*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Týr
24. febrúar 2020 08:02

Spilling eða vanhæfni?

Það er með ólíkindum að fylgjast með orðræðu borgarstjórans og samverkamanna um stjórnsýslu og reikningshald í Ráðhúsinu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Það er með ólíkindum að fylgjast með orðræðu borgarstjórans og samverkamanna hans um stjórnsýslu og reikningshald í Ráðhúsinu. Þar er allt í steik, en samt tala borgarstjóri og hans meðvirku fulltrúar eins og braggamálið gæti hreinlega ekki verið betra og verkferlin aldrei undursamlegri, þökk sé ráðsnilld hans; nánast happ að það hafi komist upp svo hann hafi fengið tækifæri til þess að skoða tölvupóstinn sinn og staðfest að þar væri allt í stakasta lagi.

***

Braggamálið skaut aftur upp kollinum vegna frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns á málinu, en skýrslu þess var laumað inn á lok borgarráðsfundar síðastliðinn fimmtudag, án kynningar, augljóslega í von um að það yrði bara afgreitt án athygli, umfjöllunar eða óþægilegra athugasemda um vinnubrögðin og virðingarleysið fyrir fjármunum útsvarsgreiðenda.

*** 

Næg voru þó tilefnin til athugasemda, því meginniðurstöður Borgarskjalasafns voru að skjalavarsla og skjalastjórn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar (SEA), sem rekin var undir handarjaðri borgarstjóra, vegna framkvæmda við braggann, hefði ekki staðist nokkra skoðun. Eða lög. Sum skjölin duttu óvænt inn í skjalakerfið eftir að athugun Borgaskjalasafns hófst, sum þannig að þau voru óaðgengileg, önnur falin eða gerð þannig úr garði að fjölmiðlar gætu ekki lesið úr þeim, en þar fyrir utan hafi SEA hvað eftir annað hunsað beiðnir borgarlögmanns um gögn þessu viðvíkjandi.

***

Borgarstjóranum þótti þetta fyrirtak og gerði fulltrúa samstarfsflokkanna út til þess að útskýra að þetta væri nú allt í besta lagi, brotin yrðu ekki aftur tekin og því ástæðulaust að gera veður út af þeim. Dómurum þætti það vafalaust frumleg vörn hjá sakborningum, en ekki þó síður þær útskýringar borgarstjóra að rannsókn sín á sjálfum sér hefði orðið til þess að hann væri eiginlega steinhættur að borga út hundruð milljóna króna af fjármunum borgarbúa án útboðs, samninga eða reikninga. Hann væri nú bara nokkuð stoltur af því.

***

 Það er eins og borgarstjóri átti sig hvorki á alvarleika málsins né eigin ábyrgð í því. Hann er nú kominn í þá óþægilegu stöðu að þurfa að gera upp við sig hvort hann vilji játa á sig spillingu eða fullkomna vanhæfni í borgarstjórastóli. Fleiru er ekki til að dreifa.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.