*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Leiðari
30. maí 2020 15:11

Sprotar og kreppur

Þjóðin á ekki að þurfa að ganga í gegnum kreppu til að frumkvöðlastarf fái byr undir báða vængi.

Eftir bankahrunið komst kraftur í nýsköpun og frumkvöðlastarf enda er jarðvegurinn frjósamur eftir sinuelda og sprotarnir taka við sér. Þetta er gömul saga og ný sem endurspeglast ágætlega í því að nú, í miðri kreppu, berst hávært kall um aukna áherslu á frumkvöðlastarf.

Þetta er merkileg þróun því allir vita að sprotar leysa ekki skammtímavandamál sem skapast í kreppum. Nýsköpun er langtímaverkefni sem krefst þolinmóðs fjármagns og yfirleitt ber hún ekki ávöxt fyrr en eftir langan tíma.

Í þessu samhengi má benda á að fræjunum að einu merkasta nýsköpunarfyrirtæki landsins var sáð árið 1978 þegar nokkrir vísindamenn og frumkvöðlar lögðu grunninn að Marel. Fyrirtækið var formlega stofnað fimm árum síðar og þegar það var skráð á Verðbréfaþing Íslands árið 1992 voru starfsmennirnir 45 talsins og tekjurnar námu 6 milljónum evra. Það tók sem sagt 14 ár að koma fyrirtækinu í þessa stöðu. Í dag er Marel orðið alþjóðlegt hátæknifyrirtæki með á sjöunda þúsund starfsmenn í tugum landa og veltan komin í tæplega 1,3 milljarða evra.

Saga Marel, og reyndar fleiri fánabera íslensks hugvits eins og Össurar, sýnir að til mikils er að vinna. Það á því ekki að þurfa kreppur til að blása lífi í frumkvöðlastarf og opna augu stjórnvalda og fjárfesta fyrir mikilvægi þess. Í vikunni bárust þau jákvæðu tíðindi að fjarskiptafyrirtækið Nova hefði ákveðið að fara í samstarf með Icelandic Startups og hleypa af stokkunum nýjum viðskiptahraðli, sem nefnist Startup SuperNova. Tekur Nova þar með við kyndlinum af Arion banka, sem síðasta haust sagði sig frá verkefninu Startup Reykjavík. Hafði bankinn þá stutt við bakið á því frumkvöðlastarfi frá árinu 2012.

Fyrir utan mikilvægi þess að gefa nýju fólki og fyrirtækjum kost á að taka þátt í viðskiptahraðlinum og njóta þar leiðsagnar reyndra frumkvöðla og fjárfesta þá er gerð jákvæð breyting á fyrirkomulaginu. Ólíkt Startup Reykjavík þá er ekki lengur gerð sú krafa að þátttakendur séu með nýja kennitölu heldur stendur starfsfólki rótgróinna fyrirtækja til boða að taka þátt.

Nýsköpun og frumkvöðlastarf hefur skilað þjóðinni miklu í gegnum árin. Nefnd hafa verið fyrirtækin Marel og Össur en listinn er miklu lengri. Má til dæmis nefna Nox Medical, Kaptio, Meniga, Skagann 3X og Tempo. Þau tvö síðarnefndu eru raunar af svipuðum meiði að því leyti að þau verða til í innra starfi rótgróinna fyrirtækja. Skaginn 3X er í grunninn skipasmíðastöð og Tempo verður til inni í Nýherja, nú Origo. Innri nýsköpun íslenskra fyrirtækja hefur að mörgu leyti blómstrað á síðustu árum. Rótgróin fyrirtæki hafa endurnýjað sig með nýsköpun. Vonandi mun sú þróun halda áfram.

Enn fremur er mikilvægt að hlúð sé að litlu viðkvæmu sprotunum, sem eru að byrja að vaxa. Besta leiðin til þess er að þessi fyrirtæki búi við traust rekstrarumhverfi, þétt ofið stuðningsnet og síðast en ekki síst þá er mikilvægt að reglugerðarfarganið sé ekki of flókið og óþarfa múrar reistir. Sumir sprotanna munu vaxa og dafna en aðrir deyja drottni sínum. Þeir frumkvöðlar sem sigla í strand eru hins vegar alltaf reynslunni ríkari. Frumkvöðlaheimurinn er fullur af dæmisögum af fólki, sem neitaði að gefast upp þó á móti blési.

Stikkorð: nýsköpun kreppa sprotar Frumkvöðlar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.