Það hljóta allir að sjá að nafnið er sannkölluð snilld með hliðsjón af markaðsfræðunum.

Sá Helgi hefur reyndar reynt það áður þegar hann studdi, nánast einn og óstuddur, Bjarna Torfa til þess að bjóða sig fram gegn sitjandi bæjarstjóra.

* * *

Nú gerði Viðreisn sér miklar vonir um glæstan árangur í alþingiskosningunum síðustu en glutraði honum niður þegar flokkurinn lofaði því að tengja krónu við evru - sem væri óðs manns æði. Á það benti seðlabankastjóri á fundi með endurskoðendum. Ætli þetta tengist eitthvað árásum Fréttablaðsins á seðlabankastjóra og uppslátt á fráleiddum ásökunum um ritstuld.

Helgi Magnússon ætlar sér núna, án nokkurs vafa, að blanda sér í sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Hugsanlega í þeirri von að 2 milljarða útumgluggann fjárfesting hans í Fréttablaðinu skili einhverjum árangri. Þá munu allir góðir menn taka til varna.

* * *

Skuldavitleysa

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrir jól fór Magnús Örn yfir skuldastöðu Seltjarnarness og bar hana saman við skuldastöðu Reykjavíkurborgar.

„Hjá Seltjarnarnesbæ var skuldaviðmiðið 65% í lok síðasta árs og stefnir í liðlega 80% í lok þessa árs. Hérna er tekið tillit til skuldbindingar ríkisins gagnvart bænum en þó ekki borgarinnar, en þá væri skuldaviðmiðið 68% en ekki 80%. Lögbundið hámark er 150%. Til samanburðar má nefna að skuldaviðmið Reykjavíkurborgar stefnir í að vera hærra en 150% á næsta ári og ætti það að vera mikið áhyggjuefni fyrir Reykvíkinga."

Greinin var meðal annars skrifuð í kjölfar orða sem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, lét falla í Silfri Egils stuttu áður.

„Í umræðuþætti Ríkissjónvarpsins á dögunum, Silfrinu, sá Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs ástæðu til að nota skuldahlutfall Seltjarnarness, sem segir lítið um fjárhagsstöðu bæjarfélagsins, til að láta borgina (reyndar bara A-hluta hennar) koma betur út í einhverjum samanburði við bæjarfélagið. Hvernig stendur á því? Ég legg til að Þórdís rifji upp skuldbindingu borgarinnar við bæinn, sem er um fimmtungur af langtímalánum bæjarins. Öll hljótum við að fyrirgefa formanni borgarráðs yfirsjónina - slíkt er umfang skulda og skuldbindinga borgarinnar."

* * *

Lítið traust

Óðinn hefur alltaf svolítið gaman af stjórnmálafólki sem þykist tala í nafni fjöldans en þegar nánar er að gáð kemur í ljós að þeir hinir sömu hafa enga hylli notið í lýðræðislegum kosningum eða prófkjörum á vegum þeirra flokka.

Það á við um vinstrisinnuðu vinina, Bjarna Torfa og Karl Pétur.

Árið 2006 bauð Bjarni Torfi sig fram í fyrsta sæti í prófkjöri á móti sitjandi bæjarstjóra. Í viðtali við Fréttablaðið sagði Bjarni eftirfarandi:

„Ég fer fram vegna þess að ég hef mikinn metnað og svo hef ég líka fengið mikinn þrýsting frá mörgum Seltirningum því menn hafa ekki verið ánægðir með allt. Við þurfum að auka fylgi flokksins og ég tel að ég sé rétti maðurinn til þess."

Niðurstaðan var sú að Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri fékk 69% atkvæða í 1. sætið. Bjarni Torfi Álfþórsson beið afhroð í prófkjörinu, endaði í 8. sæti og niðurstaðan var sú að hann fékk ekki sæti á listanum.

En þá er ekki öll sagan sögð. Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi vann sinn stærsta kosningasigur frá upphafi. Hlaut flokkurinn 65,19% atkvæða og jók flokkurinn fylgi sitt um rúm 6%. Næststærsti sigurinn var árið 1990 þegar flokkurinn hlaut 63,35% atkvæða.

Karl Pétur Jónsson bauð sig fram í þriðja sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fór fram í nóvember 2013. Endaði Karl Pétur í 6. sæti með aðeins 364 atkvæði og var nálægt því að falla enn neðar.

* * *

Trúðslæti Gnarr og fleiri

Þriðji vinstrimaðurinn sem fer mikinn í fjölmiðlum um fjárhag Seltjarnarness er Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi.

Sá hefur miklar áhyggjur á skuldastöðunni hjá Seltjarnarnesbæ. Í aðsendri grein frá honum í júní í Morgunblaðinu kom ýmislegt merkilegt fram.

„Kosningabarátta og frammistaða Jóns Gnarr sem borgarstjóra Reykjavíkur er eflaust sá listgjörningur sem hefur haft hvað mest áhrif á stjórnmálasögu Íslands frá upphafi. Með húmorinn að vopni náði hann að afvopna jakkafataklædda stjórnmálamanninn sem telur sig vita allt best og sýna fram á að stjórnmál þurfi ekki að snúast um frekju og völd heldur frekar vilja til þess að gera vel og þjóna íbúum landsins án þess að þurfa að taka sig of alvarlega.

Hér á Seltjarnarnesi hefur boðskapurinn ekki alveg náð inn í bæjarstjórnina þar sem jakkafataklæddur sjóðsstjóri situr bæði sem forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs og telur sig ekki þurfa að hlusta á vilja íbúa eða starfsfólks bæjarins. Hann æsir sig við fulltrúa minnihlutans sem setja spurningarmerki við þjónustuskerðingar og hallarekstur sveitarfélagsins og talar um draum vinstrimanna um háa skatta þegar honum er bent á að auka þurfi tekjur ef halda á uppi því þjónustustigi sem hann sjálfur lofar."

Það sýnir ágætlega hversu lélegt fólk velst í forystu í sveitarstjórnum þegar klæðaburður manna telst skipta máli. Er það virkilega ekki svo að störf þeirra, menntun, reynsla og geta skipti ekki meiru?

* * *

Guðmundur Ari gerir kosningasigur Jóns Gnarr að umtalsefni. Það er rétt. Besti flokkurinn náði sérstaklega góðum sigri í sveitarstjórnarkosningunum 2010 sem fóru fram rúmum mánuði eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis kom út.

Hver var hækja Jóns Gnarr eftir grínveisluna? Jú, Samfylkingin. Það merkilega er að Samfylking Dags B. Eggertssonar tapaði meira fylgi í sveitarstjórnarkosningunum 2010 en Sjálfstæðisflokkurinn. Flokkur Dags, og Guðmundar Ara, tapaði 30% af fylgi sínu en Sjálfstæðisflokkurinn 21%. Þrátt fyrir að Samfylkingin hafi verið á harðahlaupum alla tíð undan ábyrgð sinni í aðdraganda og kjölfar hrunsins.

Það er hins vegar rétt hjá Guðmundi Ara að það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af skuldastöðunni á Seltjarnarnesi. Ekki hjá Seltjarnarnesbæ heldur hjá Reykjavíkurborg. Flokksbræður Guðmundar Ara hafa aukið skuldir borgarinnar linnulaust, ásamt meðreiðarsveinum úr Viðreisn, Vinstri grænum og Pírötum allt þetta kjörtímabil. Reyndar hefur Samfylkingin og forverinn R-listinn safnað skuldum allt frá 1994 þegar Reykjavíkurborg var nánast skuldlaus.

* * *

Nú er Guðmundur Ari eflaust farinn að klóra sér í kollinum. En jú. Það vill þannig til að stærstur hluti Reykjavíkurborgar er á nesi sem nefnist Seltjarnarnes. Yst á nesinu er Seltjarnarnesbær.

Þeim ágæta bæ vilja Seltirningar án nokkurs vafa að verði áfram stjórnað með ábyrgum hætti, vilja ekki óráðsíuna sem einkennt hefur Reykjavíkurborg alltof lengi og þeir munu aldrei kjósa sósíalista til valda, sama í hvaða flokki þeir eru.

Guðmundur Ari birtist í Ríkisútvarpinu, öllum að óvörum, og sagði að áramótaheit sitt væri að vera duglegur að mæta í ræktina og svo ætli hann að verða bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Óðinn hélt að tími trúðanna hafi tekið enda með brotthvarfi Jóns Gnarr.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.