*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Óðinn
6. febrúar 2018 16:01

Spáskekkjur og fjármálaáætlanir

Fjármálaráðherra á ekki að þurfa hagspár til að sjá að hættulegt sé að auka ríkisútgjöld því hættulegt er að treysta um of á þær.

Haraldur Guðjónsson

Fjármálaráð segir í umsögn um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar m.a. að stefnan byggi á þjóðhagsspá Hagstofunnar sem svo aftur byggði á ríkisfjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir því að haldið yrði aftur af vexti opinberra útgjalda og að virðisaukaskattur yrði lækkaður. 

                                            ***

Þessar forsendur eiga ekki við lengur og segir í umsögn Fjármálaráðs að því megi gera ráð fyrir að verðbólga árið 2019 verði 0,4 prósentustigum hærri en gert er ráð fyrir í hagspá Hagstofunnar, að öðru óbreyttu. Þar er eingöngu verið að tala um áhrif þess að lækka ekki virðisaukaskattinn, en aukin ríkisútgjöld og minni afgangur af rekstri ríkissjóðs geta einnig leitt til hærri verðbólgu en ella. 

                                            ***

Þetta eru áhugaverðar ábendingar og ef spárnar rætast er hætt við því að verðlag hér muni þrýstast meira upp en ella og að kaupmáttur minnki sem því nemur. 

                                            ***

Aðhald er af hinu góða 

Fjármálaráð á hrós skilið fyrir að vara við slökun í aðhaldi í ríkisfjármálunum, en umsögnin kom aftur upp í huga Óðins við lestur á ágætum pistli eftir Fraser Nelson, ritstjóra breska tímaritsins Spectator, sem birtist í blaðinu Telegraph á dögunum. 

                                            ***

Grein Nelson snýst ekki við fyrstu sýn um stjórn ríkisfjármála heldur um áætlanagerð og skekkju í spálíkönum. Fyrr í þessum mánuði greindi breska hagstofan, Office for National Statistics (ONS) frá því að hún hefði gert alvarleg mistök í greiningu á fjarskiptageiranum þar í landi og hafi ekki tekið með í reikninga sína hagræðingu í geiranum upp á allt að 90%. 

                                            ***

Richard Heys, hagfræðingur hjá ONS, sagði á nýlegri ráðstefnu að embættismenn hefðu haft réttar upplýsingar um tekjur og framleiðslu hjá stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins, en að vandinn hafi orðið til þegar reynt var að leiðrétta fyrir verðbólgu. Opinberar tölur sýndu að verð á vörum og þjónustu í fjarskiptageiranum hefði verið óbreytt á milli áranna 2010 og 2015, en að velta hefði dregist saman á sama tíma. Því hefði geirinn í raun dregist saman á tímabilinu. 

                                            ***

Það hafi hins vegar komið á daginn að þær aðferðir sem notaðar eru hafi á engan hátt tekið tillit til þeirra gríðarlegu tæknilegu framfara sem orðið hafa í fjarskiptatækni á þessum tíma, bæði í landlínukerfum og í farsímakerfum. Ef litið væri á símtöl og textaskilaboð sem stafrænar upplýsingar og reiknað út hvað það kosti neytendur að flytja þessar upplýsingar um kerfin kæmi í ljós að verð á hverja einingu upplýsinga hefði lækkað um allt að 90%. 

                                            ***

Þetta þýðir að fjarskiptageirinn breski hefur ekki verið sá dragbítur á framleiðni sem talið hefur verið hingað til, heldur hefur staðið sig einna best af geirum breska atvinnulífsins. Þetta þýðir líka að verðbólga hefur verið stórlega ofmetin á tímabilinu og hagvöxtur vanmetinn. 

                                            ***

Þetta undirstrikar að mati Nelson hættuna af því að einblína um of á hagtölur og hagspár þegar ákvarðanir eru teknar. 

                                            ***

Ekki svo saklaus mistök 

Athuga ber að í þessu tilviki var um algerlega saklaus mistök að ræða. Það er ekki eins og embættismenn hagstofunnar hafi viljandi verið að reyna að hagræða sannleikanum. Þegar kemur að deilunni um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) vakna hins vegar spurningar um það hvort embættismenn hafi gætt fyllsta hlutleysis. 

                                            ***

Embættismenn breska fjármálaráðuneytisins spáðu því t.a.m. að breska hagkerfið myndi dragast saman um allt að 1% á fyrstu þremur mánuðunum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit. Hagkerfið óx hins vegar um 0,5% á þessu tímabili. Ráðuneytið spáði því að í fjóra fjórðunga eftir kosningarnar myndi vera samfellt samdráttarskeið, en reyndin varð sú að hagvöxtur var alla fjóra fjórðungana.

Ráðuneytið spáði því að samdrátturinn myndi nema á milli 3 og 6% næstu tvö ár eftir kosningarnar, en árið 2016 nam hagvöxtur í Bretlandi 1,9% og 1,8% árið 2017. Ráðuneytið spáði því að atvinnulausum myndi fjölga um 500.000-820.000 strax í kjölfar kosninganna, en reyndin er sú að atvinnuleysi í Bretlandi hefur ekki verið lægra í fjóra áratugi. 

                                            ***

Vissulega má vera að embættismenn ráðuneytisins hafi verið jafn hlutlausir í sinni vinnu og starfsmenn ONS, en það breytir ekki þeirri staðreynd að þeir hafa haft ítrekað rangt fyrir sér. 

                                            ***

Íslenskar skekkjur 

Spáskekkjur eru einnig vel þekktar hér á landi. Seðlabanki Íslands sagði sjálfur frá því árið 2012 að frá árinu 2001 hafi verðbólgu eftir fjóra ársfjórðunga að meðaltali verið vanspáð um 1,7% og verðbólgu eftir átta ársfjórðunga um 2,9%. Skýringin lá, að sögn bankans, í gengissveiflum krónunnar. 

                                            ***

Samkvæmt úttekt Kjarnans frá 2015 var hagvaxtarspá Hagstofunnar fyrir árið á eftir aðeins einu sinni rétt á tímabilinu 2000 til 2014, en þessi spá er lögð til grundvallar við gerð fjárlagafrumvarps. Spá Seðlabankans var einnig aðeins einu sinni rétt á þessu tímabili og algengast er að Seðlabankinn og Hagstofan vanmeti hagvöxt í spám sínum. 

                                            ***

Fjármálaráð bendir á einn galla við spágerð á Íslandi í áðurnefndri umsögn sinni. „Allir helstu aðilar hér á landi notast við líkan Seðlabankans við spágerð sína. Þetta er áhyggjuefni. Eðli málsins samkvæmt leiðir þetta til þess að spár eru svipuðum eiginleikum gæddar sem leiðir til einsleitrar umræðu um efnahagsmál og eykur hættu á því að allir geri sömu mistök.” 

                                            ***

Þetta er augljós galli og ætti að vera auðleystur – ef vilji er fyrir hendi. 

                                            ***

Mælingarvandi eða framleiðnivandi? 

Nelson leggur út af þessum atriðum og veltir því upp hvort framleiðnivandi Vesturlanda sé í grunninn mælingarvandi en ekki framleiðnivandi. Það er auðvelt að mæla það fé sem varið er til kaupa á bílum, áfengi og þjónustu endurskoðenda, en á hinni stafrænu öld hefur sambandið milli verðs og virðis verið rofið.

Flest reiðum við okkur á þjónustu sem er ókeypis, en gríðarlega verðmæt. Tölvupóstur, leitarvélar á netinu og fjöldinn allur af öðrum forritum og þjónustu eru ókeypis, en hvað værum við til í að borga fyrir þetta ef við þyrftum að gera það? Hvernig skellum við krónutölu á þessa þjónustu? Í því felst mælingarvandinn. 

                                            ***

Vandinn sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir er sá að þeir hafa allt of lengi treyst um of á hagspár. Kosturinn fyrir stjórnmálamennina er að spárnar gefa þeim möguleika á að varpa ábyrgðinni af ákvörðunum þeirra frá sér. Ef spárnar eru nógu slæmar geta þeir slegið á frest loforðum um skattalækkanir, svo eitt dæmi sé tekið. Hættan er sú að menn fari að rugla saman spám og framtíð, líkani og raunveruleika. Nelson segir að bestu ákvarðanirnar séu teknar þegar menn treysta á eigið innsæi. 

                                            ***

Stóð í lappirnar 

George Osborne varð að einhvers konar grýlu vinstrimanna um heim allan þegar hann ákvað, sem fjármálaráðherra Bretlands, að skera niður opinber útgjöld í kjölfar hrunsins 2008. Hann taldi að fleiri störf myndu verða til í einkageiranum, en sem nam fækkun opinberra starfa. Fyrst um sinn leit út fyrir að tilraunin hefði mistekist og hagtölur sýndu að Bretland var að stefna í aðra kreppu. Hart var lagt að honum að hætta þessari vitleysu og breyta um stefnu. Hann stóð hins vegar í lappirnar og á endanum reyndist hann hafa rétt fyrir sér. Fyrir hvert opinbert starf sem tapaðist við niðurskurðinn urðu átta störf til í einkageiranum. 

                                            ***

Óðinn tekur fram að hann er sammála mörgu sem í gagnrýni Fjármálaráðs kemur fram. Auðvitað ætti að lækka almenna þrep virðisaukaskattsins og hættulegt er á þessu stigi hagsveiflunnar að auka mjög ríkisútgjöld. En fjármálaráðherra á að geta séð það sjálfur. Hann á ekki að þurfa hagspár Seðlabanka og Hagstofu til að sjá það.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.