Margir myndu lýsa 2018 sem óvissuári og vilja meina að annað eins ár gangi nú í garð. Í núverandi andrúmslofti virðist þó gleymast að árið hefur komið ánægjulega á óvart hvað efnahagsmálin varðar. Hagvaxtarspár flestra greiningaraðila voru um 3% í upphafi árs, en hafa smám saman færst um og yfir 4%. Viðskiptaafgangurinn virðist nú verða tvöfalt meiri en upphaflega var búist við, og spáð var samdrætti í fjölda ferðamanna í sumar sem aldrei varð úr. Hröð veiking krónunnar kom á óvart þrátt fyrir veikingarspár, en þó að verðbólga hafi hækkað er hún enn undir vikmörkum Seðlabankans. Spár bregðast nefnilega oftar en ekki, í báðar áttir. Það þýðir þó ekki að þær séu gagnslausar.

Sumum þykir ég of bjartsýn eða ekki nógu afdráttarlaus þegar spurt er út í 2019. Mitt mat hefur verið að nú hægi hóflega á og ég sjái ekki ástæðu til að vara við mjög erfiðu ári. Þetta er ekki í takt við umræðuna. Það er auðveldara að landa fyrirsögn í fjölmiðlum ef spár eru afdráttarlausar og jafnvel ögrandi. Þó er margt sem bendir til þess að slíkar spár séu sjaldnast réttar. Philip Tetlock, prófessor við háskólann í Pennsylvaníu, framkvæmdi umfangsmikla rannsókn á spám stjórnmálaspekúlanta sem birtist árið 2005. Þar kom fram að einfaldar og stóryrtar yfirlýsingar um komandi tíð væru oftast þær spár sem misstu hvað mest marks.

Það er ekki veikleikamerki þegar sérfræðingar koma hreint fram og segjast óöruggir um spár sínar. Þvert á móti bendir það til aukinnar sjálfsmeðvitundar, að viðkomandi byggi spá sína á raunhæfri túlkun á gögnunum. Það reynir enn meira á slíka túlkun þegar dramatískir atburðir ganga yfir, enda eiga nýskeðir atburðir til að hreyfa meira við okkur en hæg og undirliggjandi þróun. Bandaríski sálfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Daniel Kahneman, benti í þessu samhengi á áhrif mikils fréttaflutnings á mat fólks á líkindum atburða.

Er það hlutverk spáaðila að horfa í gegnum hávaðann – hver yrði hagvöxtur ef stórt flugfélag færi ekki á hausinn og allt á versta veg í alþjóðastjórnmálum? Þaðan má flétta áhættu ofan á, en einhvers staðar í óreiðunni þarf grunnurinn að vera. Við skautum framhjá nútíðartölum um velgengni í efnahagsmálum því við bíðum eftir því að hagkerfið snúi sér. En góð samsetning hagvaxtar, öflugur viðskiptaafgangur og lág skuldastaða þjóðarbúsins – mælikvarðar sem komu á óvart á þessu ári – skipta sköpum fyrir næsta ár.

Árið 2011 hófu þrír sálfræðingar, þar á meðal fyrrnefndur Tetlock, verkefnið „The Good Judgment Project“ sem lagði, og leggur enn, mat á getu spáaðila með því að halda svokölluð „spámót“. Samkvæmt Tetlock tekst litlum hópi fólks að spá betur fyrir en aðrir. Aðilarnir eru ekki endilega sérfræðingar á þeim sviðum sem spárnar snúa að, en þeir nálgast viðfangsefnið á virkan hátt og með opinn hug, í sífelldri leit að andstæðum vísbendingum og uppfæra kenningar sínar reglulega út frá nýjum upplýsingum. Slíkir eiginleikar virðast styðja við góðar spár.

Í nýbirtri rannsókn sömu aðila er leitast við að svara spurningunni hvort beinlínis sé hægt að hlúa að slíkum eiginleikum með því að stunda betri og skipulegri spágerð – hvort orsakasamhengið gangi líka í hina áttina. Einstaklingur sem leggur upp úr því að skora hátt í „spámóti“ áttar sig fljótt á því hvar götin í röksemdarfærslum liggja. Sálfræðingarnir Leonid Rozenblit og Frank Keil tala í þessu samhengi um „tálsýnd útskýringardýptar“ (the illusion of explanatory depth). Ef þú biður fólk um að útskýra hvernig bíll gengur raunverulega fyrir sig viðurkenna flestir að þekking þeirra er yfirborðskennd. Sömu sögu mætti segja ef spurt væri út í ástæðu Brexit niðurstöðunnar – slíkar aðstæður kalla fram auðmýkt, og hóflegri skoðanir fylgja oft eftir umhugsun. Eru það niðurstöður Tetlock-teymisins að með því að hvetja fólk til að hugsa á gagnrýninn hátt um kenningar sínar mýkjast (pólitískar) skoðanir þeirra og tilhneiging til að afneita með öllu málflutningi skoðanaandstæðinga. Spágerð virðist þannig hafa gildi í sjálfu sér, þó spár séu sjaldnast nákvæmar. Þær knýja okkur til að hugsa um heiminn eins og hann raunverulega er; flókinn og sjaldnast á einfaldri upp- eða niðurleið.

Risastór áföll eins og kreppan 2008 eiga sér ekki stað á nokkurra ára fresti, þrátt fyrir að efnahagssveiflur séu órjúfanlegur hluti markaðshagkerfa. Eftir slíkan atburð er þó ekki í tísku að vera bjartsýnn hagfræðingur. Efasemdamönnum er réttilega hampað, en æ oftar virðist þeim samsvarað með svartsýnismönnum. Skeptískir einstaklingar eru þó þeir sem synda á móti straumnum og spyrja sig hvort meðtekinn sannleikur fjöldans geti verið rangur, og geta því allt eins verið bjartsýnir á svartsýnistímum. Árið 2011 hefði slíkur einstaklingur séð tækifærin sem framtíðin bar í skauti sér, full af ferðaþjónustuvexti sem fæstir sáu fyrir. Við megum nefnilega ekki gleyma því að óvæntir atburðir geta líka komið okkur á óvart á jákvæða vegu. Ég gæti þó haft rangt fyrir mér.

Höfundur er aðalhagfræðingur Kviku.

Greinin birtist í tímaritinu Áramót, sem gefið er út af Viðskiptablaðinu og Frjálsri verslun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .