*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Huginn og muninn
8. janúar 2021 18:02

Sóttvarnarboðorðin tíu

Hröfnunum hefur greinilega yfirsést kafli biblíunnar þar sem skaparinn afhendir Mósé sóttvarnarboðorðin tíu.

Dómkirkja Krists Konungs, betur þekkt sem Landakotskirkja.

Á flugi yfir borgina áttu hrafnarnir viðkomu í Landakotskirkju síðastliðinn sunnudag til að hlýða á orðið helga. Þeir urðu hins vegar frá að hverfa í snatri þegar þeir sáu að á annað hundrað manns voru þar saman komnir, þvert á sóttvarnalög, þar sem þeir búa ekki yfir valkvæðu skynbragði ónefnds ráðherra á aðstæður.

Í ljós kom þó síðar að ekki var tilefni til slíkra viðbragða. Jakob Rolland, kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, útskýrði í samtali við Ríkisútvarpið að þótt vissulega bæri að fylgja sóttvarnareglum, væru það lög guðs sem giltu öðrum fremur.

Þessu til stuðnings benti hann svo á að engin smit hefðu verið rakin til messuhalds, og því greinilegt að engin hætta var á ferðum. Þótt hrafnarnir hafi lesið hina góðu bók spjaldanna á milli hefur þeim greinilega yfirsést kaflinn þar sem skaparinn afhendir Móse sóttvarnarboðorðin tíu. Þá er lítið annað að gera en að mæta í næstu messu og láta fræða sig.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.