*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Pétur Arason
18. september 2019 09:25

The Soul Sucking CEO

Það þekkja sennilega allir WD40 spreyið en færri sem vita að WD40 er frægt fyrir að nota nýstárlegar stjórnunaraðferðir.

Haraldur Guðjónsson

Garry Ridge forstjóri WD40 er á leiðinni til Íslands á tala á ráðstefnunni Bylting í stjórnun! 2019 sem haldin verður 26. September í samstarfi Manino og Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur sérstakar skoðanir á stjórnun og ferðast um allan heima að segja sögu sína og WD40 en hann hefur verið forstjóri þess frá 1997.

Það þekkja sennilega allir WD40 spreyið en kannski ekki margir sem þekkja fyrirtækið. WD40 er 66 ára gamalt fyrirtæki sem hefur verið skráð á NASDAQ síðan 1973 og velti yfir 47 milljörðum 2017. Í dag starfa um 500 starfsmenn í fyrirtækinu eða ættbálknum (e. tribe) eins og þau segja sjálf.

WD40 spreyið er notað af fólki við alls konar aðstæður allt frá því að ná snákum undan rútúbifreiðum í Asíu og til þess að ná óheppnum innbrotsþjófum úr loftræstistokkum í Bandaríkjunum. WD40 er bara ein af mörgum vörum fyrirtækisins en í könnun sem gerð var 1993 kom í ljós að WD40 var til á fjórum af hverjum fimm heimilum í Bandaríkjunum!

Það sem enn færri vita er að WD40 er frægt fyrir að nota nýstárlegar stjórnunaraðferðir og þar fer fremstur í flokki Garry Ridge sem er í alla staði óhefðbundinn forstjóri. Honum er það hugleikið að kannanir Gallup sýni að 51% af vinnuafli Bandaríkjanna er að leita sér að annarri vinnu sem þýðir að Costco og Amazon Prime hafa hærri hollustuhlutfall á áskriftum viðskiptavina sinna en vinnustaðir í hinum vestræna heimi á starfsfólki sínu.

Og tölurnar sýna fleira, það er talið að kostnaður vegna starfsmanna sem hafa ekki helgun í starfi sé á bilinu 960-1.200 milljarðar dollara (margfaldið það með 125!). Starfsmenn tala um að þeir vilji fá handleiðslu ekki skipanir. Þeir vilja skýrar væntingar, traust, tilgang, stöðuga endurgjöf og tækifæri til að þróast. Einungis 50% starfsmanna segist vita til hvers er ætlast af þeim og einungis 44% starfsmanna sjá tengingu milli þess sem þeir gera dags daglega og meginmarkmiða fyrirtækisins.

Af hverju að nota hugtakið soul sucking? Einfaldlega út af því að það er þannig sem þetta birtist, sérstaklega þar sem fyrirtæki gefa sig út fyrir að hugsa fyrst og fremst um starfsfólkið sitt en hafa yfirstjórnendur sem láta sig þau mál litlu varða, eru jafnvel fjandsamir eða skilja hreinlega ekki þarfir starfsfólksins. Þetta eru ekki bara slæmir stjórnunarhættir heldur einnig brot á þeim loforðum sem sett eru fram og starfsfólk er skilið eftir innantómt og máttvana.

Garry setti fram það sem hann kallar helstu einkenni forstjóra og yfirmanna sem sjúga vitsmuni og orku úr fyrirtækjunum sem þeir stýra þ.e. „The Soul Sucking CEO“. Þessar pælingar snúast ekki um að þessir forstjórar nái ekki árangri, því dæmin sanna að það gera þeir. En spurningin er á kostnað hvers og gætu fyrirtæki náð enn betri árangri með nútímalegri stjórnunarháttum?

Skoðum gátlista Garry fyrir helstu einkenni „The Soul Sucking CEO‘s“:

1. Halda fólki fyrir utan mikilvægar umræður og ákvarðanir. Engin getur þetta betur þannig að við tökum einhliða ákvarðanir um stefnu, markaðsvæðingu og nýjar vörur. Þegar halda á upp á sigra er það gert í lokaðri klíku en þegar ósigrarnir koma fá almennir starfsmenn að gjalda þess.

2. Umkringja sig með þjónum sem snúast í kringum þá. Það er ekki auðvelt að komast í forstjórastólinn og það tók sinn tíma. Það þurfti að kyssa nokkra rassa á leiðinni upp og nú er komið að þeim að kyssa minn. Þetta er að sjálfsögðu bara sanngjarnt.

3. Hætta að læra (og þeir þola ekki kennslu). Kennsla er fyrir aumingja. Maður kemst ekki á toppinn af því að maður er heimskur, ekki satt? Maður kemst hingað af því að maður er gáfaður. Þannig að hverju væri svo sem hægt að bæta við til að ég gæti náð betri árangri?

Hvaða vitleysa er það að maður eigi að vera mentor? Ef fólkið getur ekki sinnt sínum störfum, þá þarf að reka einhvern í mannauðsdeildinni. Þeir sem vilja læra eitthvað nýtt geta gert það á sínum eigin tíma og þangað til höfum við enga þolinmæði fyrir mistökum.

4. Hafa ekki áhyggjur af því hvernig aðir hugsa eða hvernig öðrum líður. Þeir ákveða hvernig stemmingin er, alls staðar. Það er ekki á þeirra ábyrgð að skilja líðan fólks, þau þurfa að skilja hvernig þeim líður.

5. Læra aldrei af reynslunni. Af hverju ættu þeir að gera það? Þeir eru komnir á toppinn þannig að allt er fullkomið. Ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það klárlega einhverjum öðrum að kenna. Finnum þann seka, skellum á hann skuldinni og minnum hann síðan á það – alltaf.

6. Ætlast til að starfsfólk taki tillit til þeirra tilfinninga, viðkvæmni, hörundssærni, egói, viðmiða, sjálfselsku o.s.frv. Hafa alltaf rétt fyrir sér. Og þegar þeir hafa rangt fyrir sér verður fólk að haga sér rétt og vera meðvirkt. Ekki koma þeim úr jafnvægi.

7. Þola ekki andmæli eða aðrar hugmyndir en þeirra sjálfra. Sjá að ofan.

8. Ofstjórna fólkinu sínu jafnvel þótt að það tefji fyrir á mikilvægum augnablikum. Hlutirnir verða að vera fullkomnir og það er ekki hægt að treysta neinum þannig að best að ákveða allt sjálfur. Af því að ofstjórnunin er svo mikilvæg fyrir þeim taka þeir glaðir við öllu lofi þegar vel gengur. Þegar hlutirnir keyra út af er það ekki þeirra sök.

9. Halda ekki loforð. Það er engin ástæða til þess. Ef starfsólkið er stöðugt óánægt þá er það ekki þeim að kenna. Þeir er þegar farnir að lofa næsta innihaldslausa loforðinu.

10. Stjórna fólki með ótta. Þeir vita að hræðsla er góður hvati. Fólkið er hrætt við að missa af sölumarkmiðum, missa vinnuna, missa markaðshlutdeild, missa húsið sitt, missa heilsuna, missa fjölskylduna o.s.frv. Eru meistarar í að nota þessa orku til að hafa stjórn á hlutunum.

Þetta er mögulega eilítið ýkt en samt kannast nú sennilega flestir við þessi einkenni. The Soul Sucking CEO gæti útlagst sem vitsugur á íslensku en það er heitið á Harry Potter fyrirbærinu Dementor sem lifa á því að sjúga hamingjuna úr fólki og skilja það eftir í örvæntingu og þunglyndi. Kannski svolítið dramatískt en með vöntun á betra orði væri alveg hægt að nota það

Garry lýsir einnig helstu einkennum fyrirtækja sem vinna ekki með nútíma stjórnunaraðferðir og hér er stiklað á stóru.

Fyrirtækið hefur ekki sannfærandi tilgang

Það að hafa skýran tilgang sem talar bæði til huga og hjörtu starfsmanna er forsenda þess að skapa menningu þar sem fólk og veit að það tilheyrir hópi fólks sem hefur ástríðu fyrir því að þjóna tilgangi sem er stærri en þau sjálf. Til að ná árangri til lengri tíma litið er ekki bara nóg að skapa fjárhagslega góðum niðurstöðum við þurfum líka að gagnast því samfélagi sem við störfum í. Án skýrs tilgangs er ómögulegt að ná fram þeirri heildar orku sem býr í hvaða fyrirtæki eða stofnun sem er. Þegar starfsmenn WD40 mæta til vinnu spyrja þau sig „Hvað ætla ég að gera í dag?“ og svarið er „Ég ætla að skapa eitthvað jákvætt fyrir einhvern“. „Ég ætla að leysa vandamál“. „Ég ætla að fá hlutina til að verða betri“. „Ég ætla að skapa tækifæri“. „Ég ætla að búa til jákvæða viðvarandi upplifun fyrir einhvern“. Þetta er allt annað en að segja „Ég ætla fara í vinnuna og selja einn spreybrúsa“, er það ekki?

Fyrirtækið þitt hefur engin virk gildi

Án jákvæðra gilda munu starfsmennirnir þínir þurfa ofstjórnun (e. micro management) og stöðuga leiðréttingu á hvert þau eru að fara. Þau munu meira og minna upplifa að þau hafi rangt fyrir sér frá því að þau vakna á morgnana þangað til að þau koma heim á kvöldin. Án gilda er ekkert traust til þess að fólk taki ákvarðanir sjálft. Gildi skapa frelsi þar sem tilgangsdrifið fólk getur nýtt hæfileika sína á sjálfstæðan hátt. Sterk gildi gefur fólki einnig færi á að taka ákvarðanir án þess að fá til þess leyfi frá næstu stjórnendum fyrir ofan sig. Sterk menning með virk gildi leggja grunninn að nýsköpun og markaðssókn þar sem starfsfólkið þitt er ekki að hafa áhyggjur af því að þau gætu gert einhver mistök. Virk gildi koma líka í veg fyrir að röng heðgun sé verðlaunuð. Hjá WD40 skipta gildi meira máli en fjárhagsleg útkoma þegar frammistaða er skoðuð. Það versta sem getur gerst er þegar fjáhagslegur ávinningur trompar allt.

Fyrirtækið leggur meiri áherslu á egó en samkennd

Stjórnendur gefa sér ekki tíma til að skilja þarfir fólksins þannig að þau séu innblásin og áhugasöm. Þeir vita ekki hvernig þau fá lífsfyllingu af því að allt snýst um stjórnendurnar. Fólk með stórt egó vilja alltaf eiga fyrsta og síðasta orðið. Þau vilja segja frá en ekki spyrja spurninga. Þau vilja eiga allar hugmyndir, sérstaklega ef hægt að er hampa þeim fyrir þær.

Fyrirtækið hugsar til skamms tíma og er viðbragðadrifið

Skammsýni ársfjórðungsuppgjöra er ekki mælistika á langtíma árangur í neinu fyrirtæki. Að vera sífellt drifinn af skammtímaárangri mun sjúga orkuna úr skipulagsheildinni. Að búa til sterka, skilvirka og jákvæða menningu er langtíma vegferð. Það snýst ekki um að tína vínber (e. low hanging fruit) heldur að gróðursetja og yrkja fallegt tré til langs tíma. Skammtíma hugsun mun ræna fólkið þitt því tækifæri að skipuleggja til framtíðar, bæði fyrir fyrirtækið og fjölskylduna.

Fyrritækið fóstrar óttastjórnun

Ótti er sú tilfinning okkar sem dregur mest úr okkur. Þegar fólk er hrætt við að prófa nýja hluti, gera breytingar eða stöku mistök mun það lama sköpun og frelsi. Hjá WD40 höfum við hefð sem við köllum „The Learning Moment“. Þetta er jákvæð eða neikvæð útkoma úr einhverju sem við erum að fást við dags daglega sem við einsetjum okkur að miðla til allra. Helsta ábyrgð stjórnenda er að vera bæði nemi og kennari og miðla þeim gildum til allra í starfseminni. Ef þið takið óttann í burtu þá skapast tækifæri til þess að læra og vaxa.

Fyrirtækið safnar og heldur að sér upplýsingum

Þekking og upplýsingar eru máttur, það þekkjum við öll. Þú getur nýtt þér þennan mátt með því að deila honum með fólkinu þínu eða halda honum fyrir þig sjálfan. Starfsfólk sem grunar að yfirstjórnendur haldi frá þeim upplýsingum upplifa að þau missa hægt og rólega hollustuna, kraftinn og trúnna á velgengni fyrirtækisins. Stjórnandi sem byggir fólk upp leitast sífellt við að hjálpa fólki að vera besta útgáfan af þeim sjálfum alla daga. Það krefst þess að upplýsingum sé deilt þannig að þau geti á hverjum degi náð hámarks árangri.

Í lokin er ágætt að hafa hugfast að 51% af samstarfsfólkinu þínu sem þú mætir á göngunum er að leita að annarri vinnu. Hjá WD40 mælist helgun í starfi 93%.

Höfundur er eigandi Manino og stofnandi Icelandic Lean Institute.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.