Vinur minn var einu sinni að spila póker í virðulegum klúbbi og beinlínis rakaði til sín peningum. Hann spilaði vel og var þar að auki heppinn, hvað eftir annað. En svo tók stríðsgæfan að snúast gegn honum, og að lokum sat vinur minn slyppur og snauður við borðið.

Afhverju hætti hann ekki meðan hann var í plús? „Þú hefðir getað keypt þér nýjan bíl,“ sagði einhver. Þá leit vinur minn upp, og mælti, nokkuð þunglega: „Mig langaði ekki í nýjan bíl. Mig langaði í nýja íbúð.“

© BIG (VB MYND/BIG)

Ólafur Ragnar Grímsson hefur haft uppi mörg orð um stórkostlegan ávinning þess að hann hafnaði IceSave-lögunum í fyrra. Voru þetta ekki einir 300 milljarðar, eða meira, sem forsetinn átti að hafa sparað Íslendingum? Alltjent var ljóst að Ólafur var virði þyngdar sinnar í gulli og vel það (lausleg athugun leiðir í ljós að hundrað kíló af gulli kosta kringum milljón dollara). En Ólafur getur ekki hætt, ekki frekar en vinur minn við spilaborðið. Forsetinn leggur allan ávinninginn undir – hann vill spila áfram, sama hvað það kostar.

Og hvað svo? Hin svonefnda dómstólaleið mun að öllum líkindum enda með nauðasamningum, því það er útbreiddur misskilningur að réttlátir dómarar úti í heimi lyfti IceSave-okinu af Íslendingum. „Betri er mögur sátt en feitur dómur,“ einsog Haraldur heitinn Blöndal orðaði það.

Framundan er harðvítug kosningabarátta. Nei-hreyfingin hefur einarða talsmenn: Davíð Oddsson, Jón Val Jensson, Hall Hallsson, Þór Saari. Politics make strange bedfellows, einsog skáldið sagði.

En hverjir eru jámenn Íslands? Jóhanna og Steingrímur eru trúlega ekki rétta fólkið til að selja þjóðinni IceSave. Lögspekingar koma auðvitað sterkir inn, en mestu varðar þó hvort vinnuveitendur og launþegar taka höndum saman. Lausn IceSave snýst ekki bara um að andlegu oki sé lyft af þjóðinni, heldur um atvinnu og kaupmátt og lífskjör á Íslandi. Allt þetta lagði Ólafur Ragnar undir.