*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
5. febrúar 2021 10:06

Spillingin!

Ályktun Íslandsdeildar Transparency International um að spilling hér á landi hafi aukist á sem betur fer ekki við rök að styðjast.

„Fall Íslands niður spillingarvísitölulistann er mikið áhyggjuefni og stjórnvöld sem og almenningur ættu að huga alvarlega að því hvað gæti valdið þessari þróun og hvernig er hægt að bæta úr stöðunni,“ segir í fréttatilkynningu sem Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, sendi fjölmiðlum fyrir viku.

Alþjóðlegu samtökin Transparency International birta reglulega spillingarvísitölu og á sú nýjasta að mæla spillingu í flestum löndum heims árið 2020. Samkvæmt mælingunni er minnsta spillingin í Danmörku, sem fær 88 stig af 100 en Ísland fellur úr 11. sæti í það 17, þar sem spillingarvísitalan hér á landi féll úr 78 stigum í 75 á milli ára.

Það er virðingarvert að berjast gegn spillingu hvers konar en samtök sem það gera verða líka að stíga varlega til jarðar í að túlka niðurstöður sem byggja á huglægu mati. Ályktun Íslandsdeildar samtakanna, sem vísað er til í byrjun leiðarans, á sem betur fer ekki við rök að styðjast því þegar gögnin er skoðuð kemur í ljós að öryggisbilið er á bilinu 69 til 81 stig. Það er því ekki marktækur munur á milli ársins 2019 þegar vísitalan mældist 78 stig og niðurstöður síðasta árs þegar hún mældist 75 stig.

Í stað þess að senda frá sér tilkynningu, þar sem talað er um fall Íslands sem „mikið áhyggjuefni“ sem stjórnvöld og almenningur ættu að huga „alvarlega“ að hefðu samtökin átt að greina frá því að þar sem munurinn sé ekki marktækur verði að fara varlega í að draga ályktanir af falli Íslands úr 11. í 17. sætið. Það er kannski ekki jafn fréttnæmt en það hefði að minnsta kosti verið rétt framsetning.

Sumir kjörnir fulltrúar tóku þessa fréttatilkynningu Íslandsdeildarinnar gagnrýnislaust til umfjöllunar. Í þinginu innti Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra eftir svörum við það sem hann kallaði spillingarmál. Hóf hann fyrirspurn sína á því að vísa í niðurstöðu Transparency International um að Ísland hefði fallið um sex sæti og spyrti síðan niðurstöðuna við Panamaskjölin og Samherjamálið í Namibíu.

Eins og Viðskiptablaðið greinir frá í blaðinu, sem kom út í gær, er skýr ástæða fyrir falli Íslands á listanum.

Í tilfelli Íslands er spillingarvísitalan reiknuð sem meðaltal stiga frá sjö stofnunum. Þeir sem kynna sér málið sjá að sex af þessum sjö stofnunum gefa Íslandi á bilinu á bilinu 72 til 87 á meðan ein stofnun, Bertelsmann Foundation, gefur Íslandi langt um minna, eða 44 stig af 100. Stigagjöf Bertelsmann Foundation byggir á skýrslu stofnunarinnar sem nefnist „Sustainable Governance Indicators“ (SGI). Hefur þessi skýrsla um árabil verið unnin af Þorvaldi Gylfasyni, prófessor við Háskóla Íslands, og Grétari Þór Eyþórssyni, prófessor við Háskólann á Akureyri. Stóra spurningin er hvað veldur ósamræmi í stigagjöf þeirra og annarra stofnana? Hefur Viðskiptablaðið sent fyrirspurn til alþjóðasamtakanna í tengslum við þetta enda forvitnilegt mál að mörgu leyti, ekki síst þegar stigagjöf byggir á huglægu mati höfunda.

SGI skýrsla tvímenninganna hefur í gegnum árin m.a. fjallað um stjórnarskrána og að stjórnvöld hafi ekki farið að vilja þjóðarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ekki er minnst á tengsl og hagsmuni Þorvaldar Gylfasonar við málið í skýrslunni en hann sat í stjórnlagaráði og hefur ítrekað gagnrýnt stjórnvöld fyrir að taka ekki upp „nýju“ stjórnarskrána. Sú gagnrýni endurómar í SGI-skýrslunni.

Gera verður þær kröfur til kjörinna fulltrúa að þeir kynni sér aðeins málin áður en vaðið er áfram með illa ígrundaðar fullyrðingar. Ef það er ekki nú þegar skýrt þá skýrist fall Íslands niður listann í ár af stigagjöf SGI-skýrslunnar. Og eins og margoft hefur komið fram þá var ekki marktækur munur á stigagjöf milli ára.

Á síðasta ári var boðað til vinnufundar hérlendis í tengslum við spillingar-rannsókn Transparency International. Fjöldi íslenskra sérfræðinga var boðaður á fundi. Var þetta fólk úr stjórnsýslunni, dómskerfinu, lögmenn, endurskoðendur, kjörnir fulltrúar og fjölmiðlafólk. Viðskiptablaðið hefur ítrekað reynt að fá upplýsingar um það hverjir voru boðaðir til þessara funda en mætt tómlæti frá Íslandsdeild samtaka, sem kenna sig við gagnsæi.

Í þessu sambandi má greina frá því að Viðskiptablaðið hefur upplýsingar um það að fulltrúar Kveiks hjá RÚV, Kjarnans, Stundarinnar og Iceland Review hafi verið boðaðir á fundinn. Sé þetta rétt vekur óneitanlega athygli að stóru dagblöðin tvö, Morgunblaðið og Fréttablaðið, hafi ekki átt fulltrúa og fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis ekki heldur. Viðskiptablaðið greinir auðmjúklega frá því að það fékk ekki boð á neinn vinnufund í tengslum við spillingu á Íslandi á síðasta ári.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.