*

föstudagur, 18. september 2020
Týr
9. ágúst 2020 12:01

Sóttvarnir og samfélagssátt

Varla er má búast við einhug um hve langt eigi að ganga í sóttvarnaraðgerðum enda hagsmunirnir ekki alltaf þeir sömu.

Nýja bylgja faraldursins kom aftan að almenningi. Nú er hafin leit að sökudólgum sem ekki var í síðustu bylgju. Minni áhugi er á að taka þátt í ströngum sóttvarnaaðgerðum en þá. Flest vonuðumst við að aðgerðirnar í vor myndu duga til að losna við veiruna úr samfélaginu.

***

Ágætt er að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kalli eftir að ná þurfi breiðari samstöðu um hvernig taka eigi á þessari nýju bylgju í samfélaginu. Þórólfur þvertók fyrir það fyrr í sumar að hann væri einhvers konar míní hagfræðingur við mótun sóttvarnaaðgerða. Þríeykið hefur um leið sagt að reynt sé að valda sem minnstu tjóni með sóttvarnaaðgerðum. Í því hlýtur að felast mat á tjóninu sem aðgerðir valda — hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Því væri til bóta væri það mat skýrara. Aðrir geta betur sagt til um hvar sársaukamörkin á öðrum sviðum liggja. Því er gott ef kalla á fleiri að borðinu.

***

Hvað telst ásættanlegur kostnaður? Varla er hægt að ætlast til þess að veirunni verði útrýmt algjörlega á meðan hún geisar erlendis. Fyrstu tölur benda til þess að sænskt efnahagslíf hafi dregist eitthvað minna saman en í öðrum Evrópuríkjum en um leið er dánartíðnin vegna veirunnar hærri þar en víða annars staðar. 

Ýmiss konar annarri heilsu hrakar í faraldrinum — aðskilnaður við ástvini á elliheimilum var mörgum þungbær sem og félagsleg einangrun. Erlendir fjölmiðlar segja frá því að innilokunin á heimilum vegna faraldursins sé við það að senda jafnvel traustustu hjónabönd á bjargbrúnina. Kjörnir fulltrúar hljóta að lokum að þurfa að taka ákvörðun um hvaða hagsmunir vegi þyngst hverju sinni.

  *** 

Varla er að búast við því að einhugur verði um hve langt eigi að ganga enda hagsmunir fólks ekki alltaf þeir sömu. Og algjör einhugur er varla eftirsóknarverður í lýðræðissamfélagi. Eðlilegt er að tekist sé á um mál sem skipta alla íbúa svo miklu máli.

Týr er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.