*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Leiðari
21. febrúar 2016 10:59

Spennandi bolti

Hætt er við því að forpokuð heimóttarmennska sumra Íslendinga vakni til lífs ef erlendur fjárfestir vill kaupa hér fótboltalið.

Hafliði Breiðfjörð

Afar áhugavert er að sjá að erlendir fjárfestar eru farnir að sýna íslenskum knattspyrnuliðum áhuga. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins er farið yfir ástæður þessa áhuga, en í afar einföldu máli er ástæðan sú að á Íslandi er ódýrt að eignast lið sem tekur þátt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu eða Evrópudeildarinnar. Hér er tólf liða deild og af þessum tólf liðum fara fjögur í Evrópukeppni. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Viðskiptablaðið að möguleikar fjárfesta felist fyrst og fremst í því að fá fjármagnið til baka með því að komast í Evrópudeildina eða Meistaradeildina. „Það er þannig séð ekkert mjög löng leið. Með nokkrum súperleikmönnum er þetta kannski hægt,“ segir Geir.

Þróunin í evrópskri knattspyrnu hefur verið á þá leið að fjárfestar sjá í auknum mæli tækifæri í að leggja fé í rekstur góðra liða. Þetta er ekki aðeins að gerast í stóru ríkjunum, heldur einnig á hinum Norðurlöndunum. Danska úrvalsdeildarliðið FC Nordsjælland er þannig komið í eigu bresks félags, sem einnig á og rekur fótboltaakademíu í Gana í Afríku.Ungir og efnilegir menn frá Gana geta fengið tækifæri til að leika með danska liðinu.

Þetta er afar áhugaverð umfjöllun og fróðlegt verður að sjá hvort einhverjir erlendir fjárfestar stíga fram og gera tilboð í íslensk lið. Er rétt að vísa áfram í orð Geirs Þorsteinssonar, en hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að svo lengi sem farið væri eftir reglum KSÍ þá væri ekki hægt að líta erlenda fjárfesta hornauga.

Í lögum KSÍ segir m.a. að aðildarfélögum KSÍ sé heimilt að fela sérstökum hlutafélögum rekstur tiltekinna þátta starfseminnar. Aðildarfélagið þarf að fara með meirihluta atkvæða á aðalfundi hlutafélagsins og megintilgangur hlutafélagsins verður að vera bundinn við rekstur íþróttafélags. Það er því beinlínis gert ráð fyrir því í lögum KSÍ að hægt sé að fá fjárfesta að rekstri knattspyrnudeilda í gegnum sérstök hlutafélög.

Það er hins vegar hætt við því að leiðigjörn og forpokuð heimóttarmennska sumra Íslendinga geri vart við sig þegar og ef erlendur fjárfestir gerir sig líklegan til að bjóðast til fylgilags við íslenskt knattspyrnufélag. Kínverskur maður mátti ekki kaupa mosagróna heiði á Norðurlandi og er því ólíklegt annað en að hreyft verði mótmælum við því ef útlendingar vilja festa kaup á FH, KR, Val eða Fram.

Fjármagn er hins vegar bara fjármagn. Það skiptir ekki máli þótt markmið fjárfestanna sé að ávaxta sitt pund með því að koma íslenskum liðum lengra áfram í Evrópukeppnum. Fyrir aðdáendur liðanna ætti það eitt að skipta máli að árangur þeirra gæti batnað til muna og að vegur íslenskrar knattspyrnu gæti því vaxið enn frekar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.