*

miðvikudagur, 22. september 2021
Óðinn
2. júní 2021 07:04

Sprengiregn, Hæstiréttur og Play

Þegar hlustað er á Sprengisand á Bylgjunni ætti öllum að vera ljóst hve óþarft er að skattgreiðendur leggi 4,5 milljarða í RÚV á ári.

Það hefur verið sannkallað sprengiregn á Sprengisandi og var síðasti þáttur veisla fyrir þá sem hafa áhuga á þjóðmálum. Á sunnudaginn var fjallað um ASÍ og Play, dómara og dómstóla og vefverslun með áfengi.

Þegar hlustað er á útvarpsþætti líkt og Sprengisand á einkareknu útvarpsstöðinni Bylgjunni ætti öllum að vera ljóst hversu mikill grundvallarmisskilningur það er að skattgreiðendur leggi fram 4,5 milljarða til reksturs Ríkisútvarpsins. Til að bíta höfuðið af skömminni þá hafa alþingismennirnir, þeir hinir sömu og eyðilögðu rekstrarforsendur frjálsra fjölmiðla á Íslandi með þessum fráleiddu framlögum til Ríkisútvarpsins, ákveðið að styrkja einkarekna fjölmiðla.

Þessi staða er fráleit og þessir styrkir eru fráleitir. Skattgreiðendur eiga ekki að styrkja einkafyrirtæki en skattgreiðendur eiga heldur ekki að halda uppi handónýtum ríkisfyrirtækjum.

En það sem er stórhættulegt við þessa aðferð sem farin er í frumvarpinu sem var samþykkt á þriðjudag á Alþingi, er að tímabinda þessa styrki. Þarna er löggjafinn að segja við þá blaðamenn og útgefendur, að þeir skuli halda sig á mottunni ellegar mun reglum verða breytt og þeir missa styrkinn. Þarna er verið að múlbinda þá einkareknu fjölmiðla sem hafa aldrei og munu aldrei standa í lappirnar. Það er engin tilviljun að þetta er inni í frumvarpinu og sú saga verður auðvit að sögð einn daginn.

* * *

Lágt ris á hæstarétti

Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi Sprengisands, hefur fjallað mikið um dómstóla og dómara. Hefur hann rætt við fyrrverandi hæstaréttardómarana Jón Steinar Gunnlaugsson og Eirík Tómasson. Í máli þeirra tveggja kemur fram ákveðinn grundvallarágreiningur um hvernig vinnubrögð eigi að vera í Hæstarétti, hvernig fara skuli með sérálit í dómum, hvort hæstaréttardómarar eigi og megi tjá sig opinberlega og þar fram eftir götunum.

Meginreglan er sú að dómurum er óheimilt að taka að sér önnur störf, en þá reglu er að finna í 45. gr. laga um dómstóla. Upplýst hefur verið að Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar, er jafnframt prófessor í 48% stöðu og þiggur fyrir það 423.003 krónur á mánuði. Bætist þetta við um 2,5 milljónir króna sem Benedikt fær sem forseti réttarins en laun hæstaréttardómara eru einmitt ákvörðuð með það í huga að þeir sinni ekki öðrum störfum. Það er undantekning frá þessari reglu og nefnd um dómarastörf getur ein veitt undanþágu.

* * *

Eiríkur Tómasson sagði á Sprengisandi að sitt persónulega álit á þessu, spurður um hvort kennsla og störf hæstaréttardómara færu saman, að hann hefði sjálfur látið af starfi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands þegar hann tók við embætti hæstaréttardómara. Hann telji þó að kennsla geti samrýmst dómarastarfinu en hún þurfi að vera hófleg og megi ekki koma í veg fyrir aðhald háskólans á störf dómstólanna.

Orð Eiríks verða ekki skilin á annan veg en að þetta fari bara alls ekki saman og verður að segjast að þarna sýnir forseti Hæstaréttar mikinn dóm greindarbrest. Jafnvel enn meiri dómgreindarbrest en að hafa farið í gegnum öll þrjú dóm stigin á Íslandi og fengið það staðfest, á þeim öllum þremur, að Jón Steinar mátti saka hann um dómsmorð. Eða hvernig vill Benedikt annars að leikmenn skilji dómana þrjá?

* * *

Sjálftaka?

Eitt helsta meinið í íslensku réttarfari er meðferð þrotabúa. Aftur og aftur verða skiptastjórar uppvísir að því að taka óhóflegar þóknanir fyrir störf sem opinberir sýslunarmenn þar sem þeir sitja í skjóli dómstólanna. Þrátt fyrir gríðarlega gagnrýni á þetta fyrirkomulag þá hefur enginn þingmaður, enginn dómsmálaráðherra og enginn lagaprófessor lagt til breytingar á meðferð þessara mála.

Síðast var þetta gagnrýnt í aðsendri grein á visir.is þann 26. maí síðastliðinn. Þar segir Skúli Gunnar Sigfússon, kenndur við Subway, að Sveinn Andri Sveinsson lögmaður hafi reiknað sér og greitt sér 167 milljónir króna í þóknun fyrir störf sín sem skiptastjóri í þrotabúinu EK1923 ehf.

* * *

Það er merkileg tilviljun að sá sem hefur kennt skuldaskilarétt í lagadeild Háskóla Íslands um langt árabil, eða frá árinu 1993, er Benedikt Bogason. Aldrei á þess um tæpu 30 árum hefur Benedikt þótt ástæða til að fjalla um þetta atriði, eins og sést á ritaskrá þeirri sem Benedikt birtir á heimasvæði sínu á heimasíðu lagadeildar Háskóla Íslands. Síðustu tuttugu árin hefur Benedikt verið dómari, þar af dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands í 10 ár, og hefur hann komið að úthlutun þrotabúa. Fara þessi störf saman, að sýsla með þrotabúin og veita dómurum og lögmönnum aðhald úr háskólanum? Ef marka má orð Eiríks Tómassonar þá er ekki svo.

* * *

Svo er auðvitað alveg sérstakur kapítuli að sá lögmaður sem hefur hvað harðast verið gagnrýndur fyrir þóknanir sem skiptastjóri og forseti Hæstaréttar eru gamlir vinir. Reyndar svo nánir að Benedikt vék sæti í máli þrotabús EK1923, þar sem Sveinn var skiptastjóri í máli gegn Sjöstjörnunni, félagi Skúla í Subway. Benedikt gerði þetta reyndar ekki fyrr en lögmaður Sjöstjörnunnar benti Hæstarétti á að menn bjóði ekki kunningjum í útskriftarveislu heldur vinum sínum. Þá höfðu þeir vinirnir birt mynd af sér á samfélagsmiðli með yfirskriftinni „Sveinn Andri Sveinsson og Benni Boga eru saman“. Saman í hverju?

* * *

Alþýðusambandið gengur af göflunum Drífa Snædal mætti Birgi Jónssyni, forstjóra flugfélagsins Play, í Sprengisandi. Í þættinum kallaði Drífa samninga Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands aftur og aftur nauðasamninga. Þetta litla atriði sýnir firringu forseta ASÍ.

Staðreyndin er sú að samningar flugfreyja eru miklu betri en þeir samningar sem erlendir samkeppnisaðilar Icelandair hafa gert. Miklar líkur eru á því að þegar samningarnir renna út muni flugfreyjur breytast í gíslatökumenn og stórhækka laun sín. Þá verður enginn grundvöllur fyrir rekstri Icelandair og félagið fer í fjárhagslega endurskipulagningu, með tilheyrandi launalækkunum eða gjaldþroti.

Drífa sagði að „stéttarfélög hafi hér gert samninga til að verja lífskjör í landinu…“ Þetta er í besta falli umdeilanlegt. Lífskjör eru ekki varin með því að hækka laun umfram það sem fyrirtæki sem fólkið starfar hjá ræður við. Launahækkanir á Íslandi hafa verið langt umfram það sem þær hafa verið í samanburðarlöndum okkar. Það er miklu meiri hætta á að þessar hækkanir muni skerða lífskjör almennings en bæta þau. Fyrirtæki og fjárfestar leita nú allra ráða til að lækka launakostnað með tækjum og tólum. Það skyldi þó ekki fljótlega verða svo að flugvélum verði flogið án flugmanna og flugfreyja, heldur stjórnað af tölvum og kaffið eða drykkurinn borinn fram af vélmenni?

* * *

Í þættinum hélt Drífa því aftur og aftur fram að grunnlaun flugfreyja hjá Icelandair væru 307.398 krónur. Andrea Sigurðardóttir, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, fjallaði á vef blaðsins, vb.is, um umfjöllun Alþýðusambandsins um laun flugliða hjá Icelandair og Play undir fyrirsögninni „Útreikningar ASÍ standast ekki skoðun“.

Þar eru birtar launatöflur flugfreyja hjá Icelandair og þar kemur fram að það sem Drífa heldur fram um grunnlaun Icelandair voru rangar. Því verður ekki betur séð en að Alþýðusamband Íslands hafi ályktað gegn nýju flugfélagi sem getur tryggt samkeppni í flugrekstri á grundvelli rangra gagna. Hvað gengur þessu fólki til?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.